Nauðungarsala

47. fundur
Þriðjudaginn 10. desember 1991, kl. 14:38:00 (1795)

     Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
     Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um frv. til laga um nauðungarsölu sem er 62. mál þessa löggjafarþings, frá hv. allshn. Mál þetta hefur hlotið ítarlega umfjöllun í nefndinni og hefur verið tekið fyrir á sjö fundum alls, í fyrsta sinn hinn 12. nóv. sl. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að þakka þeim hv. alþm. sem sæti eiga í allshn. Alþingis fyrir vel unnin störf og þá ekki síst með það í huga að aukafundir hafa verið allmargir, þ.e. fundir utan hins venjubundna fundartíma. Með leyfi virðulegs forseta mun ég nú gera grein fyrir því nefndaráliti sem hér er mælt fyrir fyrir hönd allshn.
        ,,Nefndin hefur fjallað ítarlega um frumvarpið. Á fundi nefndarinnar kom Markús Sigurbjörnsson prófessor. Einnig komu Hrafn Bragason, hæstaréttardómari og formaður réttarfarsnefndar, Gestur Jónsson, formaður Lögmannafélags Íslands, Valtýr Sigurðsson, formaður Dómarafélags Íslands, Garðar Gíslason, formaður Lögfræðingafélags Íslands, og Rúnar Guðjónsson, formaður Sýslumannafélags Íslands.
    Frumvarpið er liður í heildarendurskoðun löggjafar um dómstólaskipan, réttarfar og meðferð framkvæmdarvalds í héraði og er sniðið að þeirri skipan sem kveðið er á um í lögum um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92/1989. Felur frumvarpið í sér nokkur nýmæli sem horfa til réttarbóta. Vert er að tiltaka sérstaklega þrjú atriði:
    Í fyrsta lagi er lögð til sú grundvallarbreyting á framkvæmd nauðungarsölu að hún verði stjórnsýsluathöfn í stað dómsathafnar, sbr. ákvæði núgildandi laga, nr. 57/1949. Er það gert í samræmi við þá skipan sem aðskilnaður dómsvalds og umboðsvalds í héraði hefur í för með sér, þ.e. að framkvæmd fullnustugerða og búskipta og álíka verka er tekin undan starfssviði dómstóla og færð til sýslumanna.
    Í öðru lagi er mælt fyrir um heimildir til þess að ákveða að nauðungarsala eignar fari fram á almennum markaði í stað þess að hún verði seld á uppboði. Með þessum heimildum er verið að stuðla að því að sem hæst verð fáist fyrir eign hverju sinni. Enn fremur er stefnt að því að færa skilmála við uppboðssölu um ýmis önnur atriði en greiðslu kaupverðs nær venjubundnum skilmálum við kaup í frjálsum viðskiptum.
    Í þriðja lagi gerir frumvarpið ráð fyrir reglum um sérstaka greiðsluáskorun áður en beiðst er nauðungarsölu. Margar beiðnir um nauðungarsölu eru afturkallaðar vegna greiðslu skömmu eftir að þær koma fram og má búast við að þeim fækki við formlega greiðsluáskorun. Í frumvarpinu er og leitast við að einfalda framkvæmd nauðungarsölu frá því sem nú er.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.``
    Undir nál. rita Sólveig Pétursdóttir, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Björn Bjarnason, Ingi Björn Albertsson, Jón Helgason, Össur Skarphéðinsson, Eyjólfur Konráð Jónsson, Kristinn H. Gunnarsson, Ólafur Þ. Þórðarson, þeir þrír síðastnefndu með fyrirvara.
    Hæstv. forseti. Ég mun nú leitast við að gera frekari grein fyrir aðalatriðum þessa frv. sem hér er til umræðu. Heildarendurskoðun á lögum um framkvæmd nauðungarsölu hefði verið óhjákvæmileg þótt ekki hefði komið til lagasetningar um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði vorið 1989. Frv. þetta er lagað að nýrri réttarfarsskipan sem aðskilnaðarlögin lögðu grunninn að en hafa verið útfærð á öllum sviðum íslensks réttarfars í löggjöf á síðustu tveimur árum og tekur gildi um leið og aðskilnaðarlögin 1. júlí 1992. Fyrir utan aðlögun á reglum um framkvæmd nauðungarsölu að nýrri verkaskiptingu milli handhafa dómsvalds og framkvæmdarvalds eru gerðar tillögur um margvíslegar breytingar í frv. sem eiga ekki rót að rekja til hennar en voru þó orðnar mjög aðkallandi. Verði frv. að lögum má ætla að réttarstaða þeirra sem verða að þola að eign þeirra sé seld nauðungarsölu verði stórum bættari en nú er. Ákvæði þess ganga mjög í þá átt að tryggja réttarstöðu þeirra en að auki er leitast við að draga úr þyngslum og óþörfum formsatriðum við framkvæmd nauðungarsölu sem óneitanlega hafa sett mark sitt á framkvæmd nauðungaruppboða eftir núgildandi lögum. Loks má ætla að málum af þessu tagi fækki töluvert ef frv. verður að lögum.
    Fjöldi uppboðsmála í íslensku réttarkerfi er vægast sagt óeðlilegur í dag og í engu samræmi við það sem gengur og gerist hjá nágrannaþjóðum sem búa þó við svipaða löggjöf. Ég mun nú draga saman í stuttu máli með hvaða hætti frv. ráðgerir að þessum markmiðum verið náð.
    Eitt helsta nýmælið sem það kveður á um er valkostur sem þolandi nauðungarsölu hefur um að reynt verði að selja eign á frjálsum markaði áður en til uppboðs kemur. Af þessari ástæðu er tilkomið nafn frv. um nauðungarsölu í stað þess að það varði eingöngu reglur um nauðungaruppboð. Valkosturinn um sölu eigna á frjálsum markaði er ein þeirra

leiða sem farin er í frv. til að stuðla að því að sem hæst verð fáist fyrir eignir. Sú gagnrýni hefur komið fram á framkvæmd nauðungaruppboða að gerðarþolar séu iðulega hlunnfarnir vegna þess hve lágt verð fæst fyrir eignir á uppboðum. Þótt erfitt sé að staðreyna að hvaða marki þessi gagnrýni á rétt á sér eru vissulega til dæmi um að eignir séu seldar á nauðungaruppboði á verði sem er langt fyrir neðan eðlilegt markaðsverð. Það er mikilvægt að fyrirbyggja að slík tilvik komi upp en ekki skiptir síður máli að reynt verði að stuðla að því almennt að söluverð eigna verði hærra en núverandi reglur gefa kost á.
    Í reglum frv. um framkvæmd nauðungarsölu á almennum markaði er í þessum tilgangi ráðgert að leitað verði tilboða í eign með hliðstæðum hætti og við sölu í frjálsum viðskiptum, t.d. fyrir atbeina fasteignasala þegar um fasteign er að ræða. Frændþjóðir okkar, Danir og Svíar, gerðu sambærilegar breytingar á löggjöf sinni um nauðungarsölu fyrir meira en áratug í sama markmiði og hafa þær gefist vel. Burt séð frá því hvort hærra verð fæst fyrir eign með því að nýta þennan valkost má ekki gleyma því að með honum er hægt að komast hjá eiginlegri uppboðsmeðferð sem kann oft að virðast harkaleg gagnvart þolendum hennar. Þessi leið er því án efa ekki jafnþungbær fyrir gerðarþola og þegar einhverjar fasteignir í eigu einstaklinga eru boðnar upp á nauðungaruppboði.
    Á hverju ári eru beiðnir um fasteignauppboð í Reykjavík einni yfir 20 þúsund talsins. Hvergi er að finna hliðstæðu um slíkan fjölda uppboðsbeiðna í nágrannalöndum okkar þar sem þó er búið við sambærilega löggjöf við nauðungarsölu. Hins vegar ber að gæta að því að langstærsti hluti þeirra uppboðsbeiðna sem koma fram er afturkallaður. Þetta bendir til þess að skuldarar geri sér fyrst grein fyrir alvöru vanskila þegar þeir fá tilkynningu um að beiðni um nauðungaruppboð sé komin fram. Jafnframt má ætla að eitthvað skorti á að skuldheimtumenn reyni að innheimta kröfur sínar eftir öðrum leiðum áður en beiðni um nauðungaruppboð er lögð fram, jafnvel þótt kröfufjárhæðir séu mjög lágar, en einmitt í þeim tilvikum leitast skuldarar við að ná samningum við kröfuhafa eða greiða skuldina þegar uppboðsbeiðni kemur fram.
    Í frv. er sú regla lögð til að það verði í flestum tilvikum skilyrði fyrir því að beiðni um nauðungarsölu verði komið fram, að skuldheimtumaður hafi áður sent skuldara formlega greiðsluáskorun. Þar er skuldinni lýst og skorað á skuldara að greiða hana fyrir ákveðinn tíma en að öðrum kosti verði farið fram á nauðungarsölu á eignum hans. Enga áþekka reglu er að finna í núgildandi lögum og verður þetta án efa til þess að skuldarar taka við sér í mörgum tilvikum áður en beiðni um nauðungarsölu er lögð fram. Það leiðir sjálfkrafa af sér að beiðnum um nauðungarsölu hlýtur að fækka og fjöldi þeirra að verða í meira samræmi við það hve margar nauðungarsölur fara raunverulega fram. Jafnframt hlýtur slík tilkynningarskylda af hálfu skuldheimtumanna að bæta réttarstöðu þeirra skuldara sem í hlut eiga, enda skortir nú oft á að þeir fái nægar upplýsingar um innheimtuaðgerðir sem er beint gegn þeim. Í sama markmiði ráðgera reglur frv. að eitt fyrsta verk sýslumanns sem tekur á móti beiðni um nauðungarsölu sé að senda gerðarþola afrit af henni í ábyrgðarbréfi eða með öðrum tryggum hætti ásamt tilkynningu um hvar og hvenær sýslumaður tekur hana fyrir.
    Í núgildandi lögum um nauðungaruppboð er ekki að finna neinar reglur um hvernig standa skuli að því að taka lausafjármuni úr vörslum gerðarþola áður en til uppboðs kemur. Þetta hefur leitt af sér óvissu og misjafn háttur hefur verið hafður á þessu í framkvæmd. Þó virðist að gerðarþolar séu sviptir lausafjármunum án tengsla við það hvenær munirnir kunna að fást seldir. Alger óvissa getur því ríkt um hvenær munir verða seldir á uppboði þegar gerðarþoli er sviptur þeim og sjaldnast er ástæða til að ætla að gerðarþoli komi munum undan þótt hann hafi þá áfram í sinni vörslu.
    Í aðfararlögum nr. 90/1989, sem taka gildi 1. júlí 1992, er sú leið farin að heimila aðeins vörslusviptingu á lausafjármunum við fjárnám ef sérstök ástæða er til að búast við hættu á spjöllum á eign eða ólögmætri meðferð hennar ef hún verður áfram í vörslu skuldara. Heimildir til vörslutöku strax við fjárnámið verða því nánast neyðarreglur til að verja hagsmuni gerðarbeiðanda. Þeirri fyrirætlan er jafnframt lýst í athugasemdum sem lagðar voru fram með frv. á sínum tíma að almenna reglan í framtíðinni skyldi vera að vörslutaka á eignum mundi eingöngu eiga sér stað í tengslum við nauðungarsölu. Ákvæði frv. til laga um nauðungarsölu, sem er hér til umfjöllunar, eru sniðin eftir þessari fyrirætlan. Það er fyrst í beiðni um nauðungarsölu sem gerðarbeiðandi getur krafist vörslutöku sem er nauðsynleg vegna fyrirhugaðrar sölu. Telji sýslumaður að skilyrði til vörslutöku sé uppfyllt áritar hann beiðnina um það ásamt því sem skylt er að taka fram hvar og hvenær eigninni verður ráðstafað. Þessi áritun sýslumannsins á síðan að koma fram á afriti af beiðni um nauðungarsölu sem gerðarþola er send með sértakri tilkynningu, eins og lýst var hér áðan. Gerðarþoli fær því strax frá byrjun upplýsingar um hvernig framkvæmd gerðarinnar, hvað þetta varðar, verður háttað.
    Hér hefur verið lýst nokkrum nýmælum í frv. til laga um nauðungarsölu sem ætlað er að móta nýja framkvæmd á þessum vettvangi án þess þó að nákvæmlega hafi verið lýst í hverju breyttur verkgangur nauðungarsölu felst. Ég greindi frá því hér í upphafi að mörg ákvæði frv. stefndu að því að bæta réttarstöðu þeirra sem verða að þola nauðungarsölu á eignum sínum og gera hana skýrari en hún er samkvæmt núgildandi lögum. Þó má ekki draga þá ályktun af þessu að verið sé að torvelda þeim sem eiga lögvarðar kröfur á hendur skuldara að neyta réttar síns. Fyrir það fyrsta má nefna að það hlýtur óhjákvæmilega að verða kröfuhöfum til hagsbóta ekki síður en skuldaranum ef hærra verð fæst fyrir eignir með sölu þeirra á frjálsum markaði. Eins má ætla að skuldheimtumönnum sé akkur í því að losna við meðferð máls um nauðungarsölu hjá sýslumanni og að þeir fái í mörgum tilvikum kröfur sínar greiddar að undangenginni greiðsluáskorun til gerðarþolans. Umfram allt er það þó mikilvægt hagsmunamál fyrir alla aðila að nauðungarsölu að málsmeðferð eftir ákvæðum frv. verður liprari og einfaldari í sniðum en framkvæmd þessara mála er í dag.
    Hæstv. forseti. Núgildandi lög um nauðungaruppboð voru sett fyrir rúmum 40 árum þegar enginn sá fyrir að uppboða yrði krafist í þeim mæli sem reyndin hefur orðið. Ákvæði þeirra miða við að beiðnir um nauðungaruppboð séu fátíðar og hver og ein fái meðferð sem er í raun þunglamaleg og setur hömlur á hraða málsmeðferðar og mál hrannast upp af þeim sökum. Reglur þessar hæfa því illa þeim aðstæðum sem uppi eru í dag. Ýmis tilgangslítil formsatriði samkvæmt þeim leiða til ástæðulausrar fyrirhafnar og kostnaðar fyrir alla sem eiga hlut að máli og gefa oft tilefni til málþófs. Nýjar og einfaldari reglur, sem frv. ráðgerir, draga án efa úr kostnaði og fyrirhöfn allra sem hlut eiga að máli við nauðungarsölu. Þá verður einkum dregið úr álagi sem hvílir á þeim embættismönnum sem framkvæma nauðungarsölu sem jafnframt dregur úr útgjöldum ríkisins vegna þessa málaflokks. Ótvíræður vinnusparnaður er af nýjum verklagsreglum fyrir þá sem framkvæma nauðungarsölu ef frv. nær fram að ganga og ekki síst er mikilvægt að það markmið náist að nauðungarsölum fækki verulega í framtíðinni.
    Að lokum vil ég ítreka það álit hv. allshn. að frv. þetta verði samþykkt óbreytt.