Fjárlög 1992

50. fundur
Fimmtudaginn 12. desember 1991, kl. 23:49:00 (1874)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Hæstv. iðnrh. og viðskrh. sagði hér: ,,Við munum leggja til innflutning á þurrmjólk.`` Hann var spurður að því hvort ákvörðun hefði verið tekin í ríkisstjórninni en skaut sér undan því að svara. Það er alveg nauðsynlegt að það komi skýrt fram hér í þessari umræðu frá hæstv. forsrh. og hæstv. landbrh. hvort þeir eru sammála þeirri skoðun hæstv. viðskrh. að það eigi að leyfa innflutning á þurrmjólk. Ég vil því sambandi vekja athygli á því að skv. 41. gr. búvörulaganna er það alveg skýrt að sá innflutningur er ekki heimill nema Framleiðsluráð staðfesti hann. Þess vegna er það ljóst að samkvæmt gildandi lögum hefur hvorki hæstv. viðskrh. né ríkisstjórnin heimild til þess að ákveða þetta ein og sér og dugir þess vegna ekkert hvað hún ákveður í þeim efnum nema það eigi kannski líka að brjóta lögin í þessu eins og mörgu. Þess vegna vil ég spyrja: Á að flytja hér brtt. um búvörulögin á Alþingi?
    Í öðru lagi er það athyglisvert að þegar kom að því að réttlæta niðurgreiðslurnar á þurrmjólkinni voru Norðurlöndin góð fyrirmynd. En þegar kom að því að reyna að verja hinn hneykslanlega niðurskurð til neytendamála þá voru Norðurlöndin ekki lengur fyrirmynd. Þá skaut hæstv. viðskrh. sér algerlega undan því að nefna Norðurlöndin þar sem aðstoð ríkisins við neytendasmálin nemur hátt á annað hundrað kr. pr. íbúa en verður samkvæmt fjárlagafrv. hér á Íslandi 15 kr. pr. íbúa, virðulegi viðskrh. Ef hæstv. viðskrh. vill vera sjálfum sér samkvæmur ætti hann líka að þola samanburð við Norðurlöndin á sviði neytendamála, en það þolir hann ekki.