Fjárlög 1992

50. fundur
Fimmtudaginn 12. desember 1991, kl. 13:28:00 (1842)

     Jón Kristjánsson :
     Herra forseti. Hér var hafin umræða í gær um frv. til fjárlaga fyrir árið 1992, 2. umr. Hér hafa talað fyrir hönd stjórnarliða þeir formaður fjárln., hv. 6. þm. Reykn., og varaformaður, hv. 2. þm. Norðurl. v. Báðir höfðu í heitingum og börðu sér á brjóst og staðhæfðu að nú væru tímamót, það lá í þeirra orðum, nú væri loksins raunhæft fjárlagafrv. á ferðinni og þetta frv., sem hér er á ferðinni, ætti að endurreisa atvinnuvegina í landinu, lækka vexti, skapa stöðugleika í efnahagsmálum og væri forsendur fyrir skynsamlegum kjarasamningum. Þetta væri nú allt gott og blessað ef satt væri. En því miður ekki er allt sem sýnist. Hv. 2. þm. Norðurl. v. hélt áfram. Hann sagði: ,,Smáskammtalækningar duga ekki.`` Smáskammtalækningar duga ekki, og síðan rakti hann tillögur ríkisstjórnarinnar, sem komu fram í gær, og eru að koma fram, illa grundaðar og illa undirbúnar og mun ég koma að þeim síðar.
    Þeir félagar töluðu einnig um að málflutningur stjórnarandstöðunnar væri óábyrgur. Við hefðum ekki lagt til neitt sem mætti verða til að ná þeim markmiðum sem hv. 2. þm. Norðurl. v. setti fram í sinni ræðu og eru að sjálfsögðu góð markmið. Þetta er einfaldlega rangt. Þingmenn stjórnarandstöðunnar í fjárln. hafa tekið á málum af fullri ábyrgð. Við höfum ætíð, síðan fjárlagafrv. kom til umræðu, viðurkennt að það væri við vanda að etja. Við höfum sett okkar sjónarmið fram en að sjálfsögðu fara þau ekki saman við sjónarmið meiri hlutans í nefndinni sem hefur á margan hátt unnið afar óvenjulega að málum í undirbúningi þessarar umræðu. Svo ég endi þennan kafla um heitingar og svardaga þeirra félaga, hv. formanns og varaformanns nefndarinnar, þá sagði formaðurinn í sinni ræðu í gær eitthvað á þá leið og gerðist skáldlegur að nú ætti ekki að ferja kóngsins mann yfir Skerjafjörð, það á ekki að ferja kóngsins mann yfir Skerjafjörð í líki ófreskju óráðsíunnar. Gengur þetta svo? Ég er hræddur um ekki. Hér er nefnilega ekki allt sem sýnist.
    Beðið hefur verið eftir þessu fjárlagafrv. með nokkurri eftirvæntingu. Ríkisstjórnin hefur kynnt þetta frv. á svipaðan hátt og hv. 2. þm. Norðurl. v. að þetta væri hryggurinn, þetta væri þungamiðjan í aðgerðum ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, þetta væri grundvallaraðgerð fyrir atvinnuvegina í landinu sem eru illa staddir um þessar mundir. Einkum undirstöðuatvinnuvegirnir. Það hefur legið fyrir að við vanda er að etja í ríkisfjármálum. Það höfum við stjórnarandstæðingar aldrei dregið fjöður yfir og við drógum ekki fjöður yfir það fyrir kosningar að þar væri við vanda að etja. En hins vegar töluðu frambjóðendur Sjálfstfl. um það í sínum ræðum í vor, og margir þeirra eru nú orðnir þingmenn, að það væri hægt að lækka skatta í þessu þjóðfélagi. Vandinn var ekki meiri í þeirra augum en það. Hins vegar verð ég að segja það, hv. 2. þm. Norðurl. v. til hróss, að hann var þó það raunsær að hann sagði að það væri ekki hægt að lækka skatta. Hins vegar sagði hann í ræðu sinni í gær: Nú ætlum við að koma öllu í lag á tveimur árum og svo ætlum við að lækka skatta eftir tvö ár. En verður það svo? Ég held ekki. Ég held að það muni ekki allt komast í lag á tveimur árum með þessum aðferðum sem nú eru notaðar.
    Einkenni þessa frv. og það sem er langhættulegast við það er að niðurskurður, sem þar er boðaður, liggur ekkert á borðinu. Hann er í nokkrum þáttum. Meiri hlutinn af efnahagsaðgerðum þessa frv. liggur í því að velta útgjöldum yfir á aðra aðila í þjóðfélaginu í staðinn fyrir að skera þau niður. Það er nú allur hetjuskapurinn sem þetta frv. hefur í för með sér. Það hefur verið til umræðu síðan í haust að hluta vandans ætti að setja yfir á námsmenn, hluta yfir á þá sem verða veikir. Nú er komið í ljós með nýjum aðgerðum að hluta af þessum vanda á að setja yfir á atvinnuvegina í landinu líka og þá atvinnuvegi sem standa höllustum fæti. Þannig að hér er alls ekki um þá efnahagsaðgerð að ræða. Óskhyggja hv. 2. þm. Norðurl. v. í þessu efni og hv. formanns fjárln., 6. þm. Reykn., er mikil. Ég er því miður viss um að þetta frv. verður ekki til að ná þessum göfugu markmiðum.
    Auðvitað er þetta frv. tilraun til þess að sleppa frá loforðum um skattalækkanir í vor. Þessar tilfærslur eru auðvitað til þess að sleppa frá kosningaloforðum Sjálfstfl. í vor. Aðaleinkenni frv. eru tilraunir til að fela skattahækkanir undir öðrum liðum, undir öðrum nöfnum eins og þjónustugjöld og alls konar taxtahækkanir í þjóðfélaginu. Reynt er að láta í veðri vaka að þarna sé réttlæti á ferðinni og þeir eigi að borga þjónustuna sem njóta hennar eins og það heitir á máli frjálshyggjumanna. En hér er um svo víðtækar álögur að ræða að þær snerta hverja einustu fjölskyldu í landinu, þessi gjaldtaka er svo almenn. Fjárlagafrv. hefur þau megineinkenni að skattahækkanir eru dulbúnar í formi þjónustugjalda sem sum hver grafa mjög undan velferðarkerfinu í landinu.
    Ég mun koma að nokkrum þáttum í þessu sambandi, hvernig gjöldum er velt yfir á aðra aðila og hvernig það hefur verið undirbúið og þau viðbrögð sem þegar hafa komið í ljós. Að öðru leyti hélt hv. 1. þm. Norðurl. e. ítarlega ræðu í gær og fór í gegnum efnisþætti frv.
    Ætlunin er að sveitarfélögin í landinu taki yfir á sig 940 millj. kr. útgjöld vegna ríkisfjármála. Afar einkennilega er að þessu er staðið. Það er mjög gróft dæmi, ef svo má segja, um það litla samráð sem þessi ríkisstjórn vill hafa við aðila úti í þjóðfélaginu. Ég man eftir að þegar ég kom til starfa í stjórnmálum og inn á Alþingi fyrir nokkrum árum var ófriður á milli ríkis og sveitarfélaga, það linnti ekki upphringingum frá sveitarstjórnarmönnum sem voru að kvarta yfir sínum hlut, skerðingum á Jöfnunarsjóði o.s.frv. Ég veit að allir þeir hv. þm. sem hafa verið hér á Alþingi um nokkurt árabil muna vel eftir þessu ástandi. Hins vegar gengu stjórnvöld á sínum tíma í að laga þetta ástand í samvinnu við sveitarfélögin. Það voru samþykkt ný lög um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og tekjustofna sveitarfélaga og þessi verk voru unnin í náinni samvinnu við sveitarfélögin í landinu. Enda er það svo að síðan þessir tveir lagabálkar gengu í gildi og farið var að starfa eftir þeim hefur verið friður um þessi mál, það hefur verið friður milli ríkisvalds og sveitarfélaga þó að sjálfsögðu sé ýmislegt sem enn má laga.
    Nú segja menn sem svo, og ég hef heyrt þær staðhæfingar, að sveitarfélögin verði auðvitað að taka þátt í að mæta efnahagserfiðleikum og vanda í ríkisfjármálum eins og aðrir aðilar í þjóðfélaginu. Forsvarsmenn sveitarfélaga hafa ekkert neitað þessu. Hins vegar finnst þeim að sjálfsögðu einkennilegt að víðtækar ráðstafanir skuli vera ákveðnar án þess að nokkuð sé við þá talað. Ég get upplýst að í morgun komu til félmn. Alþingis tveir af forustumönnum Sambands íslenskra sveitarfélaga, formaður og framkvæmdastjóri, út af frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Þeir upplýstu það, sem mér fannst athyglisvert og er í sjálfu sér þakkarvert að það hafði verið haft samband við þá á undirbúningsstigi þess frv., að þeir höfðu í góðri trú álitið að þær rúmlega 200 millj. sem það frv. felur í sér í aukin útgjöld fyrir sveitarfélagið væri þeirra framlag til að mæta vanda í ríkisfjármálum. Hins vegar sögðu þeir: ,,Síðan fengum við sendingu fyrir tveimur dögum og það gerir það að verkum að sjálfsögðu að þessi mál eru öll í uppnámi hvað okkur varðar.`` Hvaða sending var þetta sem þeir fengu fyrir nokkrum dögum? Þeir fengu tilkynningu um það frá ríkisstjórninni, það var ekki einu sinni haft samband við þá í síma á undirbúningsstigi, að það ætti að setja 400 millj. kr. útgjöld vegna fatlaðra yfir á sveitarfélögin. Það ætti að taka landsútsvar Áfengisverslunar ríkisins í ríkissjóð og hækka útsvarsstofn um 0,1% sem ætti að renna í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.
    Hvað fatlaða varðar þá er þetta --- og vil ég nú biðja hæstv. félmrh. að hlusta, því hún hefur staðhæft að þetta sé ekki brot á lögum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ég veit ekki hvað er brot á þeim lögum ef þetta er það ekki. Þetta gengur alveg þvert á þá hugmyndafræði sem lá til grundvallar verkaskiptingunni. Sú hugmyndafræði --- ég ætla að rifja það upp með hæstv. félmrh. --- gekk út á það að skipta ekki málaflokkum, tæta ekki málaflokka í sundur. Á þeim forsendum fóru öll heilbrigðismál yfir til ríkisvaldsins. Það var á þessum forsendum. Nú er það allt í einu brostið, á einum degi og án alls samráðs við aðila, og vaðið inn í þessa verkaskiptingu sem hæstv. félmrh. lagði mikla vinnu í á sínum tíma að ná saman. Ég skil ekkert í hvað hefur komið fyrir hæstv. félmrh., ég segi það satt. Hefur bardaginn við Seðlabankann út af húsbréfunum tekið svona mikinn tíma að hæstv. félmrh. hafi alveg gleymt verkaskiptingunni og hve viðkæm hún er? Enda hafa viðbrögðin verið hörð. Hér sendir Öryrkjabandalag Íslands bréf til ráðherra og alþingismanna dags. í gær, 11. des. Ég ætla til að spara tímann aðeins að lesa síðustu setninguna, með leyfi forseta: ,,Öryrkjabandalagið mótmælir þessum ógrunduðu hugmyndum harðlega og hvetur ríkisstjórn sem þingmenn til að sjá til þess að þær verði ekki að veruleika.`` Þroskahjálp --- sem hefur þó verið til viðræðu um að færa eitthvað af þjónustu við fatlaða yfir til sveitarfélaga --- segir í bréfi, sem er einnig dags. í gær, til ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, með leyfi forseta: ,,Landssamtökin Þroskahjálp mótmæla harðlega þeim hugmyndum sem uppi eru í ríkisstjórn Íslands um að flytja viðamikinn þátt þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga án nokkurs samráðs við hagsmunasamtök fatlaðra og/eða sveitarfélögin.`` Hér segir síðar: ,,Landssamtökin Þroskahjálp vara við því að gera málefni fatlaðra að bitbeini mismunandi stjórnsýslustiga. Það mun fyrst og fremst bitna á fötluðum og aðstandendum þeirra og getur orðið til að ýta undir neikvæða umræðu um fatlaða og málefni þeirra.`` Og hér er lokasetningin, með leyfi forseta: ,,Að lokum vilja Landssamtökin Þroskahjálp minna á þann skýlausa rétt sem hagsmunasamtökum fatlaðra er tryggður í lögum um málefni fatlaðra að hafa áhrif á ákvarðanatöku um málefni er varða hagsmuni þeirra t.d. setningu og framkvæmd laga og reglugerða.`` Undir þetta skrifa Ásta B. Þorsteinsdóttir, formaður Þroskahjálpar, og Lára Björnsdóttir framkvæmdastjóri. Undir bréfið frá Öryrkjabandalaginu rita varaformaður Öryrkjabandalags Íslands Ólöf Ríkharðsdóttir og framkvæmdastjóri Ásgerður Ingimarsdóttir.
    Ég vil dvelja aðeins lengur við þennan málaflokk, samskiptin við sveitarfélögin, því þetta er dálítið merkilegt mál. Það er ekki nóg með það að lítið samráð er haft, heldur fá forsvarsmenn sveitarfélaga skeyti frá málgagni Sjálfstfl., sem er talið að vísu ópólitískt blað, en það er Morgunblaðið í dag. Þeir fá eftirfarandi skeyti þar sem rætt er um þessi mál, með leyfi forseta: ,,Á hinn bóginn fer ekki milli mála að litlar kröfru hafa verið gerðar á hendur sveitarfélaga um þátttöku í viðleitni til að skapa hér efnahagslegan stöðugleika.`` Þetta eru kveðjurnar sem sveitarfélögin fá.
    Ég veit ekki hvort mönnum er það ljóst að miklar byrðar hafa verið lagðar á sveitarfélögin í landinu við að mæta erfiðleikum í atvinnulífi. Auðvitað þekkja menn það ekki hér í Reykjavík en þeir sem hafa komið út um land þekkja þetta mætavel. Ég hélt satt að segja í einfeldni minni að það væri nauðsynlegt núna við þær aðstæður sem eru í efnahagsmálum að sveitarfélögin í landinu hafi sterkan fjárhag og geti bæði haldið uppi þjónustu og stuðlað að því að atvinnulífið í einstökum sveitarfélögum fái að ganga. Ég ætla ekki að fara að rekja mörg dæmi. Þau hafa komið fram. Ég vil nefna þó eitt sveitarfélag, sem ég þekki vel, þar sem erfiðleikar hafa verið í sjávarútvegi og erfiðleikar hafa komið upp. Það er Seyðisfjörður. Seyðisfjörður er þó ekkert einsdæmi í þessum sambandi. En m.a. Seyðisfjörður og sveitarstjórnin þar fær þessar kveðjur frá stærsta málgagni landsins að það hafi verið litlar kröfur gerðar á hendur forsvarsmanna sveitarfélaga að skapa stöðugleika.
    Það er óhjákvæmilegt að fara yfir þetta málefni vegna þess að hér er um svo hrópandi dæmi að ræða um lítið samráð sem er að vísu á miklu fleiri sviðum. Fulltrúaráð Sambands íslenskra sveitarfélaga hélt fund á Hótel Sögu í Reykjavík þann 23. nóv. þar sem m.a. var rætt um skiptingu landsins í sveitarfélög. Þessi fundur sendi frá sér ályktun og tillögur og ein af þeim tillögum er þess efnis að komið verði á sérstakri samráðsnefnd ríkis og sveitarfélaganna sem útfæri nánar tillögur um ný umdæmi sveitarfélaga sem taki eins og kostur er mið af leið tvö. Leið tvö er að stækka sveitarfélögin mjög mikið. Menn kunna að hafa ýmsar skoðanir á því. Og svo segir hér:
    ,,Nefndin skal jafnhliða vinna tillögur að breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.``
    Hér eru sveitarfélögin að bjóða upp á samstarf um þessi mál. Menn kunna að hafa margs konar skoðanir á hvað sveitarfélög eigi að vera stór. Það er ekki til umræðu hér. Hér hefur gefist tilefni til að skoða verkaskiptinguna og forsvarsmenn sveitarfélaga stóðu í þeirri góðu trú að sömu vinnubrögð og hafa tíðkast á undanförnum árum ættu að vera frá ríkisstjórnarinnar hálfu. Ég fer í gegnum þetta mál til þess að spara tímann og get þá vísað til þess um samráð um aðra hluti því að þetta er módel fyrir öll önnur samskipti ríkisstjórnarinnar.
    Hv. 2. þm. Norðurl. v. var að hæla sér af því að meiri hluti fjárln. hefði gert tillögu um það til ríkisstjórnarinnar að skera kostnað við þinghaldið niður um 7 millj. að þar er afskaplega einkennilega að farið. Ég er ekki þar með að segja að ekki megi spara hér eitthvað innan dyra, langt í frá. Það á að skoða þessa stofnun með sparnað fyrir augum alveg eins og aðrar. En hins vegar er það undarlegt að meiri hluti fjárln. skuli vera að fjalla

um þinghaldið á meirihlutafundum og senda um það einhverjar nótur til ríkisstjórnarinnar án þess að minni hluti fái þar að koma nálægt. Þetta er alveg í samræmi við annað um þinghaldið. Minni hluti virðist ekkert eiga að hafa um það að segja. Á undanförnum árum höfum við litið þannig á að Alþingi væri stofnun sem við öll sem sitjum hér inni ættum að ræða um reksturinn á í góðu samkomulagi. Það er ekki pólitík. Það er verið að skapa hér starfsumhverfi. Ég spyr: Hefur forsætisnefndin fjallað um þessar tillögur? Ég vil spyrja og beina því til hæstv. forseta. Þetta er eitt dæmi um hvernig að þessum málum er staðið. Þar með er ég ekkert að leggja neinn dóm á þessar tillögur en ég mótmæli harðlega þessum vinnubrögðum. Við í minni hluta nefndarinnar viljum fá að taka þátt í umræðum sem varða þá stofnun og það starfsumhverfi sem við vinnum hér í. Sá háttur hefur verið hafður á undanförnum árum og ég vil biðja hv. þm. og hv. meiri hluta fjárln. að taka upp betri siði í þessum efnum.
    Það hefur komið fram í þessari umræðu að í fjárlagafrv. eru fjölmörg ákvæði sem íþyngja atvinnuvegunum. Ég get ekki séð að sá háttur feli í sér mikinn sparnað fyrir ríkissjóð. Það er nú svo að auðvitað nærist ríkissjóður á því að atvinnuvegirnir í landinu hafi gott umhverfi og geti starfað og hafi einhverja afkomu. Það er undirstaðan. Þess vegna er aðferðin sem er höfð í þessu frv. einfaldlega röng. Vegna þessarar aðferðar er umræðan um ríkisfjármálin út og suður. Og það er erfitt að ræða þessi mál án þess að koma inn á ýmis hliðarfrv., eins og frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Þar er m.a. gert ráð fyrir breyttu fyrirkomulagi varðandi ábyrgðarsjóð launa vegna gjaldþrota. Þar er verið að færa útgjöld yfir á atvinnuvegina og í því frv. er miðað við að 0,2% af öllum launagreiðslum renni í sjóð til að mæta gjaldþrotum.
    Við höfum aldrei haft á móti því eða mótmælt því að reglur um þennan sjóð þyrfti að endurskoða. Auðvitað hefur þeim verið breytt og þær hafa verið lagaðar, t.d. sett þak á þær launagreiðslur sem ríkið ábyrgist. Hér komu í morgun inn í félmn. þingsins umsagnir frá Vinnuveitendasambandi Íslands og Alþýðusambandi Íslands um þessi mál. Þetta er ein af hliðargreinunum með fjárlagafrv. og varðar auðvitað fjárlagafrv., svo ég vil leyfa mér að vitna í þessar umsagnir hér því þær sýna svo ekki verður um villst hvað aðferðin er vitlaus sem beitt er, hvað hún er hættuleg og hvað hún mun leiða til lítils árangurs þegar upp er staðið. Hér segir í bréfi Vinnuveitendasambands Íslands sem dagsett er í morgun:
    ,,Frumvarpið miðar að 0,2% gjaldtöku af öllum launagreiðslum en versni ástandið í atvinnulífinu enn er gert ráð fyrir að þetta gjald geti hækkað. Þetta samhengi er augljóslega út í hött.`` --- Hér segir síðar, með leyfi forseta: ,,Vinnuveitendasambandið mótmælir því eindregið þessum áformum að velta einum kostnaðarlið ríkisvaldsins af erfiðleikum í atvinnulífi yfir á atvinnureksturinn og er það sérstaklega fráleit opnun heimildar til hækkunar gjaldsins eftir því sem þarfirnar verða. Með vísan til alls þessa væntir Vinnuveitendasambandið þess að fallið verði frá umræddum áformum um álagningu nýs launaskatts.``
    ASÍ segir í sinni umsögn og vil ég leyfa mér að vitna í hana hér: ,,Þar sem fjárhæðin er takmörkuð við hámark 0,2% atvinnurekendagjald er óvissa um hver réttur fólks yrði. Það færi eftir umfangi gjaldþrota hve mikið rétturinn skerðist. Því verður ekki lengur um ábyrgð á ákveðnum rétti að ræða, ábyrgðin færi eftir greiðslugetu sjóðsins og ásókn í sjóðinn.``
    Síðar vitna þeir í það að þetta gjald geti verið á kostnað launahækkunarmöguleika í samningum. Aðilar vinnumarkaðarins eru sem sagt sammála um það að vara við þessu og þetta er ljóst dæmi um undirbúning þessara miklu aðgerða sem ríkisstjórnin kynnti fyrir tveimur dögum. Hún ætlaði ekki fjárln. að fjalla um þær enda kom það í ljós og vil ég þar víkja aðeins að vinnubrögðum. Ég vil eigi að síður byrja á því og hefði kannski átt að

byrja ræðuna á því, en betra er seint en aldrei, að þakka samstarfið í nefndinni. Þó að deilt hafi verið þar á stundum um vinnubrögð og sitt hafi sýnst hverjum vil ég þakka stjórnarliðum og öllum nefndarmönnum fyrir samstarfið það sem komið er. Eins og er tekið fram í nál. þá er nú minnst við þá að sakast um þessi vinnubrögð. Þau stafa af vendingum ríkisstjórnarinnar í málinu. Það er minnst við meiri hlutann í nefndinni að sakast og vil ég þakka honum fyrir samstarfið sem er ekki búið því sannleikurinn er sá að óvenjulega stórum málum hefur verið vísað til 3. umr. og jafnvel meiri hlutinn af vinnunni við frv. er eftir. En við fórum fram á það þegar ráðstafanirnar komu frá ríkisstjórninni að fá aðila til viðtals um þessar miklu ákvarðanir, skrifuðum bréf, fórum fram á það formlega að fá aðila til viðtals. Við báðum ekki um frestun á umræðunni, stjórnarliðar frestuðu henni sjálfir þó að reynt hafi verið að láta í veðri vaka að það hafi verið fyrir okkur gert. Við vildum leggja á okkur að sitja og hlusta á þessa aðila og vinna á nóttinnni eins og gengur á þessum tíma. Þessari beiðni var neitað svo að minni hlutinn varð að ræða við þessa aðila sérstaklega. Við kölluðum í fulltrúa BSRB til þess að spyrja þá hver áhrif sá mikli launaniðurskurður hefur sem áætlaður er. Það er rétt að menn eigi þá það sem þeir eiga. Þar er um niðurskurð að ræða ef hann gengur eftir. Það er rangt að við stjórnarandstæðingar höfum ekki verið tilbúnir til þess að ræða niðurskurð á rekstrarútgjöldum ríkisins. Auðvitað erum við tilbúnir til þess og höfum alltaf verið. En við erum ekki tilbúnir til að láta afhenda okkur svona pakka upp á 2.500 millj., tæpum sólarhring áður en afgreiða á þessi mál í 2. umr. án þess að vita nokkuð hvað við erum að gera. Fram kom í viðtölum við fulltrúa BSRB, eins og hv. 1. þm. Norðurl. e. rakti í sinni ræðu í gær, að þeir eru tilbúnir til viðræðu um niðurskurð á launum ríkisstarfsmanna. Þeir segja einfaldlega: Það verður að vera til langtímaplan eða plan til nokkurra ára. Ekki er hægt að ganga í þetta í einhverjum stórskömmtum eða undir yfirskriftinni sem hv. 2. þm. Norðurl. v. hafði hér áðan: Smáskammtalækningar duga ekki.
    Þetta er ekki forskrift til að vinna að málum eftir. Ljóslega kom fram hjá forráðamönnum BSRB að ef við þá er rætt vilja þeir vinna að þessum málum með sínu fólki. Menn kæra sig ekkert um að liggja undir því að tóm óráðsía sé á þeirra vinnustöðum og opinber rekstur sé óráðsíurekstur. Fólki svíður, sem vinnur sín störf af samviskusemi, að opinber umræða um starfsmenn og samviskusamt fólk úti í þjóðfélaginu sé öll í þá veru að hér sé um óráðsíu að ræða. Fólk vill vinna með stjórnvöldum að því að finna þær leiðir sem geta sparað fé. Það kom ljóslega fram á fundum okkar með forráðamönnum BSRB. Ef allar breytingar koma í tilskipunarformi til sveitarfélaganna, til BSRB, til stofnana, allt í tilskipunum að ofan, þá næst ekki samvinna um neitt. Hér er kominn listi frá fjmrn. um skiptingu þessarar flötu lækkunar á ráðuneyti. Þar kemur í ljós að menntmrn., svo að dæmi sé tekið, er ætlað að bera 455 millj. lækkun, nettóskerðingu, og endurráðstafað fé sem ráðherrann hefur til þess að jafna á milli eru 290 millj. Heilbr.- og trmrn. fær skerðing upp á 562 millj. Liðurinn sem á að endurráðstafa er upp á 358 millj. Þetta er að sjálfsögðu allt saman óundirbúið. Það væri fróðlegt að vita, ég veit ekki hvort hæstv. menntmrh. hlustar á mig, hvernig hann ætlar að ráðstafa þessum niðurskurði á þær stofnanir, þá skóla, sem heyra undir hans ráðuneyti. Hvernig á að koma þessu fyrir í menntmrn.? Upphæð upp á 455,8 millj. kr. Væri ekki betra að undirbúa slíka hluti, gefa sér einhvern tíma?
    Hér eru staðhæfingar um að einstakir ráðherrar taki faglega á endurgreiðslunni og þeir félagar, hv. formaður og varaformaður fjárln., ætla að fylgjast með því að þessi faglegu vinnubrögð verði viðhöfð. Ég er ekkert að vantreysta því að þeir muni reyna það eftir bestu samvisku en hér er náttúrlega algjör kúvending á fjárveitingavaldinu, að taka hvorki meira né minna en 955,3 millj. til ráðstöfunar fyrir ráðuneyti, jafnvel þó að þeir verði nú kallaðir upp í Arnarhvol einu sinni í mánuði, þeir hv. 2. þm. Norðurl. v., Pálmi

Jónsson, og hv. 6. þm. Reykn., Karl Steinar Guðnason, til þess að líta á þetta. Vonandi gengur þetta eftir en þessi endurgreiðsla er auðvitað viðurkenning á því að hæstv. ríkisstjórn hefur vitað ósköp lítið hvað hún var að gera þegar hún setti fram þessar 1.700 millj. kr.
    Ýmsir liðir í frv. eru óklárir, án þess ég fari nákvæmlega í það því hv. 1. þm. Norðurl. v. gerði það í gær. Þó að 6. gr. sé ekki hér til umræðu og verði nánar rædd við 3. umr. má geta þess að þar er ætlunin að hafa 1 milljarð í tekjur af sölu eigna. Alveg er óútfært hvaða eignir það eiga að vera og við hvaða verði á að selja þær. Á að selja þær á hálfvirði eða hvað? Nægur tími gefst til að ræða það við 3. umr. málsins.
    Hv. 1. þm. Norðurl. e., sem er talsmaður minni hlutans og aðaltalsmaður í þessu máli, fór í gegnum þær breytingartillögur sem hér liggja fyrir. Ég mun því stikla þar á stóru. Ég vil geta þess, ef hv. þm. hafa ekki tekið eftir því, að hér er komin breytingartillaga frá stjórnarliða um einn fjárfestingarlið. Forsagan að því er dálítið merkileg. Tillögum kjördæmisþingmanna til breytinga á ákveðnum fjárfestingarlið í heilbrigðismálum var hafnað, sem ég hugsa að sé einsdæmi, en að sjálfsögðu hefur nefndin vald til þess að hafna því og ég efast ekki um að það geti staðist. Þetta er ákaflega óvenjulegt þannig að þessum hv. þm., 3. þm. Austurl. Agli Jónssyni, er nóg boðið og hefur flutt þessa breytingartillögu. Ég ætla að öðru leyti ekki að hafa mörg orð um hana. Minni hlutinn hefur, þrátt fyrir allt talið um óráðsíu og lítinn vilja okkar til þess að ná utan um ríkisfjármálin, ekki flutt eina einustu tillögu til hækkunar á frv. Það höfum við ekki gert þrátt fyrir að hart sé deilt og þó að hv. 2. þm. Norðurl. v. hafi deilt mjög og ómaklega á ræðu hv. 1. þm. Norðurl. e. Hann bar honum m.a. á brýn að hann hefði engar tillögur haft um niðurskurð eða sparnað enda ekki von þar sem hann væri nýkominn úr fyrrv. ríkisstjórn þar sem slík viðleitni hefði ekki verið mikil. Mér finnst í meira lagi hæpið að halda slíku fram og mjög ómaklegt einmitt um þennan hv. þm., hæstv. fyrrv. heilbrrh., sem gerði í sínu ráðuneyti mjög miklar tilraunir til niðurskurðar sem báru árangur í mörgum tilfellum. Hann reyndi að hafa um það samráð við aðila. Það hlaut ekki góðar viðtökur hjá mörgum. Hann hafði hugmyndir um breytingu á almannatryggingalögum og breytingar á skipulagi lyfjamála sem hefðu leitt til verulegs sparnaðar í lyfjaútgjöldum. Ekki með því að velta því yfir á sjúklingana heldur með breytingum í skipulagi þessara mála. Hann hafði hugmyndir um verulegan sparnað. Þessir tveir liðir upp á um 600 millj. af kostnaði sérfræðiþjónustu voru hvorir tveggja stöðvaðir í fyrri ríkisstjórn af samstarfsflokki hæstv. fjmrh., Alþfl. Mér finnst heldur ómaklegt að ráðast að hv. 1. þm. Norðurl. e. fyrir að hann hafi haft frammi sérstaklega óábyrgan málflutning hér og verið óábyrgur í fyrri ríkisstjórn og ekki gert tilraunir til þess að spara. Ég vona að sá ágæti maður sem við höfum ágætt samstarf við að öðru leyti, hv. 2. þm. Norðurl. v., hafi sagt þetta í hita bardagans og dragi þetta til baka. Hann gæti gert það við þessa umræðu.
    Það er nú svo að hér í upphafi umræðunnar hafa verið miklir svardagar um að þetta frv. væri góð efnahagsaðgerð og það mundi leiða til lækkunar vaxta og góðs umhverfis fyrir atvinnulífið í landinu. Ég held að þetta frv. leiði ekki til þess. Ég held nefnilega að þegar gjöldunum er velt yfir á aðra, velt yfir á atvinnulífið, yfir á sveitarfélögin, yfir á ýmsa aðila í þjóðfélaginu, þá eykst lánsfjárþörf þeirra aðila. Lánsfjárþörfin er færð frá hinu opinbera yfir á þá aðila. Sparnaðurinn er ekki raunverulegur, útgjöldin lifa áfram, það eru bara aðrir aðilar sem borga. Ætli sveitarfélögin í landinu hafi 120 millj. í vasanum til að byggja fyrir félagslegar íbúðir? Ætli sú upphæð fari ekki einhvers staðar út úr lánakerfinu? Ætli það þrýsti ekki á vextina? Þarna er verið að færa til og þetta er ekki sú efnahagsaðgerð sem fulltrúar stjórnarliða í þessari umræðu hafa lagt svo mikla áherslu á að sverja. Menn sverja hér í ræðustól að þetta sé hin besta efnahagsaðgerð. Það er ekki svo,

því miður. Því miður er það mín reynsla eftir að hafa starfað í minni hlutanum síðan í haust að ég tel mig ekki hafa nógu góða yfirsýn yfir marga liði, margar beiðnir sem hefur verið synjað. Ég tel mig ekki hafa nógu góða yfirsýn yfir það hvernig þeir aðilar ætla að sjá sínum störfum farboða á næsta ári. Hvort það verður ekki svo að menn koma og segja þegar fer að líða á næsta ár: Við þurfum að fá hér heimildir á fjáraukalögum. Ég er því miður hræddur um að svo verði. En auðvitað er það gott ef menn geta náð fram sparnaði án þess að sá sparnaður brjóti niður velferðarkerfið í landinu. Við stjórnarandstæðingar erum alveg tilbúnir til að ræða slíkt, en við viljum vinna vel að málum og gera okkur grein fyrir hvernig á að veita þjónustuna, hvaða þjónustu á að fella niður, ef skorið er niður, en því miður er ég ekki nógu vel undirbúinn að þessu leyti eftir þessa vinnu --- og hef ég þó reynt að vinna eftir bestu getu í nefndinni, ég hef mætt þar á hvern einasta fund og setið alla fundi þar sem minni hlutinn hefur verið boðaður á. En ef það á að hafna öllu eins og hefur verið gert, það hefur mjög mörgu hafnað og ég er ekkert að segja að það sé ekki réttmætt í einhverjum tilfellum, þá verður að gera sér grein fyrir afleiðingunum. Og ég held að á það skorti mjög og ég held að það verði svo að þessir aðilar komi aftur á fund fjárln. þegar fer að líða á árið og biðji um leiðréttingu vegna óhjákvæmilegra starfa eða þjónustu. Því miður þó að formaður fjárln., hv. 6. þm. Reykn., hafi verið skáldlegur í gær og ætli ekki að ferja ,,kóngsins mann yfir Skerjafjörð``, eins og Ásbjörn Jóakimsson neitaði um forðum, þá býður mér í grun að einhverjar aukafjárveitingar verði ferjaðar yfir Skerjafjörð í óeiginlegri merkingu áður en næsta ári lýkur.