Fjárlög 1992

50. fundur
Fimmtudaginn 12. desember 1991, kl. 16:02:00 (1852)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
     Virðulegur forseti. Það var næsta átakanlegt að hlýða á hæstv. félmrh. áðan. Það er alveg ljóst að samviskan er eitthvað farin að rumska hjá hæstv. ráðherra miðað við þær tilfinningar sem komu fram í hennar máli. Mér finnst hins vegar ekki nóg að hæstv. ráðherra komi hér og segi: Ég er að falla frá þeim tillögum sem ég hef gert í málefnum fatlaðra, það eru aðrar tillögur sem eru komnar til skoðunar.
    Ég geri kröfu til þess, virðulegur forseti, að hæstv. ráðherra upplýsi það hér við umræðuna hverjar þær tillögur eru sem nú eru til umræðu. Eigum við að ræða hér um fjárlög við 2. umr. og ráðherrarnir eru á hlaupum frá eigin tillögum án þess að upplýsa þingið um það hvað það er sem þeir eru að leggja til? Ráðherrar sem hafa í raun brotið lög, virðulegur forseti, í sambandi við skyldugt samráð við sveitarfélögin í landinu. En þeir eiga líka skyldur við þingið og þess vegna bið ég hæstv. félmrh. um að koma hér upp í stólinn og upplýsa okkur um í hverju undanhald hans er fólgið frá fyrri tillögum. Hvað það er sem ráðherrann er nú að leggja til til þess að hafa af sveitarfélögunum þann hlut sem leiðréttur var að nokkru með breytingu á verkaskiptingalögunum fyrir nokkrum árum?