Veiting ríkisborgararéttar

49. fundur
Miðvikudaginn 11. desember 1991, kl. 20:48:01 (1815)

     Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
     Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. allshn. um frv. til laga um veitingu ríkisborgararéttar en það er 88. mál þessa löggjafarþings. Með leyfi virðulegs forseta mun ég nú gera grein fyrir álitinu.
    ,,Nefndin hefur fjallað um frv. Á undanförnum árum hafa formenn allsherjarnefnda Ed. og Nd. farið yfir allar umsóknir ásamt starfsmanni nefndadeildar og borið síðan tillögur til breytinga undir nefndir sínar.
     Nú var svipaður háttur hafður á. Formaður, tveir aðrir nefndarmenn og starfsmenn nefndadeildar fóru yfir allar umsóknir til að kanna hvort þær uppfyltu þau skilyrði sem allsherjarnefnd hefur sett fyrir veitingu ríkisfangs sbr. þskj. 910 frá 112. löggjafarþingi. Við afgreiðslu á fyrra frv. um veitingu ríkisborgararéttar, sem jafnan er afgreitt á haustþingi, hefur nefndin haft að leiðarljósi fyrrgreindar reglur á þskj. 910. Umsóknir, sem ekki hljóta afgreiðslu nú, bíða þar til seinna frv. er afgreitt á vorþingi en þá koma allar óafgreiddar umsóknir aftur til skoðunar.
    Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.``
    Undir nefndarálitið rita Sólveig Pétursdóttir, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Björn Bjarnason, Eyjólfur Konráð Jónsson, Ingi Björn Albertsson, Jón Helgason, Kristinn H. Gunnarsson, Ólafur Þ. Þórðarson og Össur Skarphéðinsson.
    Hæstv. forseti. Sú meginregla hefur gilt við afgreiðslu allsherjarnefnda á frv. um veitingu ríkisborgararéttar að á haustþingi eru einungis afgreiddar þær umsóknir sem ótvírætt uppfylla þau skilyrði sem sett hafa verið og þær umsóknir sem allshn. telur að þoli enga bið á afgreiðslu. Öll önnur mál eru tekin fyrir á ný við afgreiðslu frv. að vori. Í ljósi þeirrar meginreglu fjallaði allshn. um umsóknir sem borist höfðu.
    Eins og fram kemur í nál. voru reglur sem allsherjarnefndir efri og neðri deilda Alþingis settu á 112. löggjafarþingi, sbr. þskj. 910, hafðar að leiðarljósi við afgreiðslu málsins. Ekki vannst tími til að taka upp umræður í nefndinni um þörf á endurskoðun þessara reglna og túlkun þeirra en það verður e.t.v. gert.
    Undanfarin ár hafa formenn allshn. efri og neðri deilda farið yfir allar umsóknir ásamt starfsmanni nefndadeildar og borið síðan tillögur til breytinga undir nefndir sínar. Í ljósi þeirrar venju fóru formaður og tveir aðrir nefndarmenn, þeir hv. 5. þm. Reykv., Ingi Björn Albertsson, og hv. 5. þm. Vestf., Kristinn H. Gunnarsson, ásamt starfsmönnum nefndadeildar yfir frv. og þær umsóknir sem nefndinni bárust til viðbótar þeim sem í frv. eru. Var gerð tillaga til breytinga til nefndarinnar á grundvelli þessarar yfirferðar.
    Umsóknirnar sem nefndin mælir með að bætt verði við frv. það sem lagt er fram nú á haustþingi uppfylla þær meginreglur sem nefndin hefur stuðst við í afgreiðslu sinni. Aðrar umsóknir verða skoðaðar að nýju þegar seinna frv. um veitingu ríkisborgararéttar

verður lagt fram á vorþingi. Í ljósi þessa var nefndin ásátt um að gera þá breytingartillögu að 28 nöfnum verði bætt við frv. og hljóta þá 47 einstaklingar íslenskan ríkisborgararétt samkvæmt frv. ef það verður að lögum. Allir nefndarmenn allshn. standa að nefndaráliti þessu og breytingartillögunni.