Aðskilnaður dómsvalds og umboðsvalds í héraði

49. fundur
Miðvikudaginn 11. desember 1991, kl. 20:33:00 (1814)

     Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
     Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. allshn. um frv. til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna aðskilnaðar dómsvalds og umboðsvalds í héraði. Það mál er 61. mál þessa löggjafarþings. Með leyfi virðulegs forseta vil ég gera grein fyrir þessu áliti:
    ,,Nefndin hefur fjallað um frv. og fékk á sinn fund Markús Sigurbjörnsson prófessor, Hrafn Bragason, hæstaréttardómara og formann réttarfarsnefndar, Gest Jónsson, formann Lögmannafélags Íslands, Valtý Sigurðsson, formann Dómarafélags Íslands, Garðar Gíslason, formann Lögfræðingafélags Íslands, Rúnar Guðjónsson, formann Sýslumannafélags Íslands, Þorstein Geirsson, ráðuneytisstjóra í dómsmálaráðuneytinu, Ara Edwald, aðstoðarmann dómsmálaráðherra, Þorstein A. Jónsson, deildarstjóra í dómsmálaráðuneytinu, og Þorbjörn Hlyn Árnason biskupsritara. Þá barst nefndinni umsögn formanns réttarfarsnefndar og dómsmálaráðuneytisins um frumvarpið.
    Í frumvarpinu eru ákvæði sem mæla fyrir um breytingar á lögum sem ætlunin er að breyta samkvæmt frumvörpum sem lögð hafa verið fram á þessu þingi. Í varúðarskyni ákvað nefndin að hrófla ekki við þessum ákvæðum.
    Nefndin leggur til að gerðar verði eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
    1. Í 7. gr. frv. er ranglega vísað í 8. gr. laga nr. 12/1922. Þar skal vísað í 5. gr.
    2. Lagt er til að úrelt upphæð fæðispeninga lögreglustjóra, umboðsmanns hans eða hreppsstjóra í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 42/1926 verði felld brott.
    3. Lagt er til að felld verði úr gildi lög nr. 43/1930, lög nr. 32/1957, lög nr. 22/1960 og lög nr. 36/1967, en þau hafa nú öll lokið hlutverki sínu.
    4. Lögð er til breyting við 28. gr. frumvarpsins. Tilvísun í orð 1. mgr. 2. gr. laga nr. 7/1953 bætist til skýringar við 2. mgr. 2. gr. sömu laga.
    5. Lagt er til að ákvæði 2. málsliðar a-liðar 1. mgr. 2. gr. laga nr. 3/1963 verði breytt til samræmis við það að dómarar við Hæstarétt Íslands eru nú átta.
    6. Í 102. gr. frv. eru lög nr. 90/1989 ranglega tilgreind sem lög nr. 90/1990.
    7. Lagt er til að ný grein, 103. gr., komi aftan við 102. gr. frv. Til þess að héraðsdómarar geti hafið störf við gildistöku laga nr. 92/1989 þann 1. júlí 1992 er nauðsynlegt að þeir hafi verið skipaðir fyrir þann tíma. Skipa verður því nú þegar dómnefnd til að fjalla um hæfi umsækjenda til embættis héraðsdómara. Enn fremur er lagt til að dómsmálaráðherra verði gert kleift að skipa dómstjóra við héraðsdóma fyrir gildistöku laganna. Ákvæði þessi hafa því aðeins þýðingu að þau öðlist þegar gildi.
    8. Lagt er til að heitið rannsóknari í lögum nr. 19/1991 haldist. Þeir töluliðir 106. gr., sem leggja áttu niður hugtakið rannsóknari úr lögum nr. 19/1991, falli því brott.
    9. Lagt er til að heiti laganna sé breytt með vísan til tillögu nefndarinnar um brottfall fernra laga.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum þessum sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali.``
    Undir nefndarálitið rita Sólveig Pétursdóttir, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Björn Bjarnason, Eyjólfur Konráð Jónsson, Ingi Björn Albertsson, Jón Helgason, Ólafur Þ. Þórðarson, Össur Skarphéðinsson og Kristinn H. Gunnarsson, sá síðastnefndi með fyrirvara.
    Hæstv. forseti. Nefndin hefur fjallað ítarlega um frv. Var málið tekið fyrir á sjö fundum og fjölmargir aðilar kallaðir fyrir nefndina. Frv. felur í sér breytingar á ýmsum lögum vegna aðskilnaðar umboðsvalds og dómsvalds í héraði. Þetta frv. tengist þeirri nýskipan réttarfars og framkvæmdarvalds í héraði sem grunnur var lagður að með lögum um aðskilnað umboðsvalds og dómsvalds í héraði nr. 92/1989.
    Flestar þeirra breytinga sem frv. leggur til eru lagatæknilegs eðlis og sjálfsagðar eftir að tekin hefur verið afstaða til aðskilnaðarins. Víða er í lögum enn að finna tilvísanir í hugtök og heiti sem breytast við aðskilnaðinn og óhjákvæmilegt að breyta því til samræmis við hina nýju skipan. Má sem dæmi nefna að eftir ákvæðum laga nr. 92/1989 munu allir þeir embættismenn sem fara með framkvæmdarvald í héraði utan Reykjavíkur bera embættisheiti sýslumanna en teljast þó um leið lögreglustjórar og tollstjórar í umdæmum sínum. Í Reykjavík skiptast þessi störf hins vegar milli sýslumanns, tollstjóra og lögreglustjóra. Embættisheitin bæjarfógeti, borgarfógeti, borgardómari og sakadómari falla hins vegar alveg niður. Er í frv. víða að finna tillögur til breytinga á lögum þar sem þessi brottföllnu embættisheiti koma fram. Nefndin leggur til nokkrar breytingar við frv. og mun ég stuttlega gera grein fyrir þeim.
    Lögð er til viðbót við þá breytingu sem frv. felur í sér í 28. gr. þess. Orðin ,,á þeim grunni`` bætist við greinina til frekari skýringar á lögunum. Enn fremur er lögð til breyting 40. gr. frv. sem ætlað er að breyta lögum nr. 3/1963 til samræms við það að dómarar við Hæstarétt Íslands eru nú átta í stað fimm áður. Nefndin gerir tillögu um niðurfellingu fernra laga sem hafa nú lokið hlutverki sínu. Samkvæmt frv. var ætlunin að breyta einstökum ákvæðum þeirra til samræmis við aðskilnaðinn en þar sem þau eru nú orðin úrelt áleit nefndin heppilegra að fella þau úr gildi í heild sinni. Lögð er til breyting á heiti laganna til samræmis við þessa niðurfellingu að við nafn þess bætist: o.fl.
    Lagt er til að ný grein, sem verði 103. gr., bætist við frv. Varðar hún breytingu á lögum nr. 92/1989, um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, sem taka gildi þann 1. júlí 1992. Ákvæði þetta veitir annars vegar heimild til dómsmrh. til þess að skipa nú þegar dómnefnd sem metur hæfi umsækjenda til embættis héraðsdómara. Hins vegar veitir hún heimild til dómsmrh. til þess að skipa nú þegar dómstjóra við héraðsdóma. Með þessum heimildum er í raun verið að flýta gildistöku teggja ákvæða í lögum um meðferð opinberra mála, 4. mgr. 4. gr. og 2. mgr. 5. gr. Er það gert í því skyni að unnt verði að skipa í embættið dómstjóra og héraðsdómara fyrir gildistöku laga nr. 92/1989. Menn hafa þá tök á að kynna sér störf sín með tilhlýðilegum hætti og hafi störf þegar við gildistökuna 1. júlí 1992. Er nauðsynlegt að menn geti undirbúið sig og kynnt sér hið nýja fyrirkomulag sem aðskilnaður dómsvalds og umboðsvalds hefur í för með sér áður en það tekur gildi.
    Nefndin leggur til að heitið ,,rannsóknari`` í lögum nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, haldist en um það hefur verið nokkur ágreiningur á milli réttarfarsnefndar og dómsmrn. Hugtakið rannsóknari er nýtt og merkir hann starfsmann lögreglu eða ákæruvalds sem rannsókn stýrir hverju sinni. Segir í athugasemdum sem bárust nefndinni frá Hrafni Bragasyni, formanni réttarfarsnefndar, að nefndin hafi við samningu laganna talið óhjákvæmilegt að hafa eitt orð yfir þann sem stýrir rannsókn. Ef breyta ætti heitinu rannsóknari hefði það óhjákvæmilega í för með sér að endurskoða þyrfti hluta laga um meðferð opinberra mála. Hefur nú náðst sátt milli réttarfarsnefndar og dómsmrn. um þetta atriði. Lagði dómsmrn. fram breytingartillögur til nefndarinnar við frv. þar sem fallið er frá því að nema heitið rannsóknari brott.
    Enn fremur leggur nefndin til að það ákvæði laga um meðferð opinberra mála haldist að vottar séu viðstaddir yfirheyrslur og aðrar rannsóknaraðgerðir sé þess kostur. Í frv. er lagt til í 13. tölul. 106. gr. að þetta ákvæði falli úr gildi. Um þetta voru líka skiptar skoðanir á milli réttarfarsnefndar og dómsmrn. en samkomulag náðist. Í breytingartillögu sem barst frá dómsmrn. er fallið frá að nema ákvæði um votta burt. Mæla og rök með því að vottar séu viðstaddir yfirheyrslur og aðrar rannsóknaraðgerðir. Í fyrsta lagi getur lögreglumanni verið nauðsynlegt að annar maður sé vitni að framferði sakbornings. Í öðru lagi stuðlar þetta að réttaröryggi fyrir sakborninga sjálfa og loks hafa Íslendingar skuldbundið sig með alþjóðasáttmálum til að gæta réttlátrar meðferðar við rannsókn sakamála.
    Brtt. nefndarinnar við 106. gr. frv. eru flóknar og skal gerð grein fyrir efni greinarinnar í stuttu máli til glöggvunar. Miðað við brtt. standa 1. og 2. tölul. óbreyttir. 3.--7. tölul. falla niður. 8. tölul. verður að 3. tölul. Á eftir honum kemur nýr tölul. sem skilgreinir heitið ,,rannsóknari`` í lögum um meðferð opinberra mála. 9. tölul. verði að 5. tölul. og felst í honum breyting til samræmis við það að heitið ,,rannsóknari`` haldist. 10.--26. tölul. falla brott, svo og 31. og 33.--35. tölul. Þessar breytingar fela það í sér að í lögum um meðferð opinberra mála haldist heitið rannsóknari, svo og ákvæðið um votta við yfirheyrslur og rannsókn.
    Nefndin fjallaði nokkuð um 107. gr. frv. sem felur í sér breytingar á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. Í 6. gr. nefndra laga er dómsmrh. veitt heimild til að gera samninga við erlend ríki. Í frv. er lagt til að ákvæði þessu verði breytt til samræmis við reglu sem kemur fram í 21. gr. stjórnarskrárinnar um milliríkjasamninga, að forseti Íslands (ríkisstjórnin) geri samninga við erlend ríki. Bent er enn fremur á ákvæði 21. gr. stjórnarskrárinnar sem mælir fyrir um að ekki sé hægt að gera slíka samninga nema með samþykki Alþingis ef þeir fela í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðast en ekki síst má geta þess að milliríkjasamningar öðlast ekki lagagildi nema Alþingi samþykki þá sem lög. Sá nefndin því ekki tilefni til að gera athugasemdir við þetta ákvæði.
    Loks ber að geta þess að nefndin fjallaði um breytingu á 13. gr. frv. sem felur í sér niðurfellingu ákvæðis um bann við stefnubirtingum og fleira á helgidögum þjóðkirkjunnar í lögum um helgidaga þjóðkirkjunnar. Nefndin fékk biskuprsritara á sinn fund til að hafa fregnir um afstöðu Biskupsstofu um málið. Um er að ræða ákvæði sem nú er orðið óþarft vegna almennra reglna og var biskupsritari samþykkur niðurfellingu þess. Af þessum sökum sá nefndin ekki tilefni til athugasemda við þetta ákvæði frv.
    Að lokum er rétt að benda á það að nauðsynlegt er að þetta frv. verði orðið að lögum þegar aðskilnaður umboðsvalds og dómsvalds í héraði gengur í gildi þann 1. júlí 1992. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka hv. nefndarmönnum fyrir vinnu í hv. allshn. og ekki

síst í ljósi þeirrar staðreyndar að aukafundir hafa verið allmargir og þó nokkrar annir hjá nefndinni.