Fjárlög 1992

50. fundur
Fimmtudaginn 12. desember 1991, kl. 13:24:00 (1840)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
     Virðulegur forseti. Tölur hv. þm. eru einfaldlega rangar. Staðreyndin er sú að ríkisstjórnin er að taka frá sjávarútveginum um 900 millj. kr. ( Gripið fram í: Og vel það.) Hvað Atvinnutryggingarsjóðinn snertir er eingöngu um framlengingu, tímabundna frestun, á skuldum að ræða en ekki eftirgjöf þannig að sjávarútvegsfyrirtækin munu þurfa að greiða þessa upphæð engu að síður, þær 700 millj. sem þar er verið að tala um.
    Hvað snertir inngreiðslurnar í Verðjöfnunarsjóðinn er þar um að ræða peninga sem

sjávarútvegsfyrirtækin hefðu átt, jafnvel þótt þau hefðu borgað þá inn í Verðjöfnunarsjóðinn. Það er bara spurning um það hvar eign sjávarútvegsfyrirtækjanna lenti, hvort hún færi strax út í fyrirtækin eða hvort þau ættu hana inni í sjóðnum. Þess vegna er í aðgerðum ríkisstjórnarinnar ekki verið að veita sjávarútvegsfyrirtækjunum neitt nýtt fé eða neinn raunverulegan afslátt. Það er frestun á skuldagreiðslum í Atvinnuleysistryggingarsjóði og bókhaldslag tilfærsla á þeim peningum sem fyrirtækin eiga hvort sem er samkvæmt gildandi lögum inni í Verðjöfnunarsjóðnum.
    Hins vegar er ríkisstjórnin með nýjum skattaálögum á sjávarútveginn að knýja hann á næsta ári til að greiða a.m.k. tæpar 900 millj. kr. í ríkissjóð beint í gegnum aukna skatta. Þegar allt er lagt saman er alveg ljóst að aðgerðir ríkisstjórnarinnar fela í sér viðbótarbyrði fyrir sjávarútvegsfyrirtækin á Íslandi sem nemur tæpum 1 milljarði kr. Þetta, hv. þm., eru hinar tölulegu staðreyndir málsins.