Fjárlög 1992

50. fundur
Fimmtudaginn 12. desember 1991, kl. 22:11:00 (1872)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Herra forseti. Rétt er að ég greini frá því strax í upphafi máls míns að eins og fleiri mun ég óska eftir nærveru ákveðinna hæstv. ráðherra, en mér skilst að samið hafi verið um að þeir yrðu yfirleitt viðstaddir. Eru það einkum hæstv. forsrh., fjmrh. og sjútvrh. og í einum og sama manninum hæstv. landbrh. og samgrh.
    Dálítið hefur verið farið með kveðskap hér í dag og vitnað í góðar bókmenntir. Má segja að það hafi nokkuð létt okkur þessa erfiðu umræðu, sem annars er um dapurleg málefni, að miðlað hefur verið lítillega af gullaldarbókmenntum okkar nýjum og jafnvel gömlum. Ég var að velta því fyrir mér þegar ég var á leiðinni upp í ræðustólinn hvaða kveðskap maður ætti nú helst að taka með sér ef maður hefði haft við höndina eitthvað sem væri við hæfi að lesa upp. Það var tvennt sem mér datt í hug að væri kannski viðeigandi. Hið fyrra var að mér var hugsað norður í land til þess gamla og merka sálmaskálds, séra Björns í Laufási, sem orti á síðari hluta síðustu aldar, um aldamót eða svo, mögnuð kvæði fyrir utan þá góðu sálma sem hann nestaði þjóðina með. Í einu kvæða Björns a.m.k. eru nokkuð magnaðar skammdegishendingar og það er hald manna að það hafi legið illa á gamla manninum þegar hann setti þetta saman eða eitthvað hafi orðið til að angra hann. Ef ég hefði við höndina kveðskap hans hefði verið við hæfi að lesa hann yfir mönnum en ef ég man rétt, þá koma þar m.a. fyrir hendingar eins og: ,,Dags lít ég deyjandi roða`` og ,,kvíðirðu komanda degi koldimma nótt eins og ég``. Það hefur greinilega verið beygur í þeim gamla við nóttina sem fram undan var þegar þetta var kveðið. Það er svo með fleiri þessa dagana að í þeim er beygur við það sem fram undan er og ættu þó aðstæður ekki að vera jafnþungbærar mönnum nú til dags á Íslandi eins og þær voru þegar séra Björn í Laufási var að yrkja sín kvæði.
    Hitt sem mér datt í hug að gæti verið tilefni til að fara með væru einhverjar af gömlu öfugmælavísunum. Nú veit ég ekki hvort menn kunna mikið nú orðið af öfugmælavísum. Þær voru að mörgu leyti merkur kveðskapur og menn fengu kannski útrás í fáránleikanum og það lyfti mönnum yfir erfiðar raunir hversdagsins á sinni tíð. Aðrar voru græskulausari eins og þessi:
           Fiskurinn hefur fögur hljóð,
           finnst hann oft á heiðum.
           Ærnar renna eina slóð
           eftir sjónum breiðum.
    Þarna var auðvitað fáránleikanum raðað saman í hendingar og því duttu mér í hug öfugmælavísurnar að margt er í öfugmælavísnastíl hjá hæstv. ríkisstjórn þessa dagana. Satt að segja er flest af því sem hæstv. ríkisstjórn er að leggja til öfugmæli við þau ummæli og þær yfirlýsingar og þau fögru orð sem hæstv. ráðherrar hafa um þessa sömu hluti. Það er að leggja fram hlutina í öfugmælahætti. Fullyrt er t.d. af hæstv. ráðherrum, hverjum á fætur öðrum, að það sem þeir eru að gera sé af sérstakri elskusemi við velferðarkerfið í landinu, til þess gert að treysta stoðir velferðarkerfisins eins og hér hefur verið sagt af fleiri en einum og fleiri en tveimur hæstv. ráðherrum. Það eru öfugmælavísur sem þannig eru kveðnar. Órímaðar og ekki stuðlaðar og ekki í hendingum því að til þess brestur auðvitað hæstv. ríkisstjórn kunnáttu eins og til fleiri hluta.
    Herra forseti. Ég ætlaði að eiga orðastað við þá hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. hvað varðar form og efni þeirra hluta sem við erum að ræða um við 2. umr. fjárlaga. Ég verð að segja alveg eins og fleiri hafa reyndar gert á undan mér í þessari umræðu og eru þó vaxandi tilefni til, að það er á engan hátt boðlegt hvernig hæstv. ríkisstjórn hyggst leggja sín mál fyrir þingið. Á ég þá ekki aðeins við ríkisfjármálin heldur og efnahagsmálin almennt eins og þau eru á Alþingi um þessar mundir. Á þessum dögum er það auðvitað á engan hátt brúklegt. Hér eru í tætlum, út og suður, í mörgum þingmálum, víðtækar ráðstafanir af ýmsu tagi. Í fleiri en einu og fleiri en tveimur frumvörpum hæstv. ríkisstjórnar eru þessir hlutir á tvist og bast. Það liggur ekkert heildstætt plagg fyrir, engin úttekt á þessum hlutum í heild sinni. Það er ekkert eitt nefndarálit eða ein greinargerð eða eitt skjal til um ráðstafanir hæstv. ríkisstjórnar. Fyrir liggur fjárlagafrv. með mörgum óútfylltum víxlum. Síðan kom inn bandormur sem er að mestu leyti fskj. við greinargerð fjárlagafrv. og á að nokkru leyti að stoppa upp í götin sem þar eru. Síðan er hér nýkomið inn frv. til laga um tekjuskatt og eignarskatt. Þar er hluti af pakkanum á ferðinni. Í fjórða lagi er eitthvað af viðbótinni væntanlegt í brtt. við fjárlagafrv. í 3. umr. Og í fimmta og sjötta lagi eru fleiri hlutir væntanlegir í fylgifrumvörpum og einstökum frumvörpum. Mér skilst meira að segja að einhvern tíma eigi að leggja fyrir nýtt frv. til laga um eyðingu refa og minka. Það er fskj. með fjárlagafrv. því að það á að breyta útgjöldum ríkissjóðs á næsta ári. ( ÓÞÞ: Það er búið að flytja ræðuna.) Það er búið að flytja ræðuna, framsöguræðuna. Það er sennilega vinnuhagræðing hjá hæstv. forsrh. að flytja framsöguræðuna nokkrum vikum á undan frv.
    Einhvern tíma seinna í vetur er væntanlegt frv. til laga um Lánasjóð ísl. námsmanna ef stjórnarflokkarnir geta komið sér saman um það. Það er frv. númer sex eða sjö. Margt fleira í þessum dúr gæti ég talið upp. Það er alveg ljóst að efnahags- og ríkisfjármálastefna hæstv. ríkisstjórnar er á þessum sólarhringum ekki til í einu heildstæðu plaggi. Hún er á rúi og stúi tvist og bast innan þings og utan í hinum og þessum málum. Og hvernig í ósköpunum eiga menn þá að henda reiður á því sem þar er á ferðinni? Ég þykist hafa reynt að vinna þessa hluti sæmilega undanfarna sólarhringa eftir því sem ég hef haft aðstæður til, þekkingu og tíma, m.a. með veru minni í efh.- og viðskn. og ég verð að játa að það vantar talsvert upp á að ég hafi náð að gera mér þá heildarmynd af þeim hlutum sem eru á ferðinni, eru sagðir eiga að vera á ferðinni eða koma á næstunni að ég treysti mér til að horfa heildstætt yfir það. Og ég leyfi mér þá að fullyrða að ýmsir aðrir hv. þm., með fullri virðingu fyrir þeim, sem ekki hafa haft sömu aðstöðu og við, t.d. nefndarmenn í efh.- og viðskn. og nefndarmenn í fjárln., eigi enn þá erfiðara með að átta sig á þeirri mynd sem hér á að heita á ferðinni eða raða á saman.
    Ég gagnrýni það og ég mótmæli því, og mótmæli því sérstaklega að hæstv. forsrh. skuli ekki hafa sig hér inn í þingsalinn, að Alþingi sé boðið upp á að vinna við þessar aðstæður. Hvers vegna er t.d. ekki reynt að stilla upp þó ekki væri nema einu skema þar sem menn sjá allar þessar ráðstafanir fyrir sér? Ég tel líka ámælisvert að málefni einstakra greina skuli ekki hafa verið tekin saman. Ég tel t.d. að útkoma sveitarfélaganna sem slíkra hefði átt að liggja fyrir núna í einu heildstæðu plaggi þannig að menn sæju það sem í boði er fyrir sveitarfélögin í landinu í allri þessari súpu sem ýmist er komin hér inn í þingið eða er væntanleg.

    Ég tók mig til í gærmorgun á fundi sjútvn. og reyndi að átta mig á því hvað er hér í vændum fyrir sjávarútveginn og sjómenn í landinu. Ég tók saman á blað eftir minni eina níu töluliði sem allir hafa áhrif á hag sjávarútvegsins á næsta ári. Og það kom meira að segja sjálfum mér verulega á óvart hvað þar var á ferðinni. Þegar hæstv. sjútvrh. verður mættur til leiks sem ég, vel að merkja, virðulegur forseti, er að óska eftir að komi hér í húsið eða í salinn . . . ( Forseti: Ég vil upplýsa hv. þm. um það að hæstv. sjútvrh. er víst alveg rétt ókominn.) Mikið gleður það okkur, virðulegur forseti, að hæstv. sjútvrh. skuli vera á leiðinni, þ.e. ekki að hann skuli vera ókominn heldur að hann skuli vera væntanlegur. Ég ætla að ljúka því af sem ég var að ræða og tel eðlilegt að beina til hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. Ég hef að vísu aldrei fengið nein svör við því sem ég bar upp fyrr á þinginu, hvort hæstv. forsrh. gegni sama hlutverki í þessari ríkisstjórn og forsætisráðherrar hafa gert í þeim sem ég hef þekkt til, unnið með eða verið í eða á móti undanfarin ár, þ.e. hvort hæstv. forsrh. landsins, hv. þm. Davíð Oddsson og hæstv. núv. forsrh., líti á sig sem samnefnara efnahagsmála í þessari ríkisstjórn eða ekki. Hann ætlar ekki að ráða efnahagsráðunaut heldur hermálasérfræðing, var upplýst fyrr í vetur og fleiri vísbendingar hafa bent til þess að forsrh. líti ekki sömu augum og forverar hans hafa gert á hlutverk sitt sem samnefnara efnahagsmála og efnahagsstefnu í landinu. Hins vegar er auðvitað erfitt að eiga orðastað við fjarstaddan manninn og væri mikið þénugra ef hæstv. forsrh. vildi gera svo vel að vera hér í salnum. (Gripið fram í.) Nei. Herra forseti. Þetta er auðvitað þannig að við erum að reyna að ræða þessi mál, efnahagsmál og ríkisfjármál, fullkomlega í lausu lofti. Það er ámælisvert að svo skuli að hlutunum staðið.
    Ég spyr hæstv. fjmrh. að því eða hæstv. forsrh. ef hann vill t.d. sem ábyrgðaraðili bandormsins svara: Hvers vegna tók ekki hæstv. ríkisstjórn þann kost sem hefði verið þinglega eðlilegastur, að taka ekki á dagskrá gamla bandorminn um ráðstafanir í ríkisfjármálum, að flytja ekki við 2. umr. fjárlaga hluta af næturfundarákvörðunum sínum, heldur safna þessu saman í nýtt mál, eitt nýtt mál, sem hefði annars vegar birst sem nýtt frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum og hins vegar sem heildstæðar brtt. og þess vegna með greinargerð við fjárlagafrv. Þá hefðu þingmenn haft í höndunum þingskjal eða þingskjöl þar sem heildaryfirlit hefði fengist yfir þá súpu sem hér er á ferðinni.
    Ég ítreka mótmæli mín við þessum vinnubrögðum og átel þau og gagnrýni harðlega að svona skuli að hlutunum staðið. Og auðvitað er það þannig, virðulegur forseti, að vinnubrögðin síðustu sólarhringana hafa verið með þeim ósköpum og endemum að það er sama hvar borið er niður, hvort þetta er rætt frá sjónarhóli okkar alþingismanna eða þolendanna úti í þjóðfélaginu, þau eru öll með endemum og ósköpum. Ég varð var við að hæstv. fjmrh. var í fjölmiðlum um daginn spurður: Var haft samráð við þessa eða hina? Var haft samráð við sveitarfélögin? Og hverju svaraði hæstv. fjmrh. spurningu sem borin var fram vegna þess að velta átti yfir á sveitarfélögin mörg hundruð millj. kr., hátt í milljarði kr., að þeim forspurðum? Hæstv. fjmrh. sagði: Nei, það var að sjálfsögðu enginn tími til að ræða við sveitarfélögin á þessum næturfundi. Hins vegar var hann nógu góður til þess, næturfundurinn, að taka svona ákvörðun. Hvers konar vinnubrögð eru þetta, hæstv. forsrh., staddur í hliðarsal? Svona vinna menn ekki að hlutunum. Hefur hæstv. ríkisstjórn ekki áttað sig á því, og er þó oddviti hennar fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík, að sveitarfélögin í landinu eru sjálfstætt stjórnsýslustig, kjörið af fólkinu í landinu í hinum einstöku sveitarfélögum? Hvers konar framkoma er þetta af hálfu ríkisvaldsins við þetta stjórnsýslustig, sveitarfélögin, sem þarna birtist mönnum? Svona er ekki hægt að fara að hlutunum.
    Ég sé ástæðu til að fordæma þessi vinnubrögð alveg sérstakega sem virðingarleysi við sveitarfélögin sem sjálfstætt stjórnsýslustig í landinu og auðvitað virðingarleysi við það fólk sem kýs sveitarstjórnarmenn sem sína forsvarsmenn í þessum málaflokki. Þarna hafa átt sér

stað ámælisverðir hlutir og er ég þá ekki enn farinn að ræða innihaldið í þessum næturákvörðunum sem eðlilega og skiljanlega voru teknar í skjóli myrkurs. Það var mjög vel við hæfi að þessar ákvarðanir, eða tillögur sem voru afgreiddar þarna um málefni fatlaðra og fleiri slíka hluti, væru teknar að næturlagi í skjóli myrkurs, nánast í svartasta skammdeginu. Það var ekki einu sinni snjór á jörð þannig að enn dekkra var yfir og fór vel á því.
    Aðrir þingmenn og ræðumenn hafa fyrr í umræðunni tekið svo vel fyrir og rætt málefni sveitarfélaganna og útkomu þeirra í þessum efnum að ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um það og vísa til þess sem ég hef sagt þar, fyrst og fremst um framkomuna við þau. Eðlilega og skiljanlega hefur þessi framkoma vakið mjög hörð viðbrögð og mikil mótmæli, reiðiöldu og mótmælabylgju sem nú skellur á hæstv. ríkisstjórn, og síðan kemur í ljós á næstu dögum hvernig hæstv. ríkisstjórn bregst þar við. Þó er alveg ljóst að ef eitthvað er eru þær tölur sem enn hafa komið fram í dagsljósið og varða þá íþyngingu sem sveitarfélögin yrðu fyrir af þessum ráðstöfunum öllum, næðu þær fram að ganga, vanmetnar, að mínu mati, vegna þess að það vantar inn í útkomu sveitarfélaganna í dæminu þau óbeinu áhrif af ýmsum toga sem hlytu að enda hjá sveitarfélögunum ef illa fer í þessum efnum. Ég spyr t.d. hv. alþingismenn: Hvar lendir þrýstingurinn, þegar farið verður að skera niður launakostnaðinn í grunnskólunum, segja upp kennurum og fækka kennslustundum eða reka saman nemendur í bekki, annars staðar en á sveitarfélögunum? Ég spyr: Hvar lendir framfærslan, ef illa tekst til, þegar réttur aðila til atvinnuleysisbóta eða launa vegna gjaldþrota verður skertur og minnkaður? Hverjir sitja uppi með framfærsluna ef illa tekst til? Sveitarfélögin. Og svona mætti áfram telja. Það er alveg ljóst að til viðbótar þeim tölum upp á 700--1.000 millj. kr., sem auðvelt er að sýna fram á að verið er að velta yfir á sveitarfélögin, geta lagst óbein áhrif af ýmsum toga sem sveitarfélögin sitja óhjákvæmilega uppi með. Það eru auðvitað mjög alvarlegir hlutir svo ekki sé nú meira sagt.
    Úr því að hæstv. sjútvrh. er enn á leið til fundar en hæstv. landbrh. og --- nei, sé ég að hæstv. sjútvrh. er einnig mættur. Held ég mig því við þá upphaflegu röð sem ég ætlaði að hafa á hlutunum og ræði lítillega um sjávarútvegsmálin við hæstv. sjútvrh. Ég vænti þess, herra forseti, að skilaboð mín til hæstv. forsrh. og fjmrh. varðandi vinnubrögðin í þessum málum hafi komist til skila og ég vænti þess að þeir svari til um það hvers konar vinnulag þetta er hjá hæstv. ríkisstjórn og hvort við alþingismenn megum vænta þess á næstu dögum að þar verði úr bætt. Mín einfalda spurning --- af því að ég hef lært það af samskiptum við hæstv. forsrh. að spurningar sem upp eru bornar við hann þurfa að vera alveg sérlega einfaldar til þess að hæstv. forsrh. nái þeim og leggi í að reyna að svara þeim. Þess vegna ber ég fram eina og alveg sérlega einfalda spurningu við hæstv. forsrh. Verður tekið saman, búið út og lagt fyrir þingmenn á allra næstu dögum --- mér liggur við að segja klukkutímum en þá sólarhringum, ef þess þarf --- eitt heildstætt skjal, ein greinargerð um heildaráhrifin af ráðstöfunum í fjárlögunum, í bandorminum, ákvörðunum næturfundarins og ákvæðum sérlaga sem ýmist eru komin eða eiga að koma inn í þingið og tengjast þessum ráðstöfunum, þannig að fyrir liggi á einum stað, í samantekt, töflum og greinargerð með rökstuðningi, heildaryfirlit yfir þennan hrærigraut allan saman, þessa naglasúpu hæstv. ríkisstjórnar? Þetta er spurningin.
    Herra forseti. Ég hef fengið upp í hendurnar nýtt gagn frá Sambandi ísl. sveitarfélaga sem sýnir fram á það með tölum, sem ég réttilega var að segja, að þær upphæðir sem áður höfðu verið nefndar um áhrif þessara breytinga á sveitarfélögin, 700--1.000 millj. kr., eru greinilega of lágar. Hið minnsta er hér á ferðinni 1,1 milljarður kr. í beinum áhrifum því að sjálfum láðist mér að taka inn í reikningana skattlagningu, t.d. á Lánasjóð sveitarfélaga, sem að sjálfsögðu mun íþyngja þeirri stofnun, og fleiri hlutir voru þarna vanmetnir.

    Hæstv. sjútvrh. Sömuleiðis er ekki annað hægt en að gagnrýna það eða harma að enn skuli ekki hafa orðið til einhver heildarúttekt á því hvað sjávarútvegurinn á í vændum í gegnum fjárlög og aðrar ráðstafanir hæstv. ríkisstjórnar. Reyndar var það svo að á fundi sjútvn. í gærmorgun var samþykkt tillaga mín um það að sjútvn. skrifaði, ef ég man rétt, eða kæmi þeim formlegu skilaboðum einhvern veginn á framfæri við fjmrn. að sjútvn. Alþingis óski eftir því að fá slíka heildarúttekt gerða á málefnum sjávarútvegsins í tengslum við afgreiðslu fjárlaga og allar þessar ráðstafanir og ákvarðanir. Þess vegna gef ég mér það að þegar sé í gangi vinna að þessari úttekt á málefnum sjávarútvegsins eins og þau leggjast í þessu sambandi. Ég hef þó verið að dunda mér við það undanfarinn sólarhring að líta aðeins á þetta sjálfur eftir því sem ég hef haft tíma til og hv. 8. þm. Reykn. gerði lítilega grein fyrir þessum sömu hlutum í ræðu fyrr í dag. Það er alveg ljóst og auðvelt að rekja þær upplýsingar að sjávarútvegurinn á í vændum á næsta ári í formi íþyngjandi aðgerða, sjávarútvegurinn og sjómenn sameiginlega, á annan milljarð kr. í þessum ráðstöfunum öllum þegar þær eru lagðar saman þar sem sjávarútveginum verður á árinu 1992 íþyngt umfram það sem er á þessu ári. Ég ætla að renna lítillega yfir þessa hluti mönnum til upplýsinga og eins og til að undirbúa menn undir þá greinargerð sem sjútvn. Alþingis mun fá á næstu klukkutímum eða sólarhringum og mun að sjálfsögðu dreifa til hv. alþingismanna.
    Hæst ber að sjálfsögðu þá fénýtingu veiðiheimilda Hagræðingarsjóðs sem boðuð er í frv. hæstv. sjútvrh. og liggur fyrir í þinginu. Þar er boðað að selja eigi 12 þús. tonna veiðiheimildir Hagræðingarsjóðs á kvótaárinu 1992--1993 á fullu markaðsverði og reiknað er með að það verði 45 kr. á kg. Þessir fjármunir eiga að renna allir til að kosta rekstur opinberrar stofnunar sem ríkissjóður hefur áður fjármagnað. Og 45 sinnum 12.000 gera 525 millj. kr. sem sjávarútvegurinn á að borga fyrir að fá þessar veiðiheimildir á kvótaárinu 1992--1993.
    Á næsta ári á í öðru lagi að tvöfalda veiðieftirlitsgjaldið og mun þá sjávarútvegurinn einn standa að fullu undir veiðieftirlitinu. Kostnaður verður yfir 80 millj. kr. af starfrækslu veiðieftirlitsins á næsta ári og þar með bætast yfir 40 millj. kr. við hjá sjávarútveginum í þessum lið.
    Í þriðja lagi á að afnema sjómannafrádrátt sem nemur líklega 350--400 millj. kr. Í tillögum ríkisstjórnarinnar er talað um 180 eða 200 millj. en reikningsglöggir menn sjá á augabragði að það er vanáætlun á áhrifum þess að gera þá breytingu að einungis úthaldsdagar sjómanna fáist metnir til sjómannafrádráttar. Menn þekkja þá ekki mikið til útgerðarhátta í landinu ef þeir láta sér detta í hug að áhrifin á þennan frádrátt sem er ígildi um 1.500 millj. kr. í verðmæti fyrir sjómenn verði ekki meiri en þetta. Eða vita menn ekki að fjöldinn allur af sjómönnum, og gjarnan á tekjuhærri skipum, er ekki nema rétt rúmlega hálft árið úti á sjó? Og þess vegna mundi þeirra frádráttur skerðast í mörgum tilvikum um tvo fimmtu eða allt að helmingi. Það þarf ekki flóknar reglur til þess að sjá að auðvitað er þarna um herfilegt vanmat að ræða. Þar með erum við komin með við skulum segja 350 millj. kr. í þessum lið til að vera nú ekki að ofáætla það og fara þarna mitt á milli ríkisstjórnarinnar og þess mats sem sjómenn sjálfir og Sjómannasambandið hefur lagt á þessa hluti.
    Það er ljóst að ef af áformum um að ríkissjóður kippi að sér hendinni gagnvart greiðslum ábyrgðar á launum í gjaldþrotum verður hlýtur talsverður hluti þeirra greiðslna að lenda á sjávarútveginum eða sjómönnum og má einu gilda. Til að fara vægt í sakirnar met ég svo að það gætu orðið 50 millj kr., af þeim á milli 400 og 500 sem yrðu að koma inn í ábyrgðasjóðinn nýja í formi iðgjalda frá atvinnugreinunum eða launamönnum.
    Það er ljóst að á næstu árum verður auðvitað að hækka iðgjaldið í Hagræðingarsjóð eigi

hann að hafa bolmagn til þess að úrelda skip eftir að búið er að gelda hann og taka af honum tekjurnar, hæstv. sjútvrh. Það er spurning, herra forseti, hvort það væri hægt að gera sjútvrh. aðvart um að ég er að ræða hérna málefni sjávarútvegsins. ( Gripið fram í: Hann heyrir það.) Og þó að það sé þunn hljóðhimnan í hæstv. sjútvrh. þá kann ég því betur að manni sé sýnd sú lágmarksviðleitni að gera það ekki of áberandi að hæstv. ráðherrar hafi engan áhuga á því sem verið er að tala um. Það eru ágætlega mjúkir stólarnir hérna sem voru meira að segja fluttir sérstaklega til í þingsölum fyrir þessa hæstv. ríkisstjórn svo að þeir kæmust hérna upp að veggnum og ég sé ekkert að því að þeir séu notaðir af og til.
    Ég met það svo að augljóslega gerist annað tveggja á næstu 2--3 árum, það verði að hækka iðgjaldið sem sjávarútvegurinn greiðir í Hagræðingarsjóð til þess að hann geti sinnt sínum verkefnum og fjármagnað úreldingu skipa eða að ekkert verði af þeirri hagræðingu. Í frv. hæstv. sjútvrh. er boðað að hækka greiðslur sjóðsins úr 10% af húftryggingarmati skipanna í 30%. Iðgjaldatekjur Hagræðingarsjóðs eru á ári 80 millj. kr. Hvað úrelda menn marga togara ef þeir eiga að borga 30% af tryggingaverðmæti þeirra með 80 millj. í höndunum? Hvað eru þeir margir á ári, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, sem ert fljótur að reikna? Það eru ekki margir togarar, 1 1 / 2 --2 eða eitthvað svoleiðis. Er það þá öll ósköpin sem þessi sjóður á að afreka? Nei, auðvitað rekur að því ef tekjurnar verða teknar af Hagræðingarsjóði að menn standa frammi fyrir öðru tveggja, hækka iðgjöldin í hann eða hann veldur ekki sínu verkefni. Ég ætla ekki að slá máli á þetta og ég set þess vegna núll á næsta ári í þetta því auðvitað geta menn byrjað á því að brenna upp eigið fé sjóðsins og það er væntanlega það sem hæstv. ríkisstjórn hyggst gera þá á næsta ári en sjóðurinn úreldir aldrei mörg skip á ári fyrir 80 millj. kr. iðgjaldatekjur. Og þess vegna segi ég: Líklega eru þarna í vændum auknar álögur á sjávarútveginn.
    Í sjötta lagi nefni ég að augljóst er að á sjávarútveginum og þá á útgerðinni, skulum við segja, lendir hið nýja álag á aflagjald sem á ásamt vörugjöldum að afla Hafnamálastofnun 125 millj kr. tekna á næsta ári. Ef ég man þessa hluti rétt er aflatryggingagjaldið fast að helmingur af tekjustofnum hafnanna í landinu og þess vegna eru þar líklega um 65 millj. kr. á ferðinni sem sjávarútvegurinn aftur og enn á að borga í viðbót við nýja skatta á næsta ári. 65 millj. þar. Þá er ég kominn upp í milljarð og reyndar rúmlega það, 1.030 millj. kr., hvorki meira né minna, hæstv. forsrh. og hæstv. sjútvrh. og allir hæstv. ráðherrar sem hér heiðra okkur með nærveru sinni. Þá hef ég ekki reiknað inn í dæmið enn þá, eins og ég sé að Samband ísl. sveitarfélaga gerir gagnvart útkomunni hjá sér, þá nýju skatta sem fjárfestingarlánasjóður sjávarútvegsins verður að sjálfsögðu að greiða eins og aðrir. Einhverjar milljónir þar. Þó það væri ekki nema svona eins og helmingurinn af því sem Lánasjóður sveitarfélaga á að greiða væru það 75 millj. kr. Þá er ég kominn yfir 1.100 millj. Þá er ég ekki farinn að skoða hvort aukin þjónustugjöld og auknar sértekjur aðila, sem boðaðar eru í fjárlagafrv. og sjávarútvegurinn eins og aðrir þarf að eiga viðskipti við í vissum tilvikum, hækkar þetta enn. En ef ég man rétt þá er einnig gert ráð fyrir því að aukinna sértekna verði aflað í vissum tilvikum hjá aðilum sem sjávarútvegurinn þarf að eiga viðskipti við. Og síðan er margt, margt fleira sem mér hefur ekki unnist tími til í hreinskilni sagt, herra forseti, að skoða ofan í kjölinn af því að ég hef verið dálítið upptekinn eins og fleiri undanfarna sólarhringa, en ef enginn verður til þess þá skal ég með glöðu geði leggja í það vinnu á næsta sólarhring að fullkomna þessa úttekt. Og ég bið menn þá að rengja hana og gera það með rökum ef þeir telja að ég sé að fara með eitthvert fleipur. Ég tel svo ekki vera. Í nokkrum tilvikum tek ég það fram að ég hef gert lauslega áætlun þar sem mjög erfitt er að meta hlut sjávarútvegsins eða sjómanna í einstökum liðum sem þarna eru á ferðinni. Húskarlar í fjmrn. gætu að sjálfsögðu gert þetta

betur með t.d. aðstoð sérfræðinga á Þjóðhagsstofnun. En ég sem sagt fullyrði, herra forseti, og ég hef rökstutt það hér að hæstv. ríkisstjórn er að leggja á sjávarútveginn á annan milljarð kr. í nýjum álögum á næsta ári. Þessi súpa samanlögð þýðir það, hæstv. sjútvrh., og ég bið menn þá að koma og sýna fram á að ég hafi farið hér eitthvað skakkt með. Og fer nú að verða lítið úr þeim ráðstöfunum sem hæstv. sjútvrh. hefur tekist að nudda í gegnum ríkisstjórnina þá sjaldan hann hefur fengið sín mál tekin fyrir, þá sjaldan þau fást tekin á dagskrá þar, vegna þess að við vitum að þær duga ekki einu sinni til þess að vega upp á móti aflasamdrætti og taprekstri sem þegar er í gangi. Þó að hæstv. forsrh. hafi dottið ofan á það snjallráð að samþykkja tillögu sjútvrh. um að nota sukksjóðina og lengingu lána í þeim til þess að bjarga sjávarútveginum, --- það sem mest hann varast vann, varð þó að koma yfir hann, --- að nota stjórntæki gömlu ríkisstjórnarinnar til aðstoðar sjávarútveginum þá er það því miður þannig að þær ráðstafanir duga ekki einu sinni til þess að jafna áhrifin af aflasamdrættinum og því rekstrartapi sem þegar er fyrir.
    Til viðbótar þessu er afurðaverðið farið að lækka, því miður, og blokkirnar lækkuðu fyrir vestan núna fyrir nokkrum dögum síðan. Og því miður eru líka alvarlegar fréttir af fleiri mörkuðum. Dollarinn kominn niður í ekki neitt, 57 kr., og allt leggst þar því miður á sömu sveif eða flest og hef ég þá ekki nefnt þær einstöku ógæftir og aflaleysi sem hefur hrjáð menn alveg frá sl. hausti. Og er það þá einhver furða þó að það sé þungt í sjómönnum og útvegsmönnum við þær kveðjur sem þeir fá núna frá hæstv. ríkisstjórn? Ég verð nú að segja að ég hef gengið þessa möl í pólitík á Íslandi bráðum í fimmtán ár og þar af hartnær níu hér á Alþingi og ég hef aldrei heyrt önnur eins hljóð í forsvarsmönnum atvinnulífsins og þessa dagana. Og ég efast um að nokkurn tíma hafi borist fleiri símtöl eða fleiri skeyti til ríkisstjórnar og inn á þing heldur en einmitt núna frá bálreiðum sjómönnum og útvegsmönnum og það er skiljanlegt.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín um sjávarútveginn fleiri. Það gefast fleiri tækifæri til að ræða þá hluti ítarlegar þegar þau mál koma á dagskrá sem lúta að sjávarútveginum beint, en ég ætla að vekja athygli hv. alþm. á einu litlu þingskjali sem hér er komið inn á þingið. Það er 205. mál á þskj. 236. Ég ætla að vekja sérstaka athygli manna á greinargerðinni með þessu frv. Þetta er frv. til laga um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Þar er hvorki meira né minna en hátt í fjögurra blaðsíðna ritgerð um sjómannafrádráttinn. Ég hvet hv. alþm. til að grafa upp skjalið og líta í það, þessa kostulegu ritsmíð og ég spyr hæstv. --- Herra forseti, þetta er fullkomlega óþolandi, að vera að reyna að eiga orðastað við hæstv. sjútvrh. og hann er stanslaust á fundum hér í hliðarherbergi við aðra ráðherra eða þingmenn og maður sér ekki einu sinni framan í hann, jafnmikil ánægja og er nú jafnan af því. Ég fer fram á það að menn tolli hér inni í salnum til að hlýða á umræður. Það þótti lágmarkskurteisi þegar ég var ráðherra og ég vænti þess að svo sé enn.
    Ég ætla að spyrja hæstv. sjútvrh. að því hvort hann sé höfundur að ritgerðinni sem birtist í greinargerðinni með frv. til laga um tekjuskatt og eignarskatt um sjómannafrádráttinn. Hann ber að sjálfsögðu, hæstv. ráðherrann, fulla höfundarábyrgð á þessu ritverki því að hann leggur málið fram og ráðherra á að sjálfsögðu ekki að láta annað frá sér fara í sínum þingmálum en það sem hann tekur ábyrgð á. Það er að vísu ekki rétt að hann leggi málið fram en hann er fagráðherra þessa málaflokks og sú var verkaskiptingarregla í þeirri ríkisstjórn ég sat í að hlutir af þessu tagi voru jafnan bornir undir þá ráðherra sem þeir tilheyrðu. A.m.k. var það þannig til að mynda um einstaka málaflokka fjárlagafrv. að fagráðherrar höfðu aðstöðu til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri varðandi þann texta sem vék að þeirra málum.
    Þessi ritgerð er að mörgu leyti svo kostuleg að það er fullkomin ástæða til þess að vekja athygli á henni. Ég ætla ekki að lesa hana hér, ég ætla ekki að taka tímann í það en ég

hef undirstrikað margt gullkornið í henni og ég bendi mönnum alveg eindregið á þessa snilld. (Gripið fram í: Á hvaða blaðsíðu er þetta?) Þetta er á bls. 10, 11 og 12. Og hér eru auðvitað svo kostulegir hlutir sagðir um þennan rétt sjómanna að engu tali tekur auðvitað. ( Gripið fram í: Láttu okkur heyra.) Ja, ég veit ekki hvar ég ætti á að bera niður því að þetta er allt saman slík gersemi að það þarf helst að lesa það frá orði til orðs. ( Gripið fram í: Eitt gullkornið.) Ja, það á reyna það úr því að eindregnar óskir koma fram um það. T.d. segir hér á bls. 11:
    ,,Hins vegar og e.t.v. enn mikilvægara er`` --- en áður var greint frá því að forsendur væru ekki lengur fyrir hendi til þess að halda í þennan frádrátt --- ,,að hér er um að ræða óeðlileg afskipti ríkisins af gerð kjarasamninga, sem leiðir til óhagræðis í atvinnulífinu og mismunar launþegum jafnt sem fyrirtækjum.`` Það er ekkert meira eða minna en það. Óeðlileg afskipti af kjarasamningum, mismuna launþegum og fyrirtækjum. Þetta er meiri svívirðan. Hér er ekki verið að segja neitt litla hluti um þetta óbermi, þennan sjómannafrádrátt.
    Svo segir: ,,Þá er þess að geta að framkvæmd þessara skattaívilnana eru og hafa í vaxandi mæli verið rýmri en lagabókstafurinn segir til um. Sú þróun er dæmigerð fyrir flest undanþágukerfi þar sem reynslan er að ein undanþágan elur af sér aðra. Er það í sjálfu sér rökrétt þar sem undanþágur eru í eðli sínu mismunun og leiða til viðvarandi togstreitu um það hvar eigi að draga línuna á milli þeirra sem eru jafnari en aðrir og hinna.`` Þarna er það komið, þetta gamla góða orðalag ,,sem eru jafnari en aðrir``. Við vitum hver er höfundurinn að þessu. ,,Það er einnig athyglisvert að í því reiptogi er varpað fyrir róða þeim forsendum og rökum sem í upphafi voru notuð fyrir undanþágurnar. Sýnir það vel takmarkað gildi þessara forsendna og það að hagsmunaaðilarnir meta þær ekki mikils, enda er í reynd einfaldlega um það að ræða að andstæðar fylkingar hagsmunaaðila sameinast í sókn á hendur þriðja aðila og tekst að velta yfir á hann kostnaðinum af ávinningi sínum. Kemur það í þessu tilviki að sjálfsögðu fram í því að þriðji aðilinn, þ.e. skattborgarar, greiðir hærri skatta en ella væri.`` Þvílík svívirða allt saman. Ég tel ástæðu til að endurskoða tilnefningar Íslands til helstu rithöfundavegsemda á erlendum vettvangi á næsta ári í ljósi þessa texta sem hér er fram kominn.
    Síðan segir: ,,Sjómannaafsláttinn ætti fremur að skoða sem niðurgreiðslu á útgerðarkostnaði en sem ívilnun til sjómanna``, það er fín setning. Enn fremur segir: ,,Því má reikna með að niðurfelling sjómannaafsláttar muni auka launakostnað útgerðar nokkuð. Ástand á vinnumarkaði sjómennsku og almennt bendir þó til að sú hækkun kunni að verða minni en fjárhæð afsláttarins gæti bent til.`` Einmitt. ,,Í því sambandi er þróun launakjara sjómanna á síðustu árum athyglisverð.`` Hvar er formaður Sjómannafélags Reykjavíkur? Hann heiðrar okkur kannski ekki með nærveru sinni hér í dag. Hann hefur verið eitthvað gugginn síðustu daga. Síðan segir enn fremur:
    ,,Til viðbótar því að niðurgreiðsla útgerðarkostnaðar er varhugaverð frá almennu sjónarmiði er þversögn fólgin í því að ríkið greiði niður útgerðarkostnað á sama tíma og það gerir ráðstafanir til að draga úr sjósókn vegna verndunarsjónarmiða.`` Þversögn í því. Enn fremur segir: ,,Sjómannaafslátturinn mismunar einnig launþegum og hefur sú mismunun farið vaxandi bæði vegna breyttra starfshátta í útgerð og fiskvinnslu og vegna breytinga á framkvæmd, sem m.a. stafar af þeirri tilhneigingu að útvíkka sífellt undanþágur. Sem dæmi um þessa mismunun má nefna að beitingarmenn sem ekki fara á sjó fá afslátt meðan annað landverkafólk nýtur hans ekki. Sjómenn, sem geta verið í landi eru að jafnaði heima hjá sér á næturlagi . . . `` Þvílíkt hneyskli. Þeir eru heima hjá sér á nóttinni mennirnir. Þetta er mjög alvarlegt mál. ( Gripið fram í: Er það litið á það sem sérstök . . . ?) Já, mér skilst það. Ég skal lesa þetta aftur svo að fundarmenn glöggvi sig á þessu: ,,Sjómenn, sem geta

verið í landi og eru að jafnaði heima hjá sér að næturlagi, njóta afsláttar en ekki t.d. langferðabílstjórar``.
    Þetta er mjög alvarlegt sem hér er upplýst. ( Gripið fram í: Ráðherrarnir eru vel yfir kvótanum.) Herra forseti. Þetta eru náttúrlega alvörumál sem hér eru til umræðu. Enn fremur segir: ,,Áhafnir sumra fiskiskipa geta verið í landi stóran hluta ársins en njóta samt afsláttar eins og sjósókn og fjarvistir frá heimili væru alla daga ársins. Vinna að fiski um borð í frystitogurum á mjög góðum launum veitir rétt til afsláttar en sömu störf í frystihúsi á mikið lægri launum ekki. Viðurkennd grundvallarregla í réttarríkjum er að þegnarnir skuli njóta jafnræðis við álagningu skatta. Það er í eðli sínu í beinni andstöðu við þessa grundvallarreglu að ívilna einni starfsstétt umfram aðra með sérstökum skattaafslætti sem þessum.`` Enn fremur segir og dregur þá að lokum:
    ,,Auk þess er að geta að vaxandi vandkvæði eru á skynsamlegri framkvæmd sjómannaafsláttar. Stafar það m.a. af því að hlutlæg tengsl milli réttar til afsláttarins og þeirra markmiða sem hann á að þjóna eru torfundin.`` Hlutlæg tengsl. Ég nam nú kennslu- og uppeldisfræði og heimspeki í Háskólanum en er samt algerlega í vandræðum með þennan texta. (Gripið fram í.) Ja, það er nú það, spurningin um þau.
    En svo kemur auðvitað rúsínan í pylsuendanum því hvaða málflutningur hefur þarna farið fram á þremur blaðsíðum annar en sá að sjómannafrádrátturinn sé óalandi og óferjandi, óþolandi mismunun, brjóti jafnræðisregluna, í honum séu þversagnir o.s.frv. o.s.frv. Þvílík úthúðun á einu máli á þremur síðum í þingskjali frá hæstv. ríkisstjórn. Ég hef sjaldan lesið annað eins. Við skyldum ætla að eftir allan þennan rökstuðning og þennan málflutning væri niðurstaðan klár. Út með þetta óréttlæti og svínarí. Nei, en svo kemur rúsínan í pylsuendanum:
    ,,Þrátt fyrir þau rök sem færa má fram gegn sjómannaafslætti er ekki í frv. gert ráð fyrir að fella hann niður.`` Þetta er það albesta. ( Gripið fram í: Þarna eru hlutlæg tengsl á milli.) Svo segir að vísu: ,,Tilvist hans er veigamikið atriði sem snertir kjör sjómanna og hag útgerðar sem ekki er unnt að taka burtu án fyrirvara.`` Og þá er ég kominn að spurningunni, hæstv. sjútvrh., sem ég kýs að beina til hæsv. sjútvrh. ekkert síður en hæstv. fjmrh.: Er verið að boða að það sem hér er á ferðinni sé bara rétt upphafið að því að fella þennan frádrátt niður með öllu? Málflutningurinn hefur svo sannarlega farið fram. Það er svo sannarlega búið að fordæma og bannfæra þennan frádrátt með þessum málflutningi hæstv. ríkisstjórnar sem hlýtur að standa hér sem hin ábyrga afstaða stjórnarinnar í þessu þingskjali. Þetta er stjfrv. Ég sá ástæðu til þess í lokin á umfjöllun minni um málefni sjávarútvegsins og sjómanna, virðulegur forseti, að vekja sérstaka athygli á þessu og bendi mönnum á að lesa allt skjalið í heild sinni og ég teldi ástæðu til þess að þeir sem hafa á því tök að koma þessu plaggi til sjómanna á næstu dögum geri það. Mér þætti ekki ólíklegt að það skap sé eftir í ýmsum íslenskum sjómönnum að þeim þyki þessi kveðjan verri en sú sem felst í hugmyndum um 180 millj. kr. tekjuskerðingu á næsta ári. Þvílíkur skilningur á högum íslensku sjómannastéttarinnar. Þvílík leiftrandi samúð með því erfiða hlutskipti og mikilvæga sem hún gegnir í íslenskum þjóðarbúskap.
    Virðulegi forseti. Ég ætla þá að snúa máli mínu lítillega að hæstv. samgrh. Því miður, verð ég að segja, neyðist ég til þess að eiga hér nokkurn orðastað við hann vegna ákvæða sem í fjárlagafrv. eru og hér eru til umræðu og satt best að segja verð ég að ítreka og undirstrika að ég harma að þurfa að gera. Þar á ég við þá útreið sem ákveðnar framkvæmdir í vegamálum eiga að fá samkvæmt nýjustu ákvörðunum hæstv. ríkisstjórnar á næsta ári. Ég hef kosið að leiða hjá mér umræður það sem af er þessu ári um fyrri ákvarðanir og aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar í þeim efnum, þar á meðal þann niðurskurð sem hæstv. ríkisstjórn greip til á sl. vori í vegamálum. Ég taldi eftir atvikum ekki rétt að gagnrýna það

þar sem hæstv. ríkisstjórn mat það svo að við mjög erfiðar aðstæður yrði hún að draga nokkuð úr vegaframkvæmdum á þessu ári. Þau merku tíðindi gerðust að ég sagði í sjónvarpsviðtali að ég ætlaði ekki að gera lítið úr viðleitni hæstv. ríkisstjórnar til þess að draga úr útgjöldum og skyldi þar ekki undanskilja vegamál þó að mér þætti sárt að sjá þau skorin niður og að einhver fyrstu embættisverk arftaka míns í samgrn. væru að draga úr vegaframkvæmdum.
    Ég hefði sömuleiðis ekki rokið í ræðustólinn á Alþingi og ásakað hæstv. samgrh. t.d. um það að raska forsendum gildandi vegáætlunar innan framkvæmdaárs án þess að afla til þess nýrra heimilda á Alþingi. Þegar ég var samgrh. var líka erfitt í ári og það var gripið til þess óyndisúrræðis, sem það auðvitað er, að ætla að lækka vegaframkvæmdir á árinu 1989 um 33 millj. kr. Talið var að tiltölulega auðvelt væri að fella niður ýmsar smáframkvæmdir og draga úr framkvæmdahraða nokkurra verka þannig að af um 4.000 millj. kr. fjárveitingum til vegagerðarinnar yrði 33 frestað. Þá risu upp á Alþingi fleiri en einn og fleiri en tveir hv. þm., sérstaklega úr Sjálfstfl. og gerðu úr því geysimikið mál. Þetta væri ósvinna sem hæstv. samgrh. væri að beita sér fyrir að hrófla við gildandi vegáætlun með þessum hætti á miðju ári. Slíkt væri óheimilt. Það yrði að afla samþykkis Alþingis fyrir fram áður en hægt væri að breyta þeirri vegáætlun sem afgreidd hefði verið vorið áður. Eftir allsnörp átök um þetta mál var horfið frá því að fresta þessum framkvæmdum, en reyndar náðist sambærilegur árangur varðandi niðurskurð og útgjöld vegna þess að minni snjómoksturskostnaður hafði orðið en reiknað hafði verið með.
    Mér er það mjög í minni þegar hv. 2. þm. Norðurl. v. kom ræðustól og rakti alveg sérstaklega að slíkur hefði skepnuskapur samgrh. verið að hann hefði fundið vegarspotta í Húnavatnssýslum, afleggjara heim að bæ þar sem byggi hjartveikur bóndi. Sérstök áhersla hefði verið lögð á það að leggja þennan veg til að þessi hjartveiki bóndi byggi við meira öryggi um líf sitt og valdi ekki skepnan samgrh. akkúrat þennan vegarspotta til þess að láta bitna á honum ólögmætan niðurskurð. Svona væri nú innrætið í þessum nýja samgrh. Og hv. 2. þm. Norðurl. v. hélt um þetta mikla ræðu og flokksbræður hans fleiri ruku í ræðustólinn og tóku undir þetta. Ég hef ekki haldið slíkar ræður á þinginu fram að þessu. Ég hef þagað þunnu hljóði yfir því að vegaframkvæmdir voru í byrjun árs skornar niður um 350 millj. kr. svo að segja nokkrum vikum eftir að vegáætlun var afgreidd án þess að tala við kóng eða prest, rætt við þingmenn kjördæmanna eða með nokkrum öðrum venjulegum vinnubrögðum leitað samþykkis eins og hefð hefur verið fyrir á þinginu. Ég hef t.d. ekki enn gagnrýnt hæstv. samgrh. fyrir það sem ég ætla þó nú að gera. Því miður neyðist ég til þess þegar svo er komið að hann hefur ákveðið að brjóta það samkomulag og hafa að engu þá ákvörðun Alþingis sem lá til grundvallar því að hraða framkvæmdum við jarðgangagerð á Vestfjörðum og vinna hana á styttri tíma en áður var áætlað. Það er eins og hæstv. samgrh. hafi gleymt því að samþykkt Alþingis liggur fyrir í þessu máli sem ekki hefur verið breytt og það er ekki seinna vænna en hv. alþm. sjálfir fari að átta sig á því að á sínum tíma var lögð fram till. til þál. um þetta mál flutt af mér, till. til þál. um að flýta framkvæmdum við jarðgöng á Vestfjörðum. Þetta var 509. mál á 112. löggjafarþingi og þessi ályktun var samþykkt á þinginu. Með þingsályktun 5. maí 1990 ákvað Alþingi ekki aðeins að ráðast í þessar framkvæmdir heldur einnig að flýta þeim, hefja þær fyrr og vinna þær hraðar. Þessi þingsályktun stendur. Hún kveður á um það hvernig skuli ráðast í þetta verk, hvernig eigi að vinna það og hvernig eigi að fjármagna það. Henni hefur ekki verið breytt. Það hefur ekki verið aflað samþykkis Alþingis fyrir því að breyta þessari framkvæmdaáætlun. Nú er væntanlega ætlunin að leggja til að svo verði gert og er ekki seinna vænna fyrir hæstv. ríkisstjórn ef hún ætlar ekki að vanvirða með þessu gildar og mætar ákvarðanir Alþingis.

    Þarna var kveðið á um það að um helmingur af framkvæmdakostnaðinum á því fjögurra ára tímabili sem framkvæmdir stæðu yfir, skyldi tekinn að láni og að ríkissjóður --- ekki Vegasjóður --- skyldi greiða lántöku- og vaxtakostnað, Vegasjóður endurgreiða lánið síðar verðbætt, stofninn. Þetta ákvað ríkisstjórnin að hafa að engu þegar ákveðið var að hverfa frá lántökunum en fjármagna framkvæmdakostnaðinn að fullu af vegafé. Með því móti var auðvitað skert hið almenna framkvæmdafé Vegagerðarinnar um 300--350 millj. kr. á ári, á næsta ári og áfram ef svo heldur áfram sem það horfir. Þetta er að því leyti alvarlegt að til grundvallar ákvörðuninni og afgreiðslu vegáætlunar á sínum tíma lá mikil vinna og ágæt samstaða um það með hvaða hætti skyldi ráðist í þetta verk. Þingmenn annarra kjördæma sættust á það að fara svona í þetta og sýndu sérstöðu Vestfirðinga með þessu mikinn skilning. Nú virðist eitthvað vera að bresta í þessum efnum, eða hvað?
    Margir voru undrandi vestur á fjörðum að þessi skrýtni fugl, Steingrímur J. Sigfússon af Norðausturlandi, skyldi vera að brjóta sig í stykki fyrir jarðgangagerð á Vestfjörðum. Þessi maður væri ekki mjög gáfaður, ekki fengi hann mörg atkvæði á Vestfjörðum, í framboði á Norðurl. e. og menn fóru jafnvel að gera því skóna að ég ætlaði að flytja mig í framboð fyrir vestan o.s.frv. En það varð nú svo að ég og þingmenn allir urðum sammála um það að þetta væri svo sérstakt verkefni og svo sérstakar aðstæður að full ástæða væri til að taka það alveg út fyrir sviga og vinna að því með sérstökum hætti. Þessi samstaða varð og var og er --- ef hún er þá enn fyrir hendi --- mjög mikilvæg eins og önnur samstaða sem oft hefur tekist um vegamál á Alþingi. Þess vegna hlýt ég að harma það mjög og átelja hvernig hæstv. ríkisstjórn gengur nú fram í málinu.
    Ég er þá kominn að því sem verst er og vitlausast í þessu öllu þar sem er nýjasta ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að brjóta þá samninga sem búið er að gera um þetta verk og ákveðið hefur verið að ráðast í. Og ég segi það alveg eins og er, virðulegur forseti, að ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin eyrum þegar ég heyrði það að mönnum dytti slíkt í hug. Hafa menn ekki áttað sig á því hvað hér er á ferðinni? Vita menn ekki hvernig var unnið að undirbúningi þessa verks? Þá ætla ég að upplýsa aðeins um það.
    Hér var á ferðinni alþjóðlegt útboð, það stærsta sem nokkurn tíma hefur verið ráðist í af Vegagerð ríkisins og er þá langt til jafnað. Það var lagður metnaður í það af hálfu samgrn. og Vegagerðarinnar að standa með fullkomlega myndugum hætti að þessu fyrsta stóra og alþjóðlega útboði Vegagerðarinnar. Hvað þýðir það fyrir orðstír Íslands í þessum efnum? Það hefur ákveðna hluti í för með sér að hér var á ferðinni alþjóðlegt útboð og það var gengið til samninga í kjölfar þess við lægstbjóðanda sem eru að hluta til erlendir aðilar, erlend stórfyrirtæki með herskara af erlendum lögfræðingum á sínum snærum. Síðan ákveður ríkisstjórn Íslands það á næturfundi að rifta þessum samningi að hluta til, að mér skilst að mestu leyti að Vegagerðinni forspurðri sem er samningshafinn í reynd og í framkvæmd og sá sem glímir við þessa verktaka, á við þá um aukaverk og uppákomur í verkinu. Hvernig má svona gerast? Hvers konar vinnubrögð eru þetta, segi ég aftur og spyr. Svona er ekki hægt að standa að hlutunum. Það er augljóst mál að ef hér færi á versta veg gæti Vegagerðin og íslenska ríkið orðið stórlega skaðabótaskylt og það sem er verra er að Vegagerðin lendir í þessu sambandi í óþolandi aðstöðu gagnvart verktökunum því að menn skulu átta sig á því að þessi samskipti eru ekki bara að skrifa undir samning. Þau lúta að stanslausum samningum út og gegnum verkið þar sem hvers konar frávik eru tekin og metin og reiknuð til verðs og iðulega þarf að semja um uppákomur og breytingar og fráviksatriði sem koma upp í framkvæmdinni. Hvernig halda menn að samningsstaða Vegagerðar ríkisins verði með svona framkomu við verktaka sem fær þarna allt í sína hendi með þessu? Ég stórefa það að af þessu hljótist mjög mikill sparnaður fyrir íslenska ríkið. Þvert á móti óttast ég það ef hér fer á versta veg að af því hljótist mikill skaði, bæði

í þessu verki og jafnvel í öðrum þar sem orðstír Íslands á alþjóðlegum útboðsmarkaði bíður hnekki. Ég er ekki alveg viss um það að hæstv. ríkisstjórn hafi á næturfundum sínum kveikt á því að hún gæti hér átt í höggi við jafnvel harðsnúna erlenda lögfræðinga stórfyrirtækja sem kunna ýmislegt fyrir sér í þessum efnum.
    Síðan er þetta að mínu mati ákaflega ógæfusöm og ógeðfelld ákvörðun gagnvart því fólki sem mætir henni vestur á fjörðum. Og ég verð að segja það alveg eins og er að ég hlýt að spyrja hæstv. ríkisstjórn: Hvers á Suðureyri við Súgandafjörð að gjalda? Hefur Suðureyri við Súgandafjörð gert hæstv. ríkisstjórn eitthvað? Á ríkisstjórnin alveg sérstakar óuppgerðar sakir við þessar 300 rúmlega hræður sem þar þrauka enn þá? Ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst það með miklum endemum hvernig fram er komið við þetta fólk. Þetta er svo vitlaus ákvörðun, herra forseti, að engu tali tekur.
    Ég ætla að spyrja hæstv. samgrh.: Hvernig hefur hann séð fyrir sér samgöngurnar við Suðureyri við Súgandafjörð veturinn sem jarðgöng verða komin frá Ísafirði yfir í Önundarfjörð og ekki þarf að moka heiðar lengur vegna þeirra samgangna? Hyggst hann þá halda heiðunum eftir sem áður opnum með kostnaði upp á 30 millj. kr. eða svo bara fyrir íbúana á Suðureyri við Súgandafjörð? ( Gripið fram í: Til að spara 250 millj.) Það verður heldur merkilegur sparnaður sem fólginn verður í þeirri frestun á afleggjaranum út í Súgandafjörð þennan eina vetur. Ótal slíkir hlutir hljóta að koma upp ef menn skoða þessa misheppnuðu ákvörðun og ég skora nú á hæstv. samgrh. og hæstv. ríkisstjórn að fara aftur yfir þetta mál og draga til baka þær breytingar sem lúta að fjármunum Vegagerðar ríkisins og íhuga aðeins sinn gang.
    Ég segi það svo að lokum að hæstv. ríkisstjórn átti auðvitað annan og miklu geðfelldari leik í málinu ef hún vildi draga úr útgjöldum vegna framkvæmdanna á þessum stað. Það var einfaldlega að láta á það reyna með viðræðum að siðaðra manna hætti hvort samningsaðili Vegagerðarinnar og ríkisins í málinu væri tilbúinn til að fallast á að það yrði hægt á greiðslum inn á verkið á næsta ári svo sem um einhver hundruð millj. kr. Sjá menn ekki í hendi sér að þar með er allt önnur staða uppi í málinu? Hvernig stendur á því að hæstv. ríkisstjórn skuli aldrei geta talað við menn heldur þurfi að ákveða allt einhliða og fyrir fram í þjösnaskap? Ég hefði talið það gegna allt öðru máli og hefði sennilega ekki flutt ræðu yfir vini mínum samgrh. nema vegna þess að ég neyðist til þess ef hann hefði ekki verið svo heillum horfinn að standa svona að málum og hæstv. ríkisstjórn. Hefði staðið inni í frv. ,,Ríkisstjórnin hefur ákveðið að leita eftir viðræðum við samningsaðila sína í þessu verki að hægja á greiðslum inn á verkið á næsta ári ef kostur er, svo sem eins og um 200 millj. kr.``, hefði gegnt allt öðru máli um þetta allt saman. ( Landbrh.: Þetta væri nú ljót tillaga.) Þetta er samt veruleikinn, hæstv. ráðherra. Ef menn gera samning og annar aðilinn hefur áhuga á því að fá fram breytingar á þeim samningi, hvernig hegða menn sér þá venjulega í þeim tilvikum? Hvernig hegða siðaðir menn sér svona venjulega? Þeir hafa samband við gagnaðilann, biðja um viðræður við hann og óska eftir því að ná fram breytingum. Flóknara er málið ekki en það. Að lokum er það svo þannig að til að kóróna vitleysuna bendir ríkisstjórnin á ákveðinn verkþátt sem er afleggjarinn til Suðureyrar sem er það vitlausasta af öllu saman. Auðvitað átti þá ekki að skilgreina það hvar í verkinu yrði hægt á framkvæmdum á næsta ári, heldur láta verktakanum það eftir að gera það sem honum væri hagfelldast. Það ógeðfellda er að með þessu greiðir ríkisstjórnin byggðinni á Suðureyri alveg sérstakt högg sem er ástæðulaust, óþarft og vitlaust fyrir utan þá siðferðislegu hlið sem er á því að ríkisstjórn Íslands skuli þar sjá þann andstæðing sem hún telur vel að því kominn að troða stanslaust illsakir við þar sem er byggðin á Suðureyri við Súgandafjörð. Það er svo sannarlega ekki ráðist á garðinn þar sem hann er hæstur í byggðalegu tilliti í þessu máli.

    Nei, því miður er það svo að nái þetta allt saman fram að ganga þá er hæstv. samgrh. að afreka það á einu ári með þremur ákvörðunum að skera verulega mikið og alvarlega niður framkvæmdafé til vegamála og hlýtur allur þingheimur að harma það mjög. Ég verð að segja það alveg eins og er að ég ætlaði hæstv. ráðherranum betri hlut í þessum efnum en að þurfa að halda yfir honum þessa ræðu.
    Ég mun ekki hafa um þetta fleiri orð að sinni, herra forseti, en ég vona að mér hafi tekist að gera aðeins grein fyrir afstöðu minni til þessara hluta og kannski upplýsa nokkra hv. alþm. um það, sem því miður eru harla fáir og enginn ráðherra tollir í salnum augnablik nema hæstv. iðnrh. sem situr og les Dagblaðið, að hér er verið að brjóta ákvörðun og samþykkt Alþingis í þessu máli. Hér er ekki bara um þá stöðu að ræða að ríkisstjórnin geti að eigin geðþótta hegðað sér eins og henni sýnist í þessu máli. Er Alþingi Íslendinga enn þá þeirrar skoðunar að það eigi að hraða þessum jarðgangaframkvæmdum og standa að því með sama hætti og ákveðið var á Alþingi 5. maí 1990 eða ekki? Hefur Alþingi snúist hugur? Við skulum fá það fram áður en lengra er haldið í málinu.
    Um landbúnaðarmál ætlaði ég lítillega að nefna við hæstv. landbrh. að þar er honum því miður að daprast flugið svo að ekki sé meira sagt. Hæstv. landbrh. tók þá mjög svo skynsamlegu ákvörðun af nokkrum myndugleik á sl. vori að verja og virða samninginn við bændur um skipulag búvöruframleiðslunnar í landinu næstu sjö árin. Þeirri ákvörðun fagnaði ég sérstaklega og reyndi að styðja hæstv. landbrh. eftir föngum í þeirri viðleitni að verja sig áföllum innan ríkisstjórnarinnar vegna þeirrar afstöðu sinnar. Hann var að sjálfsögðu nagaður neðan til og aftan frá af ýmsum samstarfsmönnum sínum en hæstv. landbrh. stóð þetta þó af sér fram eftir sumri og fram á haust og menn voru farnir að binda við það nokkrar vonir að hæstv. landbrh. mundi verða ofan á og standa upp úr í málinu. En því miður slapp jafnvel ekki þetta við ákvarðanir á hinum illræmda næturfundi og hæstv. ríkisstjórn ákvað aftur að rifta samningi einhliða sem hún hafði gert og virða ekki þau ákvæði búvörusamningsins sem lúta að uppgjöri greiðslna við bændur. Og hér er það á ferð enn og aftur að hæstv. ríkisstjórn stendur með þessum sérkennilega og ógeðfellda hætti að samningi sem hún hefur gert að því er ég best veit án viðræðna við gagnaðila sinn eða samningsaðilann. Nú er það auðvitað þannig að rétt eins og hið alþjóðlega útboð, samningurinn um jarðgangaframkvæmdir á Vestfjörðum er ekki bara eitthvert plagg, skrifað á klósettpappír úti í bæ, sem ríkisstjórnin getur farið með eins og henni sýnist og notað til þeirra þarfa sem henni finnast brúklegastar, þá er búvörusamningurinn heldur ekki bara einskis nýtt plagg, hann er löggjörningur rétt eins og samningurinn um Vestfjarðagöngin er löggjörningur. Það eru dómstólar í þessu landi og ég hlýt að spyrja hæstv. landbrh.: Hefur hann hugleitt það hver staða ríkisvaldsins væri í dómsmáli um þessi réttindi bænda? Það þarf ekki að fara í grafgötur með það hver yrði vitnisburður fyrrv. landbrh. sem hér talar gagnvart þeim ákvæðum búvörusamningsins sem þarna stendur til að rifta. Ég mun að sjálfsögðu bera fyrir rétti, ef til kemur, að það lá í málinu frá upphafi að tilhögun greiðslna til bænda og uppgjör þeirra yrði með sama hætti og ekki lakari gagnvart bændum heldur en ákvæði gildandi búvörusamnings sem þýðir að uppgjörinu skyldi ljúka fyrir 15. des. ár hvert.
    Með þeim tillögum, sem hæstv. ríkisstjórn leggur til og eru í brtt. meiri hlutans við fjárlagafrv. í 2. umr., yrði þetta brotið. Og aftur er unnið hér að hlutunum með sama hætti, samningsaðilinn er ekki virtur viðlits, það er ekki leitað eftir því fyrst hvort unnt sé að ná fram lagfæringum eða breytingum með góðu og þekki ég þó bændur að því að vera ákaflega góða viðureignar í slíkum efnum, vera mjög samningsfúsa og viljuga til þess að reyna að ná samstöðu um hlutina og ekki síst þá forsvarsmenn þeirra sem þar ráða fyrir nú. Þeir hafa reynst mjög viljugir til þess að reyna að skapa frið um sín mál og hafa um þau samstöðu. Þeir hafa tekið á sig og sína félagsmenn byrðar á undanförnum árum sem ég held að fáar aðrar stéttir í landinu hefðu gert með sama hætti. Þeir tóku á sig til að mynda 5% kjaraskerðingu umfram aðrar stéttir í landinu eða einir stétta í reynd þegar þjóðarsáttin var gerð. Þeir hafa gengið í það að draga saman framleiðslu og veltu í sinni atvinnugrein af meiri hörku, held ég, en nokkur önnur íslensk stétt getur státað af á seinni árum. Þeir hafa reynst fúsir til að gera samninga við ríkisvaldið um slíka hluti sem hafa verið þeim og þeirra forsvarsmönnum mjög erfiðir. Það vil ég segja við þig, hæstv. landbrh., það sem mér finnst verst í þessu efni er ekki í sjálfu sér sú kjaraskerðing bændastéttarinnar eða sauðfjárbænda sem þarna er á ferðinni heldur framkoman við forsvarsmenn Stéttarsambands bænda sem skrifuðu undir samninginn við ríkisvaldið. Það er ómaklega aftan að þeim komið með þessum aðgerðum vegna þess að þeir voru á sínum tíma talsvert gagnrýndir fyrir það í röðum sinna félagsmanna að það sem mundi bresta í þessu máli eins og oft áður væri að ríkisvaldið mundi svíkja. Þeir mundu að sjálfsögðu eins og venjulega standa við sitt og það hafa bændur gert og staðið í sársaukafullum aðgerðum innan sinnar stéttar gagnvart sinni atvinnugrein á þessu ári. Því miður er hæstv. ríkisstjórn með þessum aðgerðum að leggja þeim rök og vopn í hendur sem gagnrýndu samningsaðilann, gagnaðilann í málinu, bændasamtökin og forustu þeirra fyrir að treysta ríkisvaldinu. Og það finnst mér verst í þessu máli að þetta er lúaleg og ómakleg framkoma við þá forustumenn bændastéttarinnar sem sýndu að mínu mati mikinn kjark og dugnað þegar þeir gengu í þær erfiðu og sársaukafullu aðgerðir sem fylgdu gerð búvörusamningsins gagnvart bændastéttinni og í raun byggðinni í strjálbýli landsins. Þeim er þar ekki launað sem skyldi með þessum aðgerðum hæstv. ríkisstjórnar. Vonandi sér hæstv. ríkisstjórn að sér og dregur til baka þessa mislukkuðu og vondu hugmynd. Lágmark væri að láta fyrst á það reyna hvort bændur landsins kynnu að vera tilbúnir til samninga um það að létta eitthvað undir með ríkisvaldinu við þessar erfiðu aðstæður ef það er mat manna að bændur séu betur aflögufærir en ríkissjóður í þessu tilliti.
    Hér er auðvitað rétt, að lokum, að benda á að með þessari breytingu nær ríkissjóður að sjálfsögðu ekki neinum varanlegum sparnaði, hér eru einungis fluttar til yfir áramót greiðslur sem eftir sem áður þarf að inna af hendi.
    Ég ætla tímans vegna ekki að fjölyrða meira um málefni landbúnaðarins en verð þó að segja að ég harma þá útreið sem málefni landgræðslu og skógræktar fá samkvæmt næturákvörðun ríkisstjórnarinnar. ( Gripið fram í: Er ekki búið að breyta því?) Kannski er búið að lagfæra það og það væri betur að svo væri, en ef það gengi eftir þá sé ég ekki betur en jafnvel væri í vændum enn eitt samningsrofið af hálfu hæstv. ríkisstjórnar t.d. með því að niðurskurður á fjárveitingum til Fljótsdalsáætlunar mundi stofna í hættu samningum ríkisvaldsins og bænda um nytjaskógrækt á því svæði. Það eru samningar, það eru löggjörningar, rétt eins og aðrir sem ég hef hér rætt um og enn yrði ríkisstjórnin ber að því með slíku athæfi að virða þá að vettugi og það ætla ég að lokum lítillega að ræða um, virðulegur forseti. Það er sú furðulega framganga þessarar ríkisstjórnar, sem tollir illa hér inni í þingsalnum, hæstv. ríkisstjórnin, t.d. alls ekki hæstv. forsrh. og sjaldan hæstv. fjmrh. og hef ég þó grun um það að það sé hann sem flytji þetta mál, a.m.k. hefur það verið svoleiðis að í ríkisstjórnum undanfarið á Íslandi hefur fjmrh. flutt fjárlagafrv. Það er að vísu alls ekki víst að það sé eins í þessari stjórn því þar er margt skrýtið. En það er óhjákvæmilegt að vekja athygli á því að hæstv. ríkisstjórn er með þessum ákvörðunum og fleirum sem í vændum eru að brjóta hvern samninginn á fætur öðrum sem hún hefur gert við hina ýmsu og óskyldustu aðila úti í þjóðfélaginu. Ég spyr að því, hvernig er það í þessari hæstv. ríkisstjórn, telur hún sig hafa það vald á hendi að gera það sem henni sýnist við samninga við hina óskyldustu aðila, löggjörninga sem jafnvel byggja á sérstökum ályktunum Alþingis eða sérstökum lagaheimildum? Þannig er um samninginn um jarðgangaframkvæmdir á Vestfjörðum. Hann er löggjörningur á grundvelli alþjóðlegs útboðs og byggir á sérstakri þál. Alþingis. Hann er virtur að vettugi. Þannig er um búvörusamninginn. Hann er löggjörningur, hann byggir á heimild í gildandi búvörulögum og hann öðlaðist sérstaka lagastoð með ákvörðunum Alþingis við afgreiðslu lánsfjárlaga á síðasta vori. Hann er að sjálfsögðu á löggiltum skjalapappír, undirritaður af tveimur ráðherrum í fyrrv. ríkisstjórn. Er það ekki nóg fyrir hæstv. ríkisstjórn? Er það ekki nógu gilt? Ég spyr: Hvernig þarf að gera samninga úr garði til þess að ríkisstjórnin sem nú situr í landinu taki mark á þeim? ( ÓRG: Egill Jónsson kallaði fram í að hann væri gildur, samningurinn.)
    Í þriðja lagi ætla ég að nefna dæmi um samning sem ríkisstjórnin hefur virt að vettugi og brotið einhliða. Milli sveitarfélaganna og ríkisins var í maímánuði 1990 gerður samningur um hina sameiginlegu innheimtu þessara aðila á staðgreiðslusköttum, útsvari og tekjuskatti. Þessum samningi er ríkisstjórnin að rifta einhliða eða breyta með frv. til laga um tryggingagjald sem berst hér inn í þingið án þess að talað hafi verið við sveitarfélögin sem eru gagnaðilinn og samningsaðilinn við ríkið um þessa sömu sameiginlegu innheimtu sem þarna á að breyta. Þriðji samningurinn af þessu tagi sem ríkisstjórnin virðir einskis, brýtur eða virðir að vettugi.
    Ég nefni í fjórða lagi, þó þar sé ekki í eiginlegu formi um samning að ræða, það samkomulag sem í gildi hefur verið milli ríkisvaldsins og sveitarfélaganna um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og auðvitað er hefð fyrir að breyta ekki með einhliða ákvörðunum. Í reynd er þetta sáttmáli um samskipti ríkisvaldsins og sveitarfélaganna í landinu sem er bundinn af ákvæðum margra laga svo sem laga um verkefni sveitarfélaga og laga um tekjustofna sveitarfélaga, auk fjölda ákvæða í sérlögum um einstök málefni, málefni fatlaðra, heilbrigðismál, skólamál o.s.frv. Þennan sáttmála, í fjórða lagi, um samskipti ríkisvaldsins og sveitarfélaganna virðir ríkisstjórnin að vettugi og hefur að engu með gerræðislegum einhliða ákvörðunum á næturfundi í skjóli myrkurs.
    Í fimmta lagi gæti ég nefnt það sem niðurskurðurinn á fjárveitingum til skógræktarátaksins á Fljótsdalshéraði mundi hafa í för með sér, þar gæti sömuleiðis orðið um riftun á lögmætum samningum að ræða vegna þess að í landinu eru í gildi lög um þetta skógræktarátak og í þeim lögum stendur að það beri að gera samninga við bændur um þátttöku þeirra í verkefninu sem tryggir þeim ákveðinn rétt og ákveðnar skyldur. Þessa samninga mundi ríkisstjórnin með niðurskurði sínum, ef ekki brjóta strax, a.m.k. stofna í hættu.
    Þetta eru fimm dæmi, sem ég eftir minni og upp úr mér hér rétt undir miðnættið, dauðþreyttur, man eftir til að rekja um framferði ríkisstjórnarinnar í þessum efnum og þau eru örugglega fleiri sem við getum rifjað upp á næstu sólarhringum ef þörf krefur.
    Hvers konar framkoma er þetta? Hvað á þetta að þýða? mundu menn spyrja á einfaldri íslensku. Af hverju standa menn svona að hlutunum? Er það sjálfsagt mál að ríkisstjórnin hegði sér að vild í þessum efnum? Eru þetta einhverjir reykvískir stjórnunarhættir sem við erum að kynnast hér alveg í nýju tilliti á hinu háa Alþingi, eða hvað? Síðan hvenær fór það að verða verklagsregla í stjórnsýslu í landinu að æðsta stjórnsýslustigið, ríkisvaldið, virði að vettugi löggjörninga hist og her í þjóðfélaginu, stofni sér hikstalaust í skaðabótaskylda aðstöðu, ef svo ber undir, utan lands og innan. Það er von að spurt sé.
    Að lokum, herra forseti, ætla ég að taka undir það sem hv. 4. þm. Austurl. nefndi hér um lítið mál sem mönnum finnst kannski hlálegt að fara að nefna í þessu stóra samhengi þar sem er undirbúningur eða hönnun á náttúrufræðihúsi Íslendinga. Hér kom upp maður, einnig þingmaður fyrir austan, og talaði sig í hita yfir því hvað þetta væri mikið snjallræði að skera niður framlag ríkisins í þetta hönnunarverkefni, 3,5 millj. kr. og kemur mér þá í huga að þar er enn einn samningurinn á ferð milli ríkisvaldsins, Háskóla Íslands og

Reykjavíkurborgar um að reisa þetta hús. Nú liggur fyrir að bæði borgin og Háskólinn eru tilbúin með sitt framlag en ríkisstjórnin ætlar einhliða að rjúfa þetta samkomulag, þessa samstöðu um framkvæmdina, og skera niður sinn hlut. Ég tel þetta mjög ámælisvert og harma að ekki skuli enn komist af stað með þetta langþráða verkefni að hýsa náttúrugersemar Íslendinga, til að gera skólanemendum landsins fært að kynnast safnmunum okkar á þessu sviði og nota sér þá til kennslu og lærdóms, þar sem átti að gefa ferðamönnum kost á kynnast náttúru Íslands í þessu tilliti, þar sem átti að framkvæma rannsóknir af því að hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson nefndi þær, því Náttúrufræðistofnun á að fá inni í þessari byggingu, náttúrufræðihúsi. Loksins hafði tekist samkomulag milli þessara aðila, Háskólans, Reykjavíkurborgar og ríkisins, um að ráðast í þessa framkvæmd en því er nú fórnað með þessum lágkúrulega hætti. Ég býðst til þess að leita að 3,5 millj. kr. fyrir hæstv. ríkisstjórn í gervöllu fjárlagafrv. og finna þær einhvers staðar og leggja til að þær verði frekar skornar niður eða teknar á öðrum stað en þessum. Ég býðst til þess. Ég er alveg viss um að við getum fundið þann stað og að við Íslendingar höfum efni á því að hefja nú undirbúning að þessari framkvæmd.
    Herra forseti. Ég hef hér talað nokkuð mál og sjálfsagt finnst ýmsum mikið til um það að ég hef líklega talað upp undir eina og hálfa klukkustund. Mér verður örugglega lagt það mjög til lasts að hafa spillt svo stórlega störfum þingsins með því að taka þennan tíma af ýmsum. ( Gripið fram í: Styttra en Pálmi samt.) Já, hér er það upplýst að ég hafi talað skemur en hv. 2. þm. Norðurl. v. og er það þá gott og vel. En það er nú svo að ég skammast mín ekki fyrir þau efni sem ég hef hér hreyft og tel þau hafa verið þörf og harma það eitt að hæstv. ríkisstjórn skuli hafa tollað svona illa í salnum sem að vísu er af skiljanlegum ástæðum, þeim er mjög órótt, blessuðum mönnunum, og að mörgu leyti eðlilegt að þeir forðist nú dagsljósið sem heitan eldinn og jafnvel þessi daufa lýsing, sem hér er í þingsalnum á þessum kvöldfundi, er of björt fyrir þá. Það er blánóttin í svartasta skammdeginu sem er núna vinnutími hæstv. ríkisstjórnar af skiljanlegum ástæðum því að næturstundirnar hæfa nefnilega innihaldi ákvarðananna. Kannski ættum við stjórnarandstæðingar að gera ríkisstjórninni það til geðs að snúa sólarhringnum við og funda á nóttunni en sofa á daginn, þannig að þetta væri allt saman betur í samhengi við svarta skammdegið og efnið sem þar er til umræðu.
    Nei, herra forseti, satt best að segja er það allt saman heldur dapurlegt. Það er að vísu svo sem við mátti búast að hæstv. ríkisstjórn er komin á flótta með þessa hluti og er það auðvitað vel. Að lokum fögnum við auðvitað því, jafnvel þó í litlu verði, sem hæstv. ríkisstjórn verður að láta undan síga með þessa hluti. Auðvitað gleðjumst við alþingismenn yfir því að þessi viðkvæmi málaflokkur, málefni fatlaðra, skuli ekki vera skotspónn sem menn kasta af hendi sér til í stjórnsýslunni eins og hæstv. ríkisstjórn ætlaði sér að gera. Það eru ekki mál til þess að meðhöndla þannig, hæstv. forsrh., svoleiðis eiga menn ekki að umgangast viðkvæma hluti af því tagi, þar sem eru málefni fatlaðra. Auðvitað mundum við fagna því ef ríkisstjórnin léti undan síga og flóttinn yrði rekinn lengra vegna andstöðu innan veggja Alþingis, bæði í röðum stjórnarandstæðinga og stjórnarsinna og vegna þrýstings utan að úr þjóðfélaginu, því þjóðin vill ekki þessa hluti. Það er alveg morgunljóst, eins og ónefndur embættismaður ríkisins mundi orða það. Þjóðin vill standa vörð um íslenska velferðarkerfið og íslenska þjóðin telur sig ekki svo fátæka að hún þurfi að ganga jafnnærri viðkvæmum hlutum, eins og hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að gera, m.a. vegna þess að öll þjóðin horfir upp á það að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki kjark og þó sennilega ekki frekar pólitískan vilja til þess að afla fjármunanna þar sem þeir eru í þessu þjóðfélagi.
    Þetta er nú mergurinn málsins því auðvitað eru hér heilmiklir fjármunir og fjöldi fólks sem hefur mikið handa á milli sem væri mun betur í stakk búið til þess, mun betur í færum til þess að borga þessa hluti heldur en þeir sem hæstv. ríkisstjórn fer í vasana á. Það er t.d. ekki þannig að það eigi að hlífa því hátekjufólki sem ekki á börn umfram það hátekjufólk sem á börn. Ein af breytingum hæstv. ríkisstjórnar í skattamálum er sú að þyngja skattana á öllu barnafólki með tæplega miðlungstekjur og þar yfir, á öllum fjölskyldum sem eiga börn með tæplega miðlungstekjur og þar yfir, en sleppa þeim hátekjufjölskyldum þar sem ekki eru börn. Eru þetta jöfnunaraðgerðir, er þetta skynsamlegt? Nei, þetta stríðir gegn réttlætiskennd manna og augljósri skynsemi. Svona gæti ég rakið dæmin og það hefur reyndar verið gert hér af ýmsum.
    Við skulum vona, herra forseti, svo að allri alvöru sé haldið til haga að sem mest af þessum ógeðfelldu áformum hæstv. ríkisstjórnar verði brotið á bak aftur á næstu sólarhringum og að næturákvörðununum verði hrundið. Að lokum verða það svo orð mín síðust í þessari ræðu minni, ef ég verð ekki knúinn til að tala aftur, að íslenska þjóðin eignist sem fyrst á nýjan leik ríkisstjórn sem getur tekið ákvarðanir sínar í björtu.