Fjárlög 1992

50. fundur
Fimmtudaginn 12. desember 1991, kl. 12:38:00 (1837)

     Pálmi Jónsson (frh.) :
     Virðulegi forseti. Í þessu framhaldi ræðu minnar tel ég mér ókleift annað en byrja á því að segja það við hæstv. forseta og aðra þá sem semja um störf hér á hinu háa Alþingi að þótt ég hafi fullan skilning á því að það þurfi að semja á ýmsa lund um framgang mála, þá er það í fyrsta sinn nú sem ég man eftir, og hef nú setið hér nær aldarfjórðung, sem 2. umr. um fjárlög er klippt í sundur og látin fram fara á tveimur dögum. Ég ætla ekki að gera fleiri athugasemdir við þetta, en ég tel að þessi umræða sé svo þýðingarmikil að það sé ekki heppilegt fordæmi að taka upp þennan hátt á gangi þeirrar umræðu.
    Í fyrri hluta ræðu minnar hafði ég lokið við að draga fram þýðingu þeirra aðgerða sem nú er stefnt að af hálfu hæstv. ríkisstjórnar í fjármálum ríkisins. Í stuttu máli sagði ég frá því að ný tök á fjármálum ríkisins hefðu það markmið að leggja grunn að endurreisn atvinnuveganna, lækkun vaxta, lægri verðbólgu, stöðugleika í efnahagsmálum og skynsamlegum kjarasamningum. Til þess að ná þessum árangri verður að ná árangri í ríkisfjármálum með sparnaði og niðurskurði.
    Nú er það svo að heita má að allt sem nefnt er í þessum efnum hlýtur einhvers staðar gagnrýni. Það er ekki hægt að koma við sparnaði eða niðurskurði í fjármálum ríkisins án þess að einhverjum þyki miður. En þegar vandinn er svo hrikalegur sem raun ber nú vitni duga ekki lengur smáskammtalækningar eins og stundum hafa verið tíðkaðar í þessum efnum.
    Löngum hefur það verið nærtækt hjá ýmsum ríkisstjórnum að skerða fjárfestingarframlög, þ.e. framlög til verklegra framkvæmda. Þetta var líka gert af núv. hæstv. ríkisstjórn í sumar og var það staðfest í fjáraukalögum hér á hinu háa Alþingi. Þessar aðgerðir núv. hæstv. ríkisstjórnar voru að ýmsu leyti þarfar þótt að mínum dómi komi ýmsar þeirra okkur í koll nú með þeim hætti að framlög til fjárfestinga þarf að taka upp að nýju í fjárlög sem nú eru á dagskrá. Þær höfðu það í för með sér ásamt frestun framkvæmda við álver og tengdum framkvæmdum að Þjóðhagsstofnun spáir því að fjárfesting minnki í þjóðfélaginu á þessu ári um 12% frá því sem var á fyrra ári. Enn er reiknað með því að fjárfesting á næsta ári verði minni en í ár og það er því ekki feitan gölt að flá í þessum

lið í útgjöldum hins opinbera sem er fjárfestingin. Í raun og veru höfum við gengið götuna til enda. Við höfum farið alveg í botn með fjárfestingu þannig að það er ekki hægt að mínum dómi að ganga miklu lengra hvað það snertir en þær tillögur sem hér liggja fyrir gera ráð fyrir. Þannig er nú komið að ekki verður komist hjá því að ráðast að umfangi og rekstri ríkiskerfisins.
    Mér er engin launung á því að þegar fjárlagafrv. var lagt fram þótti mér tæplega nógu langt gengið í þessum efnum. En með þeim tillögum sem nú liggja fyrir og snúa að meginhluta að þessu verkefni frá hæstv. ríkisstjórn og meiri hluta fjárln. er stigið verulegt skref í þessa átt, skref sem er óhjákvæmilegt að taka, ef nást á einhver árangur í þessum efnum.
    Ég lýsti því í ræðu minni í gær að slík skref yrðu ekki stigin án þess að sárinda gætti og án þess að erfiðleikar yrðu á ýmsum sviðum og ég lýsti því að ég hefði fullan skilning á þessum efnum. Þó er alveg augljóst miðað við þá miklu erfiðleika sem við stöndum frammi fyrir með fjármál ríkisins, þann geigvænlega vanda sem þar blasir við og afleiðingar þess að halda afram í sama fari, að þessir erfiðleikar og þessi sárindi, sem vissulega hitta ýmsa, eru smáræði hjá þeirri ógn sem við blasir ef ekkert er að gert. Ég tel að ef haldið væri áfram í sama fari og áður og ríkissjóður rekinn með halla upp á 10--12 milljarða, eða kannski 8--12 milljarða svo að heldur vægar sé í sakir farið, og héldum áfram, eins og síðasta hæstv. ríkisstjórn gerði að ákveða gríðarleg útgjöld og fjárfestingu af ýmsu tagi og rekstur án þess að leggja fram peninga á fjárlögum værum við að stefna út í hreina ófæru. Því mundu fylgja efnahagslegar kollsteypur sem ekki þarf að lýsa hvaða afleiðingar hafa. Það er því nauðsynjaverk sem verið er að vinna með þeim tillögum sem fyrir eru lagðar af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og hálfu meiri hluta fjárln. Það er ekki sársaukalaust verk en það er nauðsynjaverk.
    Nú liggur það vitaskuld fyrir að fulltrúar stjórnarandstöðunnar gagnrýna þessar tillögur og það er kannski ekkert einkennilegt að þær hljóti gagnrýni í ýmsum efnum. Gagnrýni fulltrúa stjórnarandstöðunnar við umræðu í gær var þó nokkuð sín með hverju móti. Hv. 4. þm. Suðurl. deildi fast á ýmsa þætti þessara mála. En með sama hætti gætti viðurkenningar í orðum hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur. Til að mynda fór hún viðurkenningarorðum um a.m.k. sumar þær sparnaðar- og niðurskurðartillögur sem meiri hluti fjvn. hefur lagt fram og ekki síður þær sem enn eru ekki komnar fram á þingskjali heldur hafa verið sendar ríkisstjórn.
    Með sama hætti greindi talsmaður Alþb. í umræðunum í gær, hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, frá þeirri skoðun sinni að lengri tíma þyrfti en gert er ráð fyrir í þessum tillögum til þess að ná árangri í skipulagsbreytingu sem hefði í för með sér sparnað í rekstri og launum. Slík sjónarmið er sjálfsagt að virða þótt staðan sé nú með þeim hætti að það er óhjákvæmilegt að ná skjótum árangri. Ég vil í þessu sambandi geta þess að meiri hluti fjárln. hefur sent hæstv. ríkisstjórn hugmyndir sínar um margs konar skipulagsbreytingar í ríkisrekstrinum sem þar eru til athugunar. Það er í samræmi við það sem fram kom í máli hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur að öllu því verður ekki náð fram í einni svipan. Ég tel ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum í þá ræðu sem vissulega fól í sér harða gagnrýni en einnig á þessum sviðum sem ég hef hér nefnt nokkur viðurkenningarorð. Hv. þm. viðurkenndi að við vanda væri að etja. Hún flutti mjög efnislega gagnrýni, að vísu án beinna tillagna um aðrar aðgerðir. Það má segja að í ræðu hv. þm. hafi komið fram viss hvatning til þess að tekið yrði á málum.
    Ég verð því miður að segja að ræða hv. 1. þm. Norðurl. e., þess góða félaga okkar í fjárln., aðaltalsmanns stjórnarandstöðunnar og frsm. minni hluta nefndarinnar var með nokkuð öðrum hætti. Hann flutti hér mjög langa ræðu, hátt á annan klukkutíma, og þar

var mestmegnis um að ræða gagnrýni og ekkert nema gagnrýni. Hv. þm. komst svo að orði að aðhaldi væri ekki mótmælt. Hann lét ekki þau orð falla að hann mælti með aðhaldi en hann sagði að aðhaldi væri ekki mótmælt. Í raun var það það næsta sem hann komst að því sem hæstv. ríkisstjórn og við í meiri hluta fjárln. erum að vinna að.
    Síðar sagði hv. þm. hvað eftir annað að það væru ekki farnar réttar leiðir. Við viljum fara aðrar leiðir. Það er nauðsynlegt að leita leiða o.s.frv. Þetta sagði þessi hv. þm. sem er nýstiginn upp úr ráðherrastólnum. Ég hlustaði grannt eftir því hverjar þessar leiðir væru sem hv. þm. vildi fara, nýhorfinn úr síðustu hæstv. ríkisstjórn. Hann nefndi að vísu að hann vildi fá fram kerfisbreytingar en þær voru gersamlega óskilgreindar. Og hann nefndi eina tillögu og það var að leggja skatt á fjármagnstekjur. Þessi skattur hefur vissulega verið í umræðunni og ég ætla ekkert fyrir mitt leyti að útiloka hann. Það mundi þá bæta við skattaálögur í heild ef hann væri tekinn upp og það hefur verið reiknað út, a.m.k. miðað við eitt form á þeim skatti, að hann gæfi miklu minna heldur en menn ætla eða 200--300 millj. kr. Það hossar því ekki hátt í það að ráða bót á þeim mikla vanda sem við stöndum frammi fyrir.
    Hv. þm. fann að ýmsu í störfum meiri hluta fjárln. Hann komst m.a. svo að orði að það væri ámælisvert að mæta ekki óskum um aukin útgjöld í tilteknum atriðum. Í raun var ræða hans, þessi maraþonræða, alltaf annað veifið þess efnis að mæla með auknum útgjöldum, mæla með fleiri störfum hjá ríkinu, mæla með því sem hæstv. ríkisstjórn sem hann sat í tíðkaði, að fela útgjöld í heimildargrein eða með öðrum hætti. Hann nefndi sérstaklega í þessu tilliti heilsugæslustöðvar í Reykjavík.
    Ég tel að ætla mætti af ræðu hv. þm. að hann teldi ástæðu til að allt héldi áfram í sama farinu. Hv. þm. var tíðrætt um nauðvörn einhvers tiltekins ráðherra í tilteknum málaflokki, tíðrætt um nauðvörn ráðherra. Mér fannst ræða þessa hv. þm. vera nauðvörn fyrir það sjónarmið að helst ætti ekkert að gera, nauðvörn fyrir úrræðaleysi og kjarkleysi, nauðvörn fyrir það sjónarmið að það væri ámælisvert að mæta ekki óskum um aukin útgjöld. Það leyndi sér ekki að þarna talaði þingmaður sem var ráðherra í síðustu ríkisstjórn.
    Mér hlýtur að vera spurn hvort þessi hv. þm., og ég segi ágæti félagi okkar í starfi fjárln., geri sér ljósa grein fyrir þeim vanda sem við stöndum í. Ræða hans bar ekki vitni um það. Ég hlýt að lýsa því að ég varð fyrir vonbrigðum með að þar skyldi a.m.k. ekki koma viðurkenning á því að við vanda væri að etja.
    Ég þarf ekki að fara mörgum fleiri orðum um það hvílíkur þessi vandi er. Ég hef svo margsinnis rakið hann. Ég hef margsinnis í þessum ræðustól á síðasta kjörtímabili sýnt fram á hvert stefndi og ég hef tekið það saman í tölum hversu gífurlegur þessi vandi er. Ég tók það saman í tölum við afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár. Ég greindi frá því hvað eftir annað að fyrir þinglok sl. vor, þegar ríkisstjórnin hóf það sem kallað var af sumum ráðherrum þeirrar hæstv. ríkisstjórnar bögglauppboð, hvílíkum skuldbindingum hæstv. ríkisstjórn væri að bæta á herðar þjóðarinnar án þess að leggja til í einu orði hvar ætti að taka peninga til þess að borga allt þetta. Það er þessi vandi sem við stöndum núna frammi fyrir og verðum að ráðast að ef ekki á allt að fara um koll, ef við ætlum ekki að kollsigla ríkissjóð og ríkisreksturinn, ef við ætlum ekki að kollsigla efnahagskerfið og þar með atvinnulífið. Þess vegna beini ég því staðfastlega til þessa hv. þm. og annarra fulltrúa stjórnarandstöðunnar að þeir a.m.k. viðurkenni þennan vanda sem þeir eiga kannski ekki lítinn þátt í að hafi orðið til. Ef þeir gagnrýna allt það sem nú er lagt til eiga þeir að koma og benda á einhverjar leiðir aðrar sem þeir vilja fara. Ekki síst getur maður ætlast til þess að slíkar ábendingar og tillögur komi fram frá aðaltalsmanni minni hluta í fjárln. og það af þeim hv. þm. sem er búinn að sitja sem ráðherra síðustu hæstv. ríkisstjórn. Ég get ekki annað en látið þessi orð falla hér og það ekkert síður fyrir það að ég met þennan hv. þm.

meira en svo að ég uni því að hann flytji ræður eins og hann flutti í gær án þess að gera athugasemdir við.
    Hér hefur verið gagnrýndur hinn flati niðurskurður sem gert er ráð fyrir að verði beitt við launalið ríkisútgjalda og önnur rekstrargjöld. Hv. þm. Guðmundur Bjarnason taldi hann óraunhæfan, notaði m.a. orðið óraunhæfur og hann sagði að þessi flati niðurskurður hefði til að mynda mistekist áður svo sem á árinu 1989 í þeirri hæstv. ríkisstjórn sem hann átti sæti í. Hann sagði þó að þar hefði tekist að ná nálægt því helmingi af þeim flata niðurskurði sem til var ætlast, um 450 millj. kr. af 800--1000 millj. Víst var það nokkur árangur og ber að þakka fyrir það þó að ákjósanlegt hefði verið að markmiðið hefði náðst sem stefnt var að. Ég held að engum ætti að blandast hugur um að ef við getum ekki tekið á rekstrarútgjöldum ríkissjóðs og launakostnaði, e.t.v. umfangi starfseminnar þannig að það minnki, er þess ekki að vænta að við náum nokkrum árangri. Það er best að gera sér það alveg ljóst. Það er búið að skera það mikið og búið að gera þær tilfærslur í öðrum liðum að ekki er von til þess að við náum neinum árangri að marki nema tekið sé á þessum liðum. Þetta verða menn hiklaust að gera sér ljóst hvað sem ýmsum þykir það sársaukafullt.
    Nú liggur það fyrir að bein laun í ríkiskerfinu á næsta ári eru áætluð 33--34 milljarðar kr. og yfirvinna er um það bil 1 / 3 hluti þessarar fjárhæðar. Yfirvinnan er gríðarlega mikil í ríkiskerfinu en hún er misjöfn. Ýmsir starfsmenn ríkisins hafa jafnmiklar tekjur af yfirvinnu eins og föstum launum, ýmsir jafnvel meira. En að meðaltali, eins og ég sagði, er yfirvinnan um þriðjungur heildarlaunaútgjalda. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir vakti á því athygli og taldi að það yrði tæplega hægt að ná yfirvinnunni niður um 15%. Ég skal ekki fullyrða hvort það tekst en það væri mikil þörf á því að geta hagrætt launakerfi ríkisins með þeim hætti að þetta væri mögulegt og að starfsemi ríkisstofnana og ráðuneyta væri hagað á þann veg að þessi mikli útgjaldaliður lækkaði. Ég tel ekki fráleitt að setja sér það mark að hann lækki um 15%. Það er dágóð fjárhæð. Það eru hvorki meira né minna en 1.650 millj. kr. miðað við það að yfirvinnan sé um 11 milljarðar.
    Hér hefur verið gagnrýnt að einstakir ráðherrar hafi orðað það sem möguleika að takist ekki að ná launakostnaðinum nægilega mikið niður eins og hér er stefnt að þá verði að segja upp fólki. Hv. þm. Guðmundur Bjarnason sagði 600 manns og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir talaði um 300 ársverk eða stöðugildi og getur það svo sem allt farið saman ef þessir starfsmenn hætta á miðju ári að meðaltali. ( GB: Þetta er úr minnisblaði frá hæstv. fjmrh.) Ég er ekki að mótmæla því. Ég sagði: Einstakir ráðherrar og einstakir þingmenn hafa nefnt þessa tölu, ég er ekki að mótmæla því. Nú skulum við horfa á málið eins og það liggur fyrir. Starfsmönnum ríkisins, þ.e. A-hluta ríkissjóðs, hefur fjölgað ár frá ári um 300--400 að meðaltali, sum árin 500, jafnvel 600, stundum minna en 300. Ég hygg 300--400 að meðaltali. Ég man eftir því í þrjú ár sem fráfarandi hæstv. ríkisstjórn starfaði, 1989--1991, fjölgaði starfsmönnum ríkisins um 1.100--1.200 manns. Ef við ætlum okkur að ná þeim árangri að hefta útþenslu ríkiskerfisins, ef við ætlum að ná þeim árangri að ná einhvers staðar sparnaði í útþenslunni og draga saman umfangið verður ekki hjá því komist að einhvers staðar fækki fólki. A.m.k. er nauðsynlegt að grípa til einhverra ráða til að hafa hemil á þessum mikla útgjaldalið fjárlaganna sem eru laun starfsmanna.
    Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir gagnrýndi að gert væri ráð fyrir því að það þyrfti að leggja nýjar ráðningar fyrir ríkisstjórnarfund og ég skal nú ekki fullyrða hvaða vinnulag hæstv. ríkisstjórn ætlar sér í þeim efnum. En ég tel að rétt sé að gera sér ljóst að þörf er á því að beita strangara aðhaldi en gert hefur verið við slíkar ráðningar. Það hefur verið orðað af hálfu fjmrn. að beita eins konar frystingu í þessum efnum þannig að þeir sem ráðnir eru til nýrra verka eða ráðnir í stað þeirra sem hætta séu einungis starfsmenn ríkisins sem teknir eru úr öðrum störfum. Það er býsna góð tillaga svo framarlega sem hún er framkvæmanleg. Ég tel til að mynda að tilefni sé til þess, og hef lengi talið, að starfsmenn ríkisins sem kallaðir eru verkefnaráðnir starfsmenn, séu ráðnir með þeim hætti að ráðningarsamningur greini ákveðið verkefni og ákveðin starfslok en svokallaðir verkefnaráðnir starfsmenn séu ekki ráðnir bara laust og bundið og festist síðan í kerfinu án þess að nokkurs staðar sé spyrnt við fótum. Það er mörg matarholan í öllu þessu kerfi sem hægt er að hnýsast í. Ég tel að það sé óhjákvæmilegt og lofsvert af hæstv. ríkisstjórn að vilja takast á við þetta verkefni.
    Gagnrýnt hefur verið í tengslum við þennan flata niðurskurð og það fyrirkomulag, sem boðað er hér m.a. bæði af hv. þm. Guðmundi Bjarnasyni og hv. þm. Margréti Frímannsdóttur, að með þessu væri verið að draga fjárveitingavaldið frá Alþingi og það væri þörf á því að styrkja Alþingi fremur en hið gagnstæða. Hv. þm. Jóna Valgerður lét einnig þessa skoðun í ljós og það er nokkuð til í því. Þess vegna þarf að athuga framkvæmd á þessu fyrirkomulagi nánar og það er verið að móta um þetta reglur. Þar verður í fyrsta lagi greint frá skyldum einstakra hæstv. ráðherra til að taka faglega á þessum efnum. Ef safnað er saman í pott endurgreiðslum á þessum sparnaðarliðum í hverju ráðuneyti verður að krefjast þess að hæstv. ráðherrar taki faglega á því að endurgreiða það til baka til einstakra stofnana. Það verður fylgst með því af hálfu forsvarsmanna fjárln. í gegnum ríkisfjármálanefnd þar sem við gerum ráð fyrir því að formaður og varaformaður fjárln. fylgist með því, a.m.k. mánaðarlega, hvernig þessu vindur fram. Það kemur líka til álita, ég segi það kemur til álita, að leggja úthlutun á þessu fé úr hverju ráðuneyti fyrir fjárln. Um það vil ég ekki fullyrða en ég vil segja að sú gagnrýni sem komið hefur fram á þetta fyrirkomulag á nokkurn rétt á sér. Það verður þess vegna stefnt að því að mæta þeirri gagnrýni, sem er svo sem ekkert sem við vissum ekki fyrir, en mæta þessu fyrirkomulagi með nýjum eða afdráttarlausum reglum og vinnu sem verður unnin í tengslum við forustumenn úr fjárln.
    Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir vakti á því athygli, sem við sem að þessu stöndum höfðum einnig rætt og tekið eftir að sjálfsögðu, að ýmsar stofnanir ríkisins munu eiga erfitt með að standast þennan sparnað vegna þess að innan veggja tiltekinna ráðuneyta eru margir tilfærsluliðir, stofnanir sem fá það sem kallað er tilfærslur á fjárlögum en framlagið skiptist ekki í laun og rekstrargjöld. Þessu hafa menn að sjálfsögðu tekið eftir og það verður skoðað hvort ástæða er til að veita heimild til þess að hluti af þessum sparnaði komi af launa- og rekstrarliðum slíkra tilfærslustofnana. Þetta er í athugun en ekkert frekar er um það að segja. En við höfðum að sjálfsögðu tekið eftir þessu eins og fram kom í máli hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur.
    Ég held að ég fari ekki fleiri orðum um þá gagnrýni sem fram hefur komið á þennan lið sem er afar veigamikill í þeim tillögum sem fyrir liggja. En það verður leitast við að nýta þá reynslu sem fengist hefur við slíkan niðurskurð áður, til að mynda frá fyrri ríkisstjórn sem hv. þm. Guðmundur Bjarnason minntist á, og móta þær reglur sem ætlast verður til að dugi til að þessum sparnaði verði náð.
    Ég hef á undanförnum árum hvatt til sparnaðar í ríkiskerfinu. Ég hef hvatt til þess að menn gerðu sér grein fyrir því hvert stefndi og hvatt til þess að það verði tekist á við vandann en ekki látið vaða svo á súðum sem raun hefur orðið á. Ég hef bent á að þessi vandi er orðinn svo stór að það verður eigi ráðið við hann án þess að draga saman umfangið, án þess að takast á við rekstrarliðina, án þess að takast á við starfsmannahald ríkisins og launakerfi. Ég hef sagt það og stend við það að ef þetta tekst ekki er ekki mögulegt að ná þeim árangri sem nauðsynlegur er og óhjákvæmilegur í fjármálum ríkisins. Ég segi þetta enn til að leggja áherslu á þýðingu þessarar skoðunar minnar sem auðvitað er

ekki einvörðungu mín skoðun heldur eru menn farnir að sjá hve þessi vandi er hrikalegur. En ég hef líka sagt að til þess að mögulegt sé að ná árangri í niðurskurði og sparnaði gegnum allt ríkiskerfið verði að byrja á æðstu stöðum. Ég hef sagt það á undanförnum árum. Og ég hef gagnrýnt það á undanförnum árum að í fjárlagagerðinni hefur að ýmsu leyti verið farið öfugt að. Alla jafna er það svo að þeir sem ráða ferðinni vilja vera góðir við sjálfa sig en ná meira af öðrum sem fjær standa og kannski geta illa borið hönd fyrir höfuð sér. Því miður hefur þetta einkennt þær sparnaðaraðgerðir sem t.d. hæstv. fyrri ríkisstjórn stóð að. Meira að segja var það svo að lög um Stjórnarráð Íslands og reglugerð við stjórnarráðslögin voru þverbrotin með því að hlaða pólitískum vildarmönnum í aðstoðarmannsstöður við jötuna.
    Ég geri að sjálfsögðu kröfur til þeirrar ríkisstjórnar sem ég styð og hef gert það. Það er kannski eftirtektarvert að í tillögum meiri hluta fjárln. er fyrsta tillagan um niðurskurð og sparnað hjá Alþingi sjálfu. Sú tillaga er vissulega ekki stór og gæti verið tilefni til þess að hún væri hærri. Ég vek athygli á því að fyrir um það bil áratug var þingfararkaup milli 50 og 60% af útgjöldum Alþingis. En fyrir tveimur árum var þingfararkaup alþingismanna um 25% af heildarútgjöldum Alþingis. Að sjálfsögðu þarf að líta til þeirrar stofnunar sem við sjálfir störfum í ekki síður en annarra. Ég get farið viðurkenningarorðum um hæstv. ríkisstjórn fyrir það að hæstv. forsrh. hefur greint frá nýjum reglum um greiðslu dagpeninga, risnu og ferðakostnað þar sem dagpeningar eru skertir frá því sem áður hefur verið um 20% m.a. Ég tel þetta þakkarvert, ég tel eðlilegt að fara um þetta viðurkenningarorðum því þetta er nauðsynlegt. Það er nauðsynlegt þegar í miklar sparnaðaraðgerðir þarf að fara að byrja á æðstu stöðum. Með því eina móti getur hæstv. ríkisstjórn, hver sem hún er, haft burði til þess að takast á við þessi mál í gegnum allt heila kerfið. Vanræki hún að byrja heima hjá sér er alveg gefið mál að árangur fer úr böndunum. En með þessum hætti má ætla að hún nái þeim aga og þeirri virðingu að hún geti náð árangri í þeim stofnunum sem fjær liggja.
    Ég tel ekki ástæðu til þess að fara yfir fleiri atriði þó að margt kæmi fram í umræðum hér í gær. Ég vil aðeins ítreka að þær aðgerðir sem verið er að grípa til hafa mikla þýðingu fyrir atvinnulífið. Í raun leggja þær grunn að því að hægt sé að ætlast til að þar geti orðið um breytingar að ræða til hins betra. Þær leggja grunn að því með því að vextir lækka, með því að stöðugleiki verður í verðlagi. Verðlag á að geta lækkað frá því sem nú er í sumum greinum og verðlagshækkun er orðin mun hægari en hefur verið á þessu ári og hinu síðasta. Þetta eru nauðsynlegar aðgerðir til þess að ætlast megi til þess að hér geti tekist friður um hófsama kjarasamninga. Allt hefur þetta gríðarlega þýðingu fyrir atvinnulífið.
    Ég sagði það margsinnis fyrir síðustu kosningar og ég hef sagt það síðan að viðamestu viðfangsefni nýrrar ríkisstjórnar væru að fást við ríkisfjármálin annars vegar og atvinnumálin hins vegar. Ég tel að með þeim aðgerðum sem hér er verið að stefna að sé stigið mjög þýðingarmikið skref í þessum málaflokkum báðum. Til viðbótar hefur hæstv. ríkisstjórn greint frá aðgerðum sem þýða a.m.k. 1.700 millj. kr. bata fyrir sjávarútveginn frá því sem áður hefur verið þannig að hér er um veruleg skref í þá átt að bæta stöðu þessa þýðingarmikla atvinnuvegar okkar sem sannarlega hefur staðið á brauðfótum um langa hríð. Ég tel að þær aðgerðir, sem hér er verið að leggja til að samþykktar verði, séu vissulega, eins og áður segir, í mörgum greinum sársaukafullar, í mörgum greinum erfiðar, í mörgum greinum er auðvelt að gagnrýna þær en í heild eru þær nauðsynlegar til þess að koma í veg fyrir að við kollsiglum okkur, ekki einungis í ríkisfjármálum heldur einnig í atvinnumálum og kollsiglum þar með efnahagskerfi þjóðarinnar í heild. Það er það sem fyrir liggur og það er það sem núv. hæstv. ríkisstjórn er að takast á við og það er auðvitað það verkefni sem hún tók að sér eftir viðskilnað fyrrv. hæstv. ríkisstjórnar.