Fjárlög 1992

50. fundur
Fimmtudaginn 12. desember 1991, kl. 21:49:00 (1867)

     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
     Herra forseti. Hv. 4. þm. Austurl. kenndi meiri hluta fjárln. við naglaskap og að naglaskapurinn kæmi helst fram í því að strika út svokallað náttúruhús. Ég undrast þá áherslu er hv. 4. þm. Austurl. lætur í ljós með því að gera náttúruhús að forgangsverkefni í umhverfismálum. Ég hélt að þessum hv. þm. væri betur kunnugt og betur ljóst en flestum öðrum þingmönnum hversu mikil nauðsyn er á að efla allar náttúrurannsóknir og náttúrustörf úti á landsbyggðinni. En þá vill þessi hv. þm. gera náttúruhús, stórbyggingu upp á 1 milljarð a.m.k. að forgangsverkefni. Það voru 550 millj. þegar hv. þm. var formaður nefndar er undirbjó byggingu þessa húss. Nú er talan orðin 850 millj. í undirbúningskostnað bara fyrir fyrsta áfanga en báðir áfangar eiga að nema 7.000 m 2 . Að þetta sé forgangsverkefnið í umhverfismálum á Íslandi að mati hv. 4. þm. Austurl. kemur mér spánskt fyrir sjónir vegna þess að ég veit að engum er betur kunnugt um ástand mála á umhverfissviði landsins, sérstaklega úti á landi, en honum.
    Hv. 4. þm. Austurl. taldi að meiri hluta fjárln. væri haldinn svartsýni. Ef þetta er ekki svartsýni, að steypa dýrmætum peningum ofan í Vatnsmýrina með slíkum hætti án þess að einu sinni sé búið að undirbúa málið nógu vel til þess að taka endanlega ákvörðun um hvar við ætlum að verja fjármunum til umhverfismála í framtíðinni, þá tel ég að það hefði verið góð tillaga að leggja til að við frestuðum um stund að byggja náttúruhús í Vatnsmýrinni í Reykjavík.