Fjárlög 1992

48. fundur
Miðvikudaginn 11. desember 1991, kl. 17:51:00 (1813)

     Pálmi Jónsson :
     Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi leyfa mér að taka undir þær þakkir sem hafa komið fram frá samnefndarmönnum mínum fyrir samstarf í nefndinni og þó einkum og ekki síst til þeirra starfsmanna sem starfað hafa að þessum málum með nefndinni fyrir 2. umr. Í nál. minni hluta fjárln. kemur fram gagnrýni á það vinnulag og þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið í nefndinni fyrir 2. umr. og sagt að það sé einsdæmi að tillögur frá ríkisstjórn hafi borist svo seint sem raun ber vitni. Þetta er að mínum dómi rangt. Það hefur iðulega gerst að tillögur hafi borist á síðustu stundu og ég man eftir því á síðasta kjörtímabili að fjárln., sem þá hét fjárveitinganefnd, var vinnulaus dögum saman, eina fimm daga, meðan verið var að bíða eftir tillögum frá ríkisstjórn. Síðan voru þær afgreiddar á einum morgunfundi rétt fyrir umræðu. Það er því fjarri lagi að hér sé um eitthvert einsdæmi að ræða. Ég vil hins vegar taka fullt tillit til sjónarmiða minni hlutans og þeirrar aðstöðu sem minni hlutinn er settur í hverju sinni, enda hef ég reynslu sem slíkur, og ég lagði til að umræðunni yrði frestað um einn dag af þeim sökum að tillögur er varða gjaldahlið komu nokkuð seint fram.
    Að því er varðar tekjuhlið þá er það venja að leitast við að sýna frumvörp um tekjur ríkisins fyrir 2. umr. og það er sú venja sem hér er fylgt og er eðlilegt að henni sé haldð. Ég vísa því á bug að það hafi verið eðlileg afstaða hjá minni hlutanum að hafna því að flytja með okkur í meiri hlutanum brtt. við 4. gr. sem nefndin öll hafði unnið að. Eðlilegt var að þannig hefði verið á málum haldið samkvæmt venju en jafneðlilegt hefði verið fyrir minni hlutann að hafna því að eiga aðild að þeim tillögum sem áttu rætur sínar í samþykktum ríkisstjórnar frá því 9. des. sl. Ef þetta hefði verið gert hefði verið fylgt venjulegu vinnulagi en út af þessu er nú brugðið.
    Þegar núv. hæstv. ríkisstjórn var mynduð á vordögum fyrir rúmum sjö mánuðum var flestum ljóst að hennar beið ekki einungis dans á rósum. Vandamálin, sem óhjákvæmilegt var að takast á við, voru hrikaleg. Alvarlegust voru þau að mínum dómi á sviði ríkisfjármála og atvinnumála. Í raun og veru má telja þarflaust af minni hálfu að lýsa því með mörgum orðum hvernig þessi vandi hefur orðið til. Væntanlega hefur enginn lýst því oftar eða ítarlegar í þesum ræðustóli hvert stefndi í fjármálum ríkisins síðustu árin en sá sem hér stendur.
    Þegar ráðast þarf að lausn á slíkum vanda, sem nú er við að fást, má telja gagnslaust að draga fram sökudólga að öðru leyti en því hver nauðsyn það er að læra af reynslunni. Almennt má þó segja að rætur þessa vanda liggi víða. Ein sú gildasta er hin mikla lægð sem við göngum nú í gegnum í efnahagskerfinu og virðist ætla að verða langærri og erfiðari en oftast áður. Á næsta ári er enn spáð alvarlegum samdrætti í framleiðslu og tekjum þjóðarbúsins en þetta samdráttarskeið hófst á miðju ári 1987. Hitt liggur ljóst fyrir að fráfarandi hæstv. ríkisstjórn mistókst að bregðast við þessum aðstæðum í þjóðarbúskapnum bæði í fjármálum ríkisins og í atvinnumálum. Umfang ríkiskerfisins var aukið, útgjöld ríkissjóðs fóru sívaxandi sem hlutfall af landsframleiðslu. Ríkissjóður tók til sín sífellt stærri hluta af ráðstöfunarfé þjóðarinnar þannig að minna var eftir fyrir aðra, heimilin í landinu og fyrir atvinnuvegina. Þrátt fyrir þetta var ríkissjóður rekinn með alvarlegum halla sem súpa varð seyðið af með gríðarlegum lántökum er ollu spennu á lánsfjármarkaði og háum vöxtum sem allir þekkja. Samtímis er svo komið að vextir ríkissjóðs eru orðnir 1 / 10 hluti ríkisútgjalda.
    Alvarlegast er þó að fyrrv. hæstv. ríkisstjórn hafði tekið ákvarðanir, undirritað skuldbindingar og gefið út loforð og fyrirheit um margs konar útgjöld, fjárfestingu, húsakaup, tækjakaup og rekstur sem engir peningar voru til fyrir heldur átti að greiða þetta seinna þegar aðrir væru komnir til að leysa vandann og það fellur í hlut núv. hæstv. ríkisstjórnar.
    Við afgreiðslu fjarlaga fyrir ári hafði ég dregið saman tölur um hallarekstur, skuldbindingar og ábyrgðir, sem fyrrv. hæstv. ríkisstjórn hafði staðið fyrir og velt yfir á framtíðina, sem samtals námu um 53 milljörðum kr. Áður en sú hæstv. ríkisstjórn fór frá hafði hún bætt drjúgum við þá fjárhæð sem sumir ráðherrar hennar kölluðu bögglauppboð. Öllu var þessu velt á framtíðina og þeir baggar bundnir þannig að undan því varð eigi vikist að þjóðin axlaði þá. Þannig var aðkoman hjá núv. hæstv. ríkisstjórn í fjármálum ríkisins.
    Hæstv. ríkisstjórn setti sér það mark að ná jafnvægi í fjármálum ríkisins á tveimur árum án þess að um skattahækkanir væri að ræða. Það var jafnframt markmið ríkisstjórnarinnar að með þeim hætti væri búið í haginn fyrir tvö seinni ár kjörtímabilsins þannig að þá mætti taka skattakerfið til endurskoðunar í þeim tilgangi að ná fram lækkun skatta. Í samræmi við þessa stefnu var fjárlagafrv. lagt fram og það markmið sett að halli á fjárlögum fyrir árið 1992 skyldi eigi verða meiri en 4 milljarðar kr. Eftir að frv. var lagt fram versnuðu, sem kunnugt er, afkomuhorfur þjóðarbúsins enn frá því sem áður var áætlað, m.a. vegna versnandi viðskiptakjara og vegna þess að fresta varð áætlun um byggingu álvers. Enn fremur voru spár og ákvarðanir er lutu að afrakstri sjávarafla með þeim hætti að þar var enn um samdrátt að ræða. Var talið að á næsta ári hyrfu af þessum sökum tekjur frá ríkissjóði sem næmu um 1 1 / 2 milljarði kr. frá því sem áður hafði verið áætlað.
    Við þessum nýju aðstæðum varð að bregðast og það hefur hæstv. ríkisstjórn gert með þeim tillögum sem hún kynnti þann 9. þessa mánaðar. Meiri hluti fjárln. hefur unnið í samræmi við þá kröppu stöðu, sem hér er í örfáum orðum lýst, í fjármálum ríkisins. Hv. formaður fjárln. hefur í ræðu sinni hér á undan lýst ítarlega starfi nefndarinnar fyrir afgreiðslu frv. við 2. umr. Eins og þar kom fram hefur verið sparlegar haldið á málum um aukin útgjöld í tillögum fjárln. en nokkru sinni fyrr í tíð fjárln. á undanförnum árum. Samtímis hefur meiri hluti fjárln. flutt breytingartillögur til lækkunar á ýmsum liðum frv. sem nema hærri fjárhæðum heldur en þær útgjaldatillögur eru sem meiri hlutinn flytur. Tillögur meiri hlutans um þetta efni eru ekki að fullu komnar fram heldur bíður hluti þeirra 3. umr. Skylt er að minna á það að sumar af þeim hækkunartillögum sem meiri hluti nefndarinnar flytur er vegna leiðréttinga, sem ævinlega verða einhverjar, vegna þess að upplýsingar liggja ekki fyrir alls staðar, sem æskilegt væri, þegar fjárlagafrv. er samið.
    Við sem störfum í meiri hluta nefndarinnar höfum litið á það sem skyldu okkar við þessar erfiðu aðstæður að leggja okkar lóð á vogarskálina til þess að þau markmið megi nást sem ríkisstjórnin hefur sett í fjármálum ríkisins. Þegar þannig er haldið á málum er ljóst að margar óskir liggja óbættar hjá garði sem við hefðum kosið að geta orðið við. Það er smátt skammtað til fjölmargra þýðingarmikilla viðfangsefna og það er gripið til niðurskurðar og samdráttar sem ýmsum verður sársaukafullur. Í fyrsta sinn er verið að boða stöðvun á útþenslu ríkiskerfisins og raunverulegan sparnað á nokkrum sviðum þess. Þetta gerist ekki átakalaust. Það þarf enginn að láta sér detta það í hug, það eru engin töfrabrögð til í þessum efnum sem ekki koma við neinn. En það er nauðsynlegt að ná þessum markmiðum af mörgum orsökum.
    1. Það er nauðsynlegt til þess að stórminnka lántökur ríkissjóðs. Við það slaknar á þenslunni á lánsfjármarkaðinum og vextir hljóta að lækka verulega.
    2. Ríkissjóður verður að gefa heimilunum í landinu og atvinnuvegunum meira svigrúm með því að draga úr sókn sinni eftir ráðstöfunarfé þjóðarinnar.
    3. Þessi markmið eru forsenda þess að unnt sé að viðhalda stöðugleika í verðlagsþróun í landinu.
    4. Þetta er forsenda þess, sem ekki er veigaminnst, að ætla megi að við náum kjarasamningum sem viðhaldi stöðugleika í efnahagskerfinu.
    Í hnotskurn má segja að ef ekki væri gripið til aðgerða í fjármálum ríkisins og áfram væri látið vaða á súðum með sambærilegum hætti og var í tíð fyrri ríkisstjórnar værum við að grafa undan atvinnuvegum landsmanna og leiða kollsteypu yfir efnahagskerfi þjóðarinnar. Með nýjum tökum á fjármálum ríkisins í samræmi við markmið hæstv. ríkisstjórnar erum við á hinn bóginn að skapa möguleika til þess að rétta við stöðu atvinnuveganna, viðhalda stöðugleika í efnahagskserfinu, lækka verðbólgu og stórlækka vexti. Mér er fullljóst að samdrætti í fjármálum ríkisins, svo sem nú er stefnt að, fylgja sárindi fyrir ýmsa og erfiðleikar. En þeir erfiðleikar eru þó smáræði ef litið er til framtíðarinnar hjá því að fá yfir okkur hverja kollsteypuna á fætur annarri, gengisfellingar, óðaverðbólgu og okurvexti. Þetta er það sem við blasir ef árangur næst ekki. Þrátt fyrir að ýmsum þyki einstök atriði í tillögum ríkisstjórnarinnar erfið, og á þeim sjónarmiðum hef ég fullan skilning, þá er heildarsvipur þeirra þannig að ríkisstjórnin mun hljóta virðingu og traust af ef þessum markmiðum verður náð.
    Virðulegi forseti. Ég er reiðubúinn að fresta ræðu minni.