Fjárlög 1992

50. fundur
Fimmtudaginn 12. desember 1991, kl. 16:09:00 (1856)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
     Vegna þessara orða hv. 14. þm. Reykv. vill forseti upplýsa um að það hafa verið samráðsfundir daglega og fleiri en einn á dag milli þingflokksformanna og forseta þingsins um þingstörfin, eins og held ég að sé óhætt að segja að venja sé þegar komið er fram á þennan tíma í þingstörfum og nálgast lok áður en jólahlé hefst. Ég held að allir hv. þm. séu meðvitaðir um að það byggist á hvernig okkur gengur að vinna hér að þingstörfum, bæði í nefndum og á þingfundum, hversu hratt málin komast áfram. Öðruvísi getur forseti ekki svarað því. Varðandi það hvernig vinnan fer fram í fjárln. verður forseti að vísa til fjárlaganefndarmanna sjálfra. Væntanlega ræða þeir um þau mál sem snýr að þeirri nefnd sem hv. þm. nefndi hér áðan.