Fjárlög 1992

50. fundur
Fimmtudaginn 12. desember 1991, kl. 23:56:00 (1879)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
     Herra forseti. Ég vil í andsvari aðeins upplýsa frekar um það sem rætt hefur verið í framhaldi af furðulegum ummælum hæstv. viðskrh. og það er sú gildandi skipan mála að ákvarðanir um innflutningsmál búvara í landinu heyra undir hæstv. landbrh. Samkvæmt ótvíræðum ákvæðum búvörulaga lýtur allur sá varningur sem samkvæmt skilgreiningu telst búvara á Íslandi ákvæðum búvörulaganna og landbrh. fer með þau mál í samráði við Framleiðsluráð landbúnaðarins hvað það snertir að meta hvort innlend framleiðsla fullnægi þörf. Það er þess vegna þannig að hæstv. viðskrh., hversu mikið sem hann langar til þess og hefur lengi langað að rústa íslenskum landbúnaði, hefur sem betur fer ekki tök á því eða vald á því í þessu tilviki. Og enn frekar tryggja þau lög sem í gildi eru um skipan búvöruframleiðslunnar ótvíræðan forgang innlendra framleiðenda að þessum markaði svo lengi sem þeir leggja til vöruna í nægjanlegu magni og nægjanlega góða þannig að hæstv. viðskrh. verður sem betur fer ekki að ósk sinni í þessum efnum. Og sem betur fer hefur það slys ekki enn hent á Íslandi að þessi málefni kæmust í hendur Alþfl. nema stutta stund að vísu.