Fjárlög 1992

50. fundur
Fimmtudaginn 12. desember 1991, kl. 16:06:00 (1855)

     Guðrún Helgadóttir (um þingsköp) :
     Hæstv. forseti. Þessi umræða er að verða með hreinum eindæmum. Við erum hér í 2. umr. um fjárlög og á morgun er boðaður fundur í sameinaðri fjárln. Að þessu sinni fær stjórnarandstaðan að vera viðstödd. Ég hlýt að beina máli mínu til hæstv. forseta og spyrja hana hvort henni finnist við hæfi að hér sé verið að ræða um að nú sé hætt við ýmsar hugmyndir sem uppi voru um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, en ekki látið uppi hverjar aðrar ráðstafanir séu fram undan eða á borðum hæstv. ríkisstjórnar.
    Ég spyr og bendi um leið á að í dag er 12. des. Samkvæmt nýjum þingskapalögum skal 3. umr. fjárlaga hefjast eigi síðar en 15. des. Það er auðvitað lýðum ljóst að sú

umræða hefst ekkert 15. des. og ég kann engin önnur ráð við því en að nauðsynlegt hljóti að vera að breyta þingskapalögum ef það tekst ekki. Nú kynnu mestu lögfræðingar á hv. Alþingi að kunna einhverjar leiðir, ég fæ ekki séð þær.
    Ég held þess vegna að við, sem höfum verið kjörin til að sitja í fjárln. Alþingis, eigum rétt á því að vita hvað okkur er ætlað að gera næstu daga. Okkur kynni að langa til að vita hvar á að taka það fé sem við eigum að útdeila og mætti auðvitað nefna ótal dæmi um það þar sem allt stangast á, það sem við heyrum í fréttum, það sem við sjáum í brtt. meiri hluta fjárln. o.s.frv. Ég hlýt að biðja hæstv. forseta að upplýsa þingið um hvenær þessu gríni eigi að ljúka svo hægt sé að hefjast handa um að vinna að fjárlagagerð. Það hefur ekkert verið gert hingað til. Það vita allir þeir hv. þm. sem í fjárln. sitja.
    Ég vil einnig spyrja: Hvenær er hugsunin að við ljúkum þingstörfum fyrir jól? Og ef við ljúkum ekki fjárlagagerð fyrir jól, hvenær er þá hugsað að kalla okkur saman eftir jól? Það er ekki hægt að sitja svona í lausu lofti viku eftir viku, slíkt er ekki hægt að bjóða hv. Alþingi. Ég held að það hljóti að vera komið að hæstv. forseta að upplýsa okkur um hvað menn séu að hugsa í hæstv. ríkisstjórn og hv. forsætisnefnd.