Fjárlög 1992

50. fundur
Fimmtudaginn 12. desember 1991, kl. 23:35:00 (1873)


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
     Virðulegi forseti. Mig langar til þess að fara þess á leit við forseta að hann freisti þess að kveðja hv. 8. þm. Reykn. í salinn. Ég vil reyna að svara nokkrum spurningum og athugasemdum sem þingmaðurinn beindi til mín.
    En áður en ég kem að því vil ég víkja að máli þeirra hv. 4. þm. Norðurl. e. og hv. 4. þm. Austurl. Og meðan við bíðum eftir hv. 8. þm. Reykn. nefni ég að mér fannst vera hálfgerður skammdegistónn í máli hv. 4. þm. Norðurl. e. Hann var að leita sér að hæfilegum kveðskap við þetta tækifæri og mig langar til þess að hjálpa honum með það og vitna í skammdegisvísur skaftfellska bóndans Eiríks Guðmundssonar sem orti bara tvær vísur um ævina. Og þær eru svona:

         Mikaels frá messu degi
         miðrar góu til
         í Syðra-Firði sólin eigi
         sést það tímabil.

         Lengi að þreyja í þessum skugga
         þykir mörgum hart.
         Samt er á mínum sálarglugga
         sæmilega bjart.

    Og ég vona nú að senn fari að birta á sálarglugga hv. 4. þm. Norðurl. e. (Gripið fram í.) Það er og, hv. 9. þm. Reykv. (Gripið fram í.) Þær voru tvær vísurnar.
    Þá kem ég að því sem þessir ágætu þingmenn viku nokkuð að í sínu máli. Þeir gerðu hér að umtalsefni fjárveitingar til umhvrn. og víst get ég tekið undir það með hv. 4. þm. Austurl. að þar er meiri fjárþörf en verið hefur og það er brýnt að efla hið unga umhvrn. Það er líka rétt sem kom fram í máli beggja þingmannanna að það væri auðvitað ákaflega æskilegt að við eignuðumst gott hús til að varðveita og kynna ýmsar náttúrugersemar Íslands til þess að gera þær aðgengilegar, bæði fyrir skólafólk og ferðamenn. Um staðinn fyrir slíkt hús ætla ég ekki að fjölyrða. En auðvitað eru þetta áform sem við verðum að skoða í ljósi fjárhagsaðstæðna og gæta þess að reisa okkur ekki hurðarás um öxl með því að fara þar ógætilega af stað. Sannleikurinn er náttúrlega sá að eins er það með umhvrn. og aðra góða hluti að nú verðum við vegna fjárhagsaðstæðna að sætta okkur við það að það vaxi fram

hægt en örugglega eins og margar lífseigar og langlífar plöntur gera.
    Þá ætla ég að koma nokkuð að máli hv. 8. þm. Reykn. sem nú er genginn í salinn. Hann beindi til mín nokkrum spurningum og athugasemdum. Mér finnst við hæfi, virðulegi forseti, að víkja nokkuð að því í upphafi --- og er ærin ástæða til þess að vekja athygli á því --- að þessi sjálfskipaði talsmaður nýmóðins vinnubragða í fjármálum eins og hann lýsti sér sjálfur áðan hefur nú í veigamiklum atriðum snúið gersamlega við blaðinu frá því hann bar ábyrgð á ríkisfjármálunum í fyrri ríkisstjórn. Þetta kom mjög glöggt fram í ræðu hans hér fyrr í dag. Mig langar af því tilefni, virðulegi forseti, að rifja upp ýmislegt af því sem fram kom við fjárlagaumræðuna í fyrra frá hans hendi. Sem fjmrh. sagði hann í ræðu sinni við 1. umr. um frv. til fjárlaga í fyrsta lagi, með leyfi hæstv. forseta, þetta er bein tilvitnun:
    ,,Það er ljóst að það eru skipulagsbreytingar í atvinnulífinu og ríkiskerfinu sjálfu sem eru lykillinn að því að halda megi aftur af auknum ríkisútgjöldum á næstu árum. Fyrirtæki, rekstraraðilar og aðrir viðskiptamenn standi í auknum mæli undir kostnaði af opinberri þjónustu sem ríkið sér um í þeirra þágu.``
    Svo mörg voru þau orð. Nú gagnrýnir hv. 8. þm. Reykn. hins vegar harðlega allar tillögur um það að láta þjónustugjöld í auknum mæli standa undir opinberri þjónustu og kallar þetta gersamlega andstætt allri jafnaðarstefnu.
    Í öðru lagi, virðulegi forseti, sagði hann í þessari ræðu í fyrra, með leyfi forseta:
    ,,Sjálfstæði stofnana verði aukið, m.a. varðandi ráðstöfun fjárveitinga. Stofnanir fái rýmri heimildir til að fjármagna sig með sértekjum og til að ráðstafa þeim sértekjum.``
    Nú mótmælir hv. 8. þm. Reykn. öllum hugmyndum um sértekjur harðlega.
    Í þriðja lagi, virðulegi forseti, sagði hv. 8. þm. Reykn. í þessari ræðu:
    ,,Betra jafnvægi komist á tekju- og útgjaldaskiptingu ríkisins og stærstu sveitarfélaganna og aukið verði svigrúm ríkisins til að jafna aðstöðu sveitarfélaga á landsbyggðinni.``
    Þetta þýðir á mannamáli tilfærslu fjár frá sveitarfélögunum til ríkis. En nú slær þessi sjálfskipaði talsmaður sveitarfélaganna sér á brjóst og mótmælir öllu slíku. Hafi einhver borið kápuna á báðum öxlum, komið fram í tveimur gervum í fjármálunum, þá er það hv. 8. þm. Reykn. Afstaða hans nú þegar mikill vandi er á höndum í þjóðarbúskap okkar og í ríkisfjármálum er í hrópandi mótsögn við ræður hans sem hann flutti í fyrra og reyndar fyrr á þessu ári.
    Ég kem þá, virðulegi forseti, að þeim tveimur beinu athugasemdum og spurningum sem varða einstaka fjárlagaliði og hv. þm. beindi til mín. Sú fyrri varðar niðurgreiðslur á mjólkur- og undanrennudufti til sælgætisiðnaðarins. Í tillögum meiri hluta fjárln. er lagt til að þessar niðurgreiðslur lækki um 100 millj. kr. Ég segi, þótt fyrr hefði verið. Þessar niðurgreiðslur hafa lengi verið hreinasta hneyksli en ekki hefur verið unnt að taka á þeim fyrr m.a. vegna afstöðu Alþýðubandalagsráðherra í síðustu ríkisstjórn sem ávallt gættu hagsmuna hins úrelta kerfis í framleiðslu, vinnslu og sölu landbúnaðarafurða.
    Þurrmjólk kostar nú á Íslandi rúmar 600 kr. kg en 60 kr. á heimsmarkaði. Til þess að skapa sælgætisiðnaði okkar sambærileg starfsskilyrði og keppinautum hans hefur hún verið niðurgreidd úr ríkissjóði um 540 kr. á hvert kg. Í nágrannalöndum okkar, einkum í Skandinavíu, þar sem menn kalla ekki allt ömmu sína í styrkjum til landbúnaðarins, er verðið á þurrmjólkinni námunda við 200 kr. á kg. Þar leggja menn reyndar jöfnunargjöld á innflutt sælgæti til þess að jafna muninn á heimamarkaðsverðinu og heimsmarkaðsverðinu á þurrmjólkinni. Einokunarfyrirtækin hér í mjólkurvinnslunni höfðu engar áhyggjur af þessu verði á þurrmjólk heldur hækkuðu hana bara alveg purkunarlaust með einhvers konar framreikningum og fengu það stimplað af einhverri nefndinni í kerfinu. Hér var hvergi um snertingu við eðlilegan markað að ræða heldur var eingöngu gert út á ríkissjóð. Því

miður verðum við að játa það, hv. 8. þm. Reykn. og sá sem hér stendur, að við létum þetta viðgangast of lengi. Þessa vitleysu verður að stoppa og nú verður það gert. Við munum þá leyfa innflutning á þurrmjólk til þess að sinna þörfum sælgætisiðnaðarins og veita okkar innlendu framleiðslu samkeppni og væntanlega taka upp um leið sambærilegt verðjöfnunarkerfi og notað er í öðrum ríkjum EFTA. En þeir sem framleiða þurrmjólk fyrir 600 kr. á kg verða annaðhvort að lækka hana niður í eðlilegt verð eða nota hana sjálfir. Þetta eru staðreyndirnar í þessu máli. Að sjálfsögðu verður hagsmuna iðnaðarins gætt með eðlilegum hætti og honum alls ekki fórnað í þessu máli.
    Hitt er rétt að þarna þarf sannarlega að taka í taumana. (Gripið fram í.) Ríkisstjórnin hefur fjallað um þetta mál, já. ( ÓRG: Ég spurði hvort hún hefði tekið ákvörðun.) Ríkisstjórnin hefur fjallað um þetta mál, virðulegi þm. Ég skil það vel að þetta snerti viðkvæma taug hjá hv. þm. sem bar ábyrgð sjálfur á þessu sóunarkerfi. Það er eðlilegt að hann bregðist við með þessum hætti. Og ég beini því til forseta að hann stöðvi þessi frammíköll mannsins.
    Næst spurði hv. þm. um styrkinn til Neytendasamtakanna. (Gripið fram í.) Ég svaraði þegar. ( ÓRG: Nei.) Við munum leyfa innflutning á þurrmjólk og taka upp jöfnunargjöld. Um það hefur verið tekin ákvörðun. ( Gripið fram í: Í ríkisstjórninni?) Ég svaraði þegar. ( Gripið fram í: Þú svaraðir ekkert þegar.)
    Þá kem ég að því sem hv. þm. spurði um Neytendasamtökin. Það er rétt að neytendamálin eru vissulega mikilvægur málaflokkur. Ég hef á síðustu fjórum árum beitt mér fyrir margvíslegum aðgerðum til þess að styrkja réttarstöðu neytenda með nýrri löggjöf og auknu samstarfi við nágrannaríki okkar ásamt því að stuðningurinn við Neytendasamtökin hefur verið aukinn ár frá ári. Nú er því miður óhjákvæmilegur afturkippur í ríkisframlaginu til samtakanna. En á móti vil ég benda hv. þm. á það að félagafjöldi samtakanna hefur sem betur fer á því skeiði sem það hefur notið fósturstyrks frá ríkinu margfaldast. Ég tel að við þær aðstæður sem nú eru uppi verði þeir að taka inn meira af sínum tekjum með félagsgjöldum en áður hefur verið. Baráttan fyrir hagsmunum neytenda á að sjálfsögðu að koma frá grasrótinni en ekki með styrkjum að ofan þó að sjálfsögðu eigi ríkið að leggja þar til sanngjarnar leikreglur og réttlátt eftirlit með þeim til þess að tryggja stöðu neytendanna á markaðnum.
    Ég verð að játa það að mér þykir málflutningur hv. 8. þm. Reykn. í þessu máli lýsa vanmati hans á almennum og heilbrigðum skilningi almennings á fjármálunum. Fyrir níu eða tíu mánuðum, í febrúar á þessu ári, stóð hv. þm. þá sem fjmrh. fyrir ráðstefnu og útgáfu bæklings með heitinu ,,Norræna velferðarsamfélagið á aðhaldstímum``. Þar er fjallað um leiðir til þess að hemja vöxt opinberra útgjalda og koma í veg fyrir hallarekstur hins opinbera. Þar eru ræddar og reifaðar hugmyndir eins og að leggja niður ýmsa opinbera starfsemi, selja ríkisfyrirtæki, bjóða út þjónustuverkefni, hverfa frá ríkisábyrgðum, endurskipuleggja ríkiskerfið, einkavæða ríkisreksturinn o.s.frv. Þetta taldi hv. 8. þm. Reykn. þá mikilsverðar nýjungar í fjármálastjórn og í því starfi sem fram undan væri í endurbótum á ríkjandi fjármálastjórn. Nú leyfir þessi hv. þm. sér að ráðast á ríkisstjórnina fyrir að halda þessu starfi áfram þótt íslenska velferðarsamfélagið lifi nú ekki aðeins aðhaldstíma heldur búi við alvarlegt andstreymi í efnahagsmálum. Hafi fyrr verið talin þörf þá er nú nauðsyn á því að halda þeim umbótum áfram.
    Nei, hv. 8. þm. Reykn. Þingmaðurinn virðist vera af þeirri tegund stjórnmálamanna sem þykjast vera einlægir umbótasinnar, hlynntir umbótunum, en eru svo á móti sérhverri breytingu sem þarf að framkvæma til þess að koma þeim á. Það er til á íslensku orð yfir þetta og það er stutt og laggott. Það er hræsni. Og hv. 8. þm. Reykn. leyfði sér við umræðuna hér fyrr í dag að ráðast að hæstv. félmrh. með ósvífnum og ófyrirleitnum hætti. Slíkur málflutningur dæmir sig sjálfur. Mig langar til þess að rifja upp fyrir hv. 8. þm. Reykn. þegar hann var í gervi hins ábyrga nýmóðins fjmrh. eins og hann vildi láta líta á sig, þá sagði hann og ég vitna enn til fjárlagaræðu hans frá því í fyrra, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Sú skoðun er ríkjandi að traust fjármálastjórn sé undirstaða framfara og í raun sé fjármálastjórnin helsta verkfæri jafnréttisviðhorfa.``
    Þetta var rétt skoðun þá og hún er enn rétt. Heldur hv. 8. þm. Reykn. virkilega að fólkið í landinu sé í einhverjum vafa um það hvort þeirra hafi unnið betur þeim í samfélaginu sem þurfa á samhjálp að halda, hv. 8. þm. Reykn. eða hæstv. félmrh.?