Fjárlög 1992

50. fundur
Fimmtudaginn 12. desember 1991, kl. 13:21:00 (1839)

     Pálmi Jónsson (andsvar) :
     Herra forseti. Ég hefði nú kunnað betur við að kalla athugasemd hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar svar og mitt innlegg andsvar, látum það vera. Mér er það vitaskuld ljóst að í þessum tillögum og þessum aðgerðum eru nokkrir liðir sem þrengja að sjávarútveginum eins og öllum öðrum í þjóðfélaginu. Það má líta svo á, eins og ég hef margtekið fram, að árangri verði ekki náð í þessum efnum í fjármálum ríkisins án þess að það komi einhvers staðar við. En hitt liggur einnig fyrir að hæstv. ríkisstjórn hefur, eins og ég greindi frá, boðað aðgerðir sem létta stöðu sjávarútvegsins beint um 1.700 millj. kr. á næsta ári með því að leggja niður framlag í Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins og með því að fresta afborgunum af lánum Atvinnutryggingarsjóðs. Þess er einnig vænst að bankar og sjóðir fylgi í kjölfarið þannig að þetta verði til að létta stöðu sjávarútvegsins um eigi minna en 2 milljarða. Eitt aðalatriðið í mínu máli var nauðsyn þessara aðgerða í ríkisfjármálum og að án þeirra væri ljóst að ekki yrði komið við neinum vörnum í undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar. Ef haldið væri áfram í sama fari og gert var undir forustu hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar mundum við stefna hér ekki einungis í algjöra kollsiglingu á fjármálum ríkisins heldur einnig atvinnuvegunum og þar með öllu efnahagskerfinu. Þetta gerðist ef áfram væri haldið að þenja út ríkisútgjöldin og safna skuldum og reyna svo á lánsfjármarkaðinn sem gerðist í tíð hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar. Þá yrði ekki mögulegt annað en vextir hækkuðu, verðlag hækkaði, kjarasamningar á rólegum nótum mundu ekki nást og hagsmunir atvinnuveganna væru gjörsamlega fyrir borð bornir og við tæki kollsteypa í efnahagsmálum með gengisfellingum, okurvöxtum og óðaverðbólgu. Þetta er það sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson er að boða með óbreyttri stefnu áfram og þetta er það sem þjóðin stendur frammi fyrir ef ekki næst hér samstaða um að taka í taumana með þeim hætti sem hæstv. ríkisstjórn hefur boðað.