Fjárlög 1992

50. fundur
Fimmtudaginn 12. desember 1991, kl. 21:52:00 (1869)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
     Virðulegi forseti. Það er erfitt að stíga í stól eftir jafnstórkostlega og söguríka ræðu og flutt var af hv. 4. þm. Austurl., afskaplega litrík og mikil ræða og verður allt fremur litlaust fyrst á eftir.
    Fulltrúar Framsfl. í fjárln. hafa gert grein fyrir afstöðu þingflokks Framsfl. til fjárlagafrv. og skilmerkilega greint frá afstöðu framsóknarmanna. En ég get ekki látið hjá líða sem gamall sveitarstjórnarmaður að segja hér fáein orð því sjaldan og trúlega aldrei hefur verið vaðið yfir samninga milli ríkis og sveitarfélaga á jafnóprúttinn hátt eins og tillögur eru um í dag.
    Eins og niðurstöður eftir kvöldfundinn í fjmrn. þann 18. des. sl. bera með sér er greinilegt að þar hafa verið á ferð menn sem Kvöldúlfur hefur verið kominn í, Kvöldúlfur er kominn í kerlinguna mína, eins og stendur einhvers staðar. Sá gagnkvæmi skilningur sem ríkt hefur milli ríkisvalds og sveitarfélaga allt til þessa kvölds kemur gleggst fram í vinnu að bandormsgerðinni svokölluðu en þar hafa sveitarstjórnarmenn samþykkt að færa á milli 200--300 millj. af ríki yfir á sveitarfélögin. Um þetta var fullt samkomulag.
    Virðulegur félmrh., sem trúlega er einhvers staðar í salnum, sagði fyrr í dag að sveitarfélögin hafi grætt mikið við þjóðarsáttarsamningana, allt að 1 milljarði kr., sem er er náttúrlega alrangt. Rétta talan er 385 millj. sem sveitarfélögin högnuðust á þjóðarsáttarsamningunum en í staðinn komu 400 millj. sem sveitarfélögin þurftu að greiða í virðisaukaskatt, umfram gamla söluskattinn.
    Auðvitað eiga ríki og sveitarfélög að vera eins og bræður í Kristi, það er ekki spurning, og leysa sinn vanda sameiginlega því auðvitað er skylt skeggið hökunni. En nú bregður svo við að mikill vill meira. Eftir að hafa komist að samkomulagi við sveitarfélögin, dettur hæstv. ríkisstjórn allt í einu í hug að hún geti tekið meira. Þarna virðir hún verkaskiptalögin að engu og ætlar nú að taka 700 millj. kr. í viðbót við þessar tæplega 300 millj. sem samkomulag varð áður um án alls samráðs og samvinnu við sveitarfélögin. Að vísu dró hæstv. félmrh. verulega í land í ræðu sinni áðan. Ég trúi ekki öðru en hæstv. félmrh., sem er ráðherra sveitarstjórnarmála í landinu, standi upp á eftir og dragi þetta allt til baka. Við bíðum eftir því að hæstv. félmrh. viðurkenni að þessar tillögur gangi einfaldlega ekki upp.

    Hæstv. félmrh. sagði einnig hér í kvöld að framlög til málefna fatlaðra séu ekki skert. Hæstv. ráðherra getur eflaust fært rök fyrir því en ef á að færa málefni fatlaðra, án samkomulags og án þess að fjárhagslegur grunnur sé fyrir sveitarfélögin að taka þessi verkefni að sér, þá er ekki spurning að framlög til málefna fatlaðra eru skert. Auðvitað vilja allir hv. alþm. að fjárlög séu samþykkt með sem minnstum halla en það er ekki sama hvaða brögðum er beitt við það. Ekki er mikill vandi að koma saman fjárlögum sem eru hallalaus eða hallalítil ef skattinum er skellt yfir á sjúklinga, námsmenn, kjarasamningar við sjómenn þverbrotnir og samningar við bændur einnig brotnir. Ef þessi ráð duga ekki, eru tekjustofnar sveitarfélaga skertir um 300 millj. kr. Ef það dugar ekki, eru verkefnin flutt yfir á sveitarfélög. Nú eru tillögur um allt upp í 400 millj. og eru þá undanskildar þessar rúmlega 200 millj. sem samkomulag er um.
    Ég hef oft hugsað um það þessa dagana að ekki væri mikill vandi að vera sveitarstjórnarmaður og gera fjárhagsáætlanir ef við getum bara hent yfir á ríkisvaldið öllu sem út af borðinu stendur og sagt: Við ráðum ekki við þetta, þetta tekur ríkisvaldið og þetta taka atvinnuvegirnir o.s.frv. o.s.frv. En sveitarfélögin búa ekki við það. Þetta er allt gert til þess að bjarga atvinnuvegunum, segir hæstv. ríkisstjórn, og betra væri að satt væri. En það er auðvitað sorglegur misskilningur. Ég trúi því ekki að þeir hv. alþm. sem koma núna glóðvolgir af sveitarstjórnarstólunum ætli að láta þetta yfir sig ganga. Og ég trúi ekki öðru en að þeir mótmæli harðlega og hlusti ekki á tillögur sem útilokað er að framkvæma. Þessum tillögum sem fram hafa verið bornar má líkja við hryðjuverkastarfsemi í garð sveitarfélaganna.
    Ekki eru nema fáeinar vikur síðan sex hæstv. ráðherrar sátu á samráðsfundi með stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga þar sem fullur trúnaður virtist ríkja. Engar af þeim hugmyndum sem kynntar voru eftir kvöldfundinn 8. des. bar þarna á góma. Ekki er heldur langt síðan að tæplega 300 manna ráðstefna sveitarstjórnarmanna var haldin á Sögu. Það var núna 22. nóv. Á ráðstefnunni var fjallað um fjármál sveitarfélaganna. Þrír hæstv. ráðherrar héldu erindi á þessum fundi. Það voru hæstv. félmrh., forsrh. og fjmrh. og ræddu um störf og stefnu ríkisstjórnarinnar. Þeir sátu einnig fyrir svörum og hlýddu á vandamál sveitarfélaganna sem í auknum mæli eru að yfirtaka fyrirtækjarekstur, nauðug viljug, vegna erfiðrar rekstrarfjárstöðu í sjávarútvegi. Sveitarstjórnarmenn kröfðust svara varðandi aðgerðir sem komið gætu atvinnuvegunum á réttan kjöl. Hvað varðar efnahagsaðgerðir almennt fengu þeir engin svör. Engin svör. Þetta voru ráðalausir ráðherrar því miður.
    En nú hefur fundist ráð. Vont ráð að vísu og óframkvæmanlegt sem gerir það að verkum að þær björgunaraðgerðir sem sveitarfélögin hafa verið að vinna gagnvart atvinnuvegunum eru lagðar í rúst. En þessar tillögur lækka fjármagnsþörf ríkisins. Það er mikið rétt. En þær auka fjármagnsþörf sveitarfélaganna, sá er munurinn. Ég sé því ekki hver mismunurinn er ef bjarga á atvinnuvegunum. Ég fæ kannski skýringu á því á eftir. Þetta bætir ekki stöðu atvinnuveganna, nema síður sé. Og ég mótmæli þessum hugmyndum harðlega og vona að hið gagnkvæma traust sem ríkt hefur milli ríkisvalds og sveitarfélaga að undanförnu verði byggt upp að nýju. Það er þjóðhagslega nauðsynlegt að það verði gert hið fyrsta. Og kannski ættum við að gera hlé á þingstörfum eins og margir hv. þm. hér á undan mér hafa gert tillögu um, á meðan hæstv. ríkisstjórn og sveitarfélögin koma sér saman um þessi mál. En ég bið hæstv. félmrh. að draga strax úr þeirri óvissu og þeim óróa sem þessar hugmyndir hafa valdið með því að draga þessar tillögur til baka skýrt og skorinort. Hún hefur ýjað að því en ekki á nógu skýran hátt.
    Fleiru er stefnt í tvísýnu en málefnum sveitarfélaganna. Og það er alvarlegt að það skuli bitna á mjög viðkvæmum málaflokki. Málaflokknum málefni fatlaðra sem nú verður bitbein ríkis og sveitarfélaga. Málefni fatlaðra eru samkvæmt verkaskiptalögunum á hendi ríkisvaldsins en hugmyndirnar snúast um að hluti þessa málaflokks fari nú yfir á sveitarfélögin. Slíkur verkflutningur verður ekki gerður nema fjármagn fylgi með og að undangengnum samningum vegna þess að þetta kemur mjög mismunandi niður á sveitarfélögunum því að mjög er mismunandi hvernig þjónustan er byggð upp í þessum málaflokki og ríkið getur alls ekki vikist undan lögbundnum skyldum sínum með þessum hætti.
    Á undanförnum árum hefur þessi málaflokkur verið að þróast og tekið stakkaskiptum til bóta. Þar hafa margar hendur komið að. Á 15 ára afmæli Þroskahjálpar nú í haust var sú saga rakin að nokkru og litið var til framtíðar. Í þessu afmælishófi flutti hæstv. félmrh. ávarp og talaði af miklum skilningi um mikilvægi málaflokksins. Hæstv. félmrh. var einnig gerður að sérstökum heiðursfélaga Þroskahjálpar fyrir að hafa staðið vörð um málefni fatlaðra. Ég vona að hún geti ævinlega borið heiðursmerkið með heiðri og sóma og láti sér ekki detta í hug að kasta þessu lögboðna verkefni ríkisins á jafnóundirbúinn hátt og nú er gert, með tillögum hæstv. ríkisstjórnar. Ég vona að hún sé með þetta merki í barminum núna og verði áfram. Á sama tíma og verið er að tala um að flytja verkefni til sveitarfélaga í stórum stíl, er líka verið að taka tekjur af sveitarfélögunum. Nú á að taka landsútsvar ÁTVR frá sveitarfélögunum sem nemur um 300 millj. kr. Þetta er einfaldlega of stór biti til að kyngja. Það getur enginn kokgleypt þennan bita. Þó að það sé kannski hægt að kokgleypa hluta bandormsins þá er ekki hægt að kokgleypa þennan bita. Og svo væri gaman að vita hvaða atvinnuvegi hæstv. ríkisstjórn skyldi vera að bjarga með þessum aðgerðum. Það er vandséð. Varla sjávarútveginum sem er verið að leggja stórfellda nýja skatta á.
    Að lokum langar mig að segja eitt orð um þær tillögur að fella niður hluta af sjómannaafslættinum. Ég vil bara minna hv. alþm. á það og sérstaklega ríkisstjórnina að minnkandi afli kemur fyrst og fremst niður á afkomu sjómannastéttarinnar. Nú er alls ekki rétti tíminn til að hrófla við kjarasamningum sjómanna. Því þetta er að sjálfsögðu kjaramál. Og þetta er ekki traustvekjandi upphaf kjarasamninga að ætla að strika burtu samningsbundinn rétt einnar stéttar.
    Þetta verða alvörufjárlög, segir hæstv. forsrh., þetta verða alvörufjárlög. En eins og tillögurnar líta út í dag er þetta versta sprengiefni sem kastað hefur verið út í þjóðfélagið um langan tíma og rýrir enn traust þjóðarinnar á hæstv. ríkisstjórn. Og var nú ekki úr háum söðli að detta. Í lokin langar mig til að beina einni spurningu til hæstv. forsrh., en hann er kannski hvergi nálægt. Hann heyrir kannski þessa spurningu seinna og svarar henni.
    Þar gengur hæstv. forsrh. í salinn. Hann var í sjónvarpsviðtali á Stöð 2 11. des. og þá var hann spurður að því hvort hann hefði látið þessar tillögur sem nú eru uppi yfir sig ganga, ef hann hefði verið borgarstjóri, að láta sveitarfélögin borga þessar 700 millj. kr. Hann var einnig spurður að því hvort hann mundi greiða þessum tillögum atkvæði í borgarstjórn og sagðist hann mundu sitja hjá. Nú spyr ég: Þegar þessar tillögur verða bornar upp í ríkisstjórninni, mun hann líka sitja hjá þar? Ég vona að hann hafi skilið spurningu mína.