Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

49. fundur
Miðvikudaginn 11. desember 1991, kl. 21:29:00 (1825)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Sá skattur sem hér er til umræðu er sérskattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Ég vil fyrst víkja að því að hér liggja fyrir breytingartillögur. Ég vil taka undir það sem fram kom hjá hv. 6. þm. Norðurl. e. að ég vil ekki framselja ráðherrum skattaheimildir til að beita heldur vil ég að sem nákvæmlegast sé mælt fyrir í lögum hvað skuli gert. Hins vegar vil ég vekja athygli hv. 5. þm. Vestf. Kristins H. Gunnarssonar, sem er 1. flm. þessarar tillögu, á því að hér á höfuðborgarsvæðinu hagar svo til að það hefur gengið ákaflega illa að sameina sveitarfélög. Ekki veit ég hvað veldur, en þar er verst ástand á Íslandi í þeim efnum. Þrátt fyrir góðar samgöngur, sameiginlega þjónustu o.fl. hefur það ekki tekist. Þannig er Seltjarnarnes t.d. sjálfstætt sveitarfélag og nær ekki 10 þús. manna íbúafjölda og yrði þar þá mun betra að reka verslun en í Reykjavík. Sama mætti segja um Garðabæ og í ljósi þess spyr maður: Á hvaða forsendum ætti að setja reglur, leiða ákvæði í lög sem hefðu það í för með sér að Seltjarnarnes, sem nýtur þess nú í mörgu að vera í þessu nábýli við Reykjavík, fengi einnig betri starfskjör fyrir sín fyrirtæki ef þar væru verslunarfyrirtæki en hliðstæð fyrirtæki sem væru í Reykjavík? Ég tel að

það atriði ætti af augljósum ástæðum ekki rétt á sér. Það væri einfaldlega ekki sanngjarnt.
     Ég vil víkja að kjarna þessa máls og það er að hæstv. fjmrh., sem er eins og allir vita mikill kjarkmaður og bíllaus, hefur nú kokgleypt allar sínar fyrri ræður um sérstakan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði og leggur til að þessi skattur verði framlengdur. Ég hef ekki haft neinar mætur á þessum skatti en játa að ég hef stutt hann vegna þess að mér hefur þótt nauðsyn ríkisins fyrir fjármuni mikil. Nú ber aftur á móti svo við að við lifum dálítið sérstæða tíma í þessu landi hvað það snertir að hæstv. fjmrh. er tvöfaldur kóngur, annars vegar í skattamálum, eins og útvarpsfréttir bera með sér, og hins vegar í þjónustugjöldum og er þó sýnu meiri konungstignin í þjónustugjöldunum ef grannt er skoðað. En þar við bætist að spurning er hvort skatturinn verður íslenska ríkinu til fjár og er það kannski það alvarlegasta í stöðunni.
    Ég vil, með leyfi forseta, vekja athygli á þróun sem hefur orðið hér innan lands og flestir þingmenn utan af landsbyggðinni könnuðust við að fylgdi bættum samgöngum til höfuðborgarinnar. Ég vil víkja vestur að fjörðum og minnast þeirra daga þegar Ísafjörður hafði það sterka stöðu sem þjónustustaður að fyrir jól skiptu menn við verslanir á Ísafirði en fóru ekki suður til að gera innkaup. Firðirnir í kring höfðu einnig á tímabili það sterka stöðu. Seinna þróaðist verslunin yfir í það að mjög algengt var að fólk á þessu svæði fór yfir á Ísafjörð og naut þar viðskipta. En á seinni árum hefur það gerst í verulega ríkum mæli að þeir aðilar, sem eitt sinn voru ánægðir með það sem Ísafjörður bauð upp á hvað verslunarþjónustu snertir, hafa beint viðskiptum sínum til verslana í Reykjavík og má segja að tilkoma flugs og greiðari samgangna á landi hafi haft þessi áhrif.
    Nú er það svo að þetta er innan sama landsins og hefur því ekki áhrif á skattatekjur ríkisins þó að þetta hafi áhrif á stöðu verslunar í landinu. Hins vegar ber svo við að í dag blasir það við að nákvæmlega sama þróun er að eiga sér stað hvað það snertir að ekki er meira mál í dag að fara fljúgandi til Glasgow en það var á sínum tíma að fara fljúgandi frá Ísafirði til Reykjavíkur þegar þessi þróun fór af stað. Ég er þeirrar skoðunar að það sé að sjálfsögðu fráleitur hlutur að hægt sé að bregðast við þessu með því að takmarka ferðafrelsi. Það er auðvitað út í hött að láta sér detta það í hug og að einhver sérstök tollgæsla á Keflavíkurflugvelli leysi þessi mál. Það er jafnfráleitt. Kjarni málsins er sá að Íslendingar verða að haga sinni skattheimtu á þann veg að þeir grípi þar niður sem ekki er auðvelt að fara í kringum hana. Og með leyfi forseta vil ég lesa hér mjög athyglisverða grein sem birtist í Morgunblaðinu og fjallar um þetta mál, ,,Flytjum verslunina inn í landið``. Höfundur er Jóhann J. Ólafsson:
    ,,Glasgow-ferðir. Enn á ný nú í jólakauptíðinni eru innkaupaferðir Íslendinga til útlanda í brennidepli. Almennt er ekkert við því að segja þó fólk bregði fyrir sig betri fætinum og skreppi í búðir ytra. Alla jafna skapar það innlendri verslun aðhald og nauðsynlegan samanburð til þess að mæta samkeppni.
    Gallinn er bara sá að á sama tíma dregur hið opinbera með ofsköttun úr hæfni íslenskrar verslunar til þess að mæta þessari samkeppni. Afleiðingin er sú að þessar innkaupaferðir hafa vaxið úr hófi og eru farnar að grafa undan eðlilegri verslunarstarfsemi í landinu.
    Viðbrögð. Eðlilegust viðbrögð væru þau að innlend verslun mætti þessari samkeppni með því að bjóða betri þjónustu. Þetta hefur hún gert bæði með lægra vöruverði og lengri opnunartíma verslana, allt til kl. 10 og 11 á kvöldin, svo og aukinni þjónustu á laugardögum og jafnvel sunnudögum. En þetta dugar ekki til.
    Skattar. Hið opinbera leggur verslunina í einelti og þjakar hana alveg sérstaklega með þungum álögum.
    Íslensk verslun er búin að ganga langan veg frá gjaldeyris- og innflutningshöftum,

verðlagshöftum og takmörkunum á opnunartíma verslana. Allt er þetta að baki sem betur fer en hart hefur þurft að berjast fyrir jafnsjálfsögðum hlut.
    Enn þá greiðir verslunin hærri skatta en aðrar atvinnugreinar, t.d. tryggingagjald í hæsta flokki (áður launaskatt), hæstu aðstöðugjöld til sveitarfélaga, hærri fasteignagjöld og sérstakan skatt á verslunarhúsnæði. Við þetta bætist svo eignarskattur og eignarskattsauki. Þessir skattar valda því að verslunin þarf að kaupa eigið húsnæði sitt af ríkinu á 25 ára fresti fyrir utan annan kostnað eins og viðhald, afskriftir, húsaleigu, vexti og þess háttar.
    Auðvitað borgar verslunin þetta ekki úr eigin vasa, nema þeir sem verða gjaldþrota, heldur viðskiptavinirnir í hærra vöruverði. Þess vegna verslar fólk annars staðar. Verslunin er rekin úr landi.
    Skattalækkun án skattalækkunar.`` --- Þetta er við fyrstu sýn nokkuð torskilin setning. ,,Skattalækkun án skattalækkunar.`` Ég vil undirstrika að ég er að lesa rétt og jafnframt að það sem á eftir kemur skýrir gjörla hvað á bak við býr.
    ,,Á Alþingi var rætt um það hvort ætti að framlengja sérstakan ,,tímabundinn`` skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði í 14. sinn. Niðurstaðan var sú að ríkið gæti ekki séð af þessum tekjum hvað sem afleiðingum líður. En tekjur ríkisins af skatti þessum fara minnkandi því almenningur kemur sér hjá honum með því að versla erlendis í auknum mæli. Þannig þyrfti að hækka skattinn ef ríkið ætlar að halda tekjunum en þá mundu utanferðir bara aukast enn meira.
    Í stað þess að bregðast rétt við og afnema allar þessar álögur og jafna stöðu verslunarinnar í landinu er tekið upp á því að herða tolleftirlit á Keflavíkurflugvelli.
    Fjmrh. lýsti því yfir í útvarpi að það væri gert að ósk forustumanna verslunarinnar. Það skal tekið fram að Verslunarráð Íslands hefur ekki beðið um þetta, enda hefur það ekki trú á tollskoðun til að koma í veg fyrir samkeppni. Yfirvöld verða auðvitað sjálf að gera það upp við sig hvenær og hvernig þau framfylgja lögum landsins og þurfa engar óskir í þeim efnum.
    Það skal aðeins tekið fram að tollskoðun á Íslandi er einhver sú strangasta í allri Vestur-Evrópu og langt á eftir tímanum.
    Þá hafa heyrst um það raddir að hækka ætti verð á flugfarseðlum með því að leggja á þá virðisaukaskatt. Þannig á að hindra fólk bæði í því að komast út úr landinu og inn í það aftur. En það er einfaldlega ekki hægt að loka kaupmáttinn inni.
    Hvenær á að horfast í augu við raunveruleikann? Það nú að verða öllum ljóst að þvingunaraðferðir þær sem áður er lýst heyra brátt sögunni til. Á öld vaxandi nálægðar og ferðafrelsis eiga Íslendingar það eitt vopn eftir að mæta samkeppni erlendra markaða með hagkvæmari verslun.
    Verslunarstétt landsins og stjórnvöld verða að taka höndum saman og flytja verslunina aftur inn í landið. Álögur á verslunina verður að fella niður og gera aðstöðu hennar slíka að meira sé verslað hérlendis en stjórnvöld hvetji ekki beinlínis til þess að landsmenn sniðgangi eigin búðir.`` Höfundur er formaður Verslunarráðs Íslands.
    Það eru viss atriði í þessari grein sem ég að sjálfsögðu get ekki skrifað undir, eins og það að tollskoðun hjá okkur sé langt á eftir tímanum. Mér finnst að það sé óþarfa innskot eins og kannski fleira, en ég kemst ekki hjá því að hugleiða það í fúlustu alvöru hvort það sé rétt, sem er kjarni málsins, að skattalækkun verði ekki til þess að minnka tekjur ríkisins. Og ég vil beina þeirri alvöruþrungnu fyrirspurn til hæstv. viðskrh. hvort gögn liggi fyrir um hve hröð þessi þróun hafi verið því að það er ekki skatturinn af verslunar- og skrifstofuhúsnæðinu sem kemur fyrst við pyngjur ríkisins heldur hitt að sá sem gerir innkaup sín erlendis greiðir að sjálfsögðu ekki virðisaukaskatt eða tolla af þeirri vöru sé hann í þeirri aðstöðu að koma henni inn í landið, annaðhvort á fullkomlega löglegan hátt eða

þá að hann hefur tekið eitthvað meira en hann hafði að réttu haft heimildir til. En það bendir allt til þess, hæstv. viðskrh., að nákvæmlega sama þróunin sé að verða hér varðandi Reykjavík, hún sé að tapa sínum sess sem verslunarborg í þeirri merkingu að hún hafi það aðdráttarafl að menn telji það sjálfsagt að gera hér jólainnkaupin. Það sé mun skemmtilegra að leysa það mál með því að skella sér til Bretlands.
    Ég held að það hljóti að leiða hugann að því hvort það sé rétt stefna hjá okkur varðandi virðisaukaskattinn að hafa undanþágur verulegar og hafa skattinn jafnháan og hann er í stað þess að vinna að því að lækka skattinn og fækka undanþágunum. Ég vil í þessu sambandi geta þess að út af fyrir sig er það ákaflega menningarleg pólitík að leggja ekki skatt á bækur en aftur á móti er það spurning hvort það er skynsamlegt. Getur verið að það komi betur út ef virðisaukaskatturinn væri lægri og hann væri á fleiri hluti? Það er nú einu sinni svo að þegar upp er staðið skiptir það höfuðmáli hver heildarskatturinn er sem er tekinn í landinu en það skiptir ekki jafnmiklu máli hvernig hann er tekinn nema því eins að það skapi óréttlæti á milli þegnanna og hins vegar ef hann er tekinn á þann hátt að leiði til þess að menn beina t.d. viðskiptum úr landi. Og ég held að það sé full alvara á ferðum í þessum efnum. Ég geri ráð fyrir að þessi þróun muni aukast mjög hratt. Kostnaður við flug út er ekki mikill og annaðhvort mun verslunin í Reykjavík fá varist með þeim hætti að vöruverð hér fari niður í ýmsum vöruflokkum eða þá að verslunin fer úr landi. Þess vegna verð ég að segja það eins og er að ég held að það sé verulegt umhugsunarefni fyrir hæstv. fjmrh. hvort hann er í reynd að auka þær tekjur sem ríkið fær með þessum tillöguflutningi eða hvort hann er ef til vill fyrst og fremst að leggja á skatt sem ekki skilar sér inn til ríkisins.
    Ég vil líka segja það hér og nú að náttúrlega nær það engri átt út frá jafnvægissjónarmiði á milli atvinnugreina að versluinin búi við þann kostnað sem greiddur er til sveitarfélaga að þar sé jafn mismunað eftir atvinnugreinum. Það leiðir einfaldlega til þess og þýðir ekki að blekkja sig á því að tekjur hennar koma frá hinum almenna manni sem á þar viðskipti og það hlýtur að hafa þær afleiðingar í för með sér að vöruverðið verði hærra. Hitt er svo aftur á móti umhugsunarefni að þó að hér sé því fagnað að við höfum lengt opnunartíma verslana þá er ég þeirrar skoðunar að það sé mjög mikil spurning hvort það hafi verið skynsamlegt einfaldlega vegna þess að ég óttast að það hafi í reynd orðið til þess að hækka vöruverðið.
    Nú er mér ljóst að oft hefur verið talað þannig til íslenskrar verlsunarstéttar að það er eins og menn hafi viljað leggja henni heldur slæmt orð og kannski er það hluti af því að menn hafa mótast svo fast í minningunni um það þegar Kristur rak víxlarana út úr musterinu. En ég ætla að segja það hér og nú að ég held að mönnum sé hollt að minnast þess að eitt af því sem braut á bak aftur sjálfstæði íslenskrar þjóðar árið 1262 var einmitt það að innlend verslun var hrunin.