Staðgreiðsla opinberra gjalda

49. fundur
Miðvikudaginn 11. desember 1991, kl. 20:58:00 (1820)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Það vekur vissa umhugsun að texti sá sem hér liggur fyrir til samþykktar ber ekki með sér að hann fullnægi þeim kröfum sem hæstv. fjmrh. hélt fram í ræðu sinni. Hann hélt því fram í ræðu sinni að ætlunin væri að flýta mjög afgreiðslu mála. Þessi texti hljóðar aftur á móti upp á það að fela ríkisskattanefnd fleiri verkefni. Ég vil með því að segja þetta alls ekki leggjast gegn því að það sé gert. En um leið og henni eru falin fleiri verkefni má gera ráð fyrir því að störf hennar vinnist hægar. Jafnframt er hér ákveðið að skattrannsóknarstjóri komi fram af hálfu hins opinbera gagnvart nefndinni með kröfugerð um sektarbeitingu. Jafnframt að sakborningur fái að verja sitt mál. Þetta hvort tveggja er að sjálfsögðu í anda góðrar réttarreglu en það svarar aftur á móti ekki hinni fullyrðingunni á nokkurn hátt hvað það sé í þessu frv. sem tryggir að mál gangi nú hraðar fram. Ég tel æskilegt að hæstv. fjmrh. finni þeim orðum sínum stað því að hér er ekki að sjá að neinar hömlur séu á því, samkvæmt þessum texta að menn gefi sér þann tíma sem þeim sýnist til að vinna þessi verk. Það er þá í lögunum sjálfum, ekki í þessum breytingartillögum sem þau ákvæði eru. Mér finnst óhjákvæmilegt, þar sem ræða fjmrh. var ekki í samræmi við það sem hér verður lesið út úr textanum, að á þessu komi skýringar.