Fjárlög 1992

50. fundur
Fimmtudaginn 12. desember 1991, kl. 15:51:00 (1845)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að svara því orði sem hæstv. félmrh. í sárri reiði sinni og vanmætti varpaði á mig hér í lok ræðu sinnar. Ég veit að hún þekkir það hvernig ég hef unnið að þessum málum og það þekkja líka þúsundir þeirra einstaklinga sem hér um ræðir. Í ræðu minni var ég ekki að halda uppi neinum varnarkerfum, varnarávörpum og varnarhljóðum fyrir sveitarfélögin. Ég var að halda uppi varnarræðu fyrir málefnum fatlaðra. Það er munur á fötluðum og sveitarfélögum. Það er munur á manni og stofnun. Maður hefur tilfinningar. Hæstv. núv. félmrh. lagði til við ríkisstjórnina að þjónustukerfi fatlaðra yrði brotið á bak aftur með því að flytja verkefni upp á 400 millj. kr. frá ríkinu og út úr þessu þjónustukerfi. Hæstv. félmrh. hefur nú ákveðið að bakka. En tillagan var slæm, hún er hættumerki. Hún sýnir að núv. hæstv. félmrh. er því miður á villigötum. Það er því miður nauðsynlegt að vera á vakt gagnvart henni og tillögum hennar þegar kemur að málefnum fatlaðra. Sú vakt verður staðin af okkar hálfu.