Fjárlög 1992

50. fundur
Fimmtudaginn 12. desember 1991, kl. 16:16:00 (1861)

     Geir H. Haarde (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Ég hef þá trú að í senn muni takast að uppfylla þau ákvæði þingskapalaga, sem hafa verið gerð að umtalsefni, og jafnframt tryggja það að mál nái fram með eðlilegum hætti. Samstarf hefur verið ákaflega gott undanfarna daga í þinginu. Formenn þingflokka hafa hist nánast upp á hvern einasta dag og náð saman um hvernig ætti

að skipa þingstörfunum, undir stjórn forseta þingsins að sjálfsögðu. Stjórnarandstaðan bar fram þá ósk í gær að umræðunum, sem eru í miðjum klíðum, yrði frestað um einn dag þegar ákveðnir aðilar hefðu lokið máli sínu. Um það náðist samkomulag en í staðinn voru tekin fyrir önnur mál í gærkvöldi sem voru síðan greidd atkvæði um í lok fundar. Ég held að það sé allt of snemmt hjá hv. 14. þm. Reykv. að gera því skóna að 3. umr. fjárlaga þurfi ekki að fara fram fyrr en í janúar. Ég tel satt að segja engar líkur á að svo þurfi að fara. Ef allir leggjast á eitt eins og gert hefur verið undanfarin dægur þá sýnist mér að þingstörfunum ætti að geta lokið um eða upp úr miðri næstu viku. En það byggist auðvitað á því að menn taki höndum saman. Vissulega er rétt að uppfylla þarf þetta ákvæði þingskapalaga um að 3. umr. fjárlaga hefjist eigi síðar en á laugardaginn. Það eru til leiðir til að uppfylla það ákvæði en auðvitað þarf að ná um það samkomulagi og ég vonast til að það mál verði rætt á fundinum sem hv. 9. þm. Reykv. minntist á að fram mundi fara síðar í dag.