Fjárlög 1992

50. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 00:31:00 (1883)

     Guðni Ágústsson :
     Hæstv. forseti.
     Þörf er á varúð víðar en margur skeytir,
     víxlspor eitt oft öllu lífi breytir.
     Þá áhættu samt allir verða að taka,
     og enginn tekur mistök sín til baka
sagði eitt ágætt skáld þessarar aldar. Mér er hugsað til allra þeirra ráðherra sem hafa stigið sín víxlspor, gert sín mistök sem ekki verða tekin til baka, sem ekki verða máð burtu úr hugum þeirra sem særðir ganga um um þessar mundir, sem rétt fyrir jólahátíðina miklu hafa verið hrekktir, smáðir og hæddir með því að samkomulag við þá hefur verið rofið. Það hefur verið komið aftan að þeim. Þeir munu minnast þessara velgerðamanna sinna þó að þeir séu nú á flótta margir hverjir undan eigin ákvörðunum, að reyna að leiðrétta, að reyna að breyta, þá hafa þeir stigið víxlspor sem ekki verða tekin til baka. Þau munu lifa í minni lítillar þjóðar, vakna upp í huga fólksins aftur og aftur og gera það að verkum að ákveðið fólk í þessum sal hefur misst tiltrú, jafnvel svo að það glatar eigin hamingju, verður að forða sér frá þeim verkefnum sem því sjálfu var kannski kærast. Við sjáum þessar sorgir og uppákomur í blöðunum dag hvern.
    Við skulum taka sem dæmi hv. formann fjárlaganefndarinnar nýju, sem nú er horfinn af vettvangi, er ekki með okkur lengur hér í nótt að mér sýnist. Hann hefur látið leika sig þannig, stigið þau víxlspor, að hann á ekki afturkvæmt í hóp félaga sinna í harðri lífsbaráttu þeirra manna sem nú er fastast og harðast sótt að í samfélaginu af ríkisstjórn sem

reynist óvinveitt þeim sem best hafa dugað þessu samfélagi um langt skeið og kannski eru grunnurinn og undirstaðan að velgengni þjóðarinnar.
    Ég hef vissulega samúð með hæstv. félmrh. sem vafrar hér um gólf upp úr miðnætti, full af iðrun og hefur reynt að bera til baka þau óhæfuverk sem áttu sér stað í bústaðnum við Tjörnina eitt desemberkvöld þegar samið var um svikráðin. Þegar ráðherrarnir voru beittir ofbeldi til þess að gangast undir kvaðir sem þeim voru ekki kærar. Það er kannski eðlilegt að hún gangi á fund prestsins í flokki sínum sem hér er staddur á meðal okkar og kann að veita iðrandi börnum fyrirgefningu á slíkri stundu. Það er ekki óeðlilegt og er kannski nauðsynlegt í flokkum stjórnarinnar að þar sé sálusorgari og sem betur fer vill svo til að Alþfl. hefur sinn sálusorgara, séra Gunnlaug af Heydölum austur. Ég veit að þessi hæstv. ráðherra sem hefur misst trúna hjá fólkinu á mikið undir því að séra Gunnlaugur huggi hana á sorgarstundu.
    Mér væri það líka kært af því að mér þykir vænt um hv. formann fjárln. --- og ég sé að hann er vaknaður og kominn á fundinn á nýjan leik --- sem hefur orðið að segja af sér þeim störfum sem hann hefur lagt líf sitt við, að berjast fyrir verkalýðinn, berjast fyrir sjómennina, berjast fyrir þann veika og smáa. En nú hefur þessi hv. þm. úr Keflavík verið færður í önnur föt, honum hafa verið haldnar dýrlegar veislur í herberginu stóra og honum sagt að íslenskt samfélag væri þá á framfaravegi ef sá sterki fengi að dafna, ef sá veiki yrði að láta af sínum kröfum. Honum hafa verið kenndar nýjar lexíur. Það er sorgaratburður, sem dagblöðin hafa birt fréttir um í dag, í lífshlaupi þessa ágæta þingmanns.
    Ágætu þingmenn. Hér er til umræðu fjárlagafrv. sem hvorki er fugl né fiskur. Það er kannski hart, hæstv. forseti, að þurfa að eyða næturfundi í slíkt mál. Ég sé að forseti kinkar kolli mér til samþykkis, þannig að ekki þætti mér ólíklegt að þessi ágæti vinur minn gerði mér þann greiða að ég fengi að ljúka ræðu minni og fundi yrði frestað.
    Þá sit ég uppi með það, hæstv. forseti, að verða að tala um alvarlegasta málið sem hefur komið upp í þessu þjóðfélagi um langt skeið. Ég hygg að þeir elstu menn sem muna þingsöguna muni ekki slíka uppákomu sem er nú og hefur verið rædd í dag. Við stöndum uppi með fjárlagafrv. sem hvorki er fugl né fiskur, frv. sem ekki stenst. Ríkisstjórnin er á flótta. Allar forsendur frv. eru brostnar. Í upphafi gerðum við, stjórnarandstaðan, hæstv. ríkisstjórn grein fyrir að í upphaflegu frv. væru innbyggðar villur, draumórar, áætlanir sem ekki mundu standast. Við áttum að vísu ekki von á að það gerðist fyrir þessi jól að sannleikurinn sem við töluðum um í haust yrði lýðum ljós, að þeir yrðu að viðurkenna í þessum sal að svo hefði verið. Það hefðu verið draumórar, ekki hugsjónamanna, heldur hagfræðinga, manna þar sem stjórnmálamaðurinn hefur ekki komist í gegnum hagfræðinginn en hefur þó ráðið lögum og lofum í þessari ríkisstjórn.
    Frv. byggði á áætlunum um álver, áætlunum um virkjanir o.s.frv. Spilaborg hæstv. iðnrh. er hrunin. Blekkingarvefurinn er öllum augljós og auðvitað spyrja menn: Stafar það af því að hæstv. iðnrh. kann ekki tunguna erlendu svo vel? Nú mun svo vera að hann er vel mæltur og talar tungum þegar því skiptir og betri íslensku en flestir í þessum sal. Eigi að síður sjá allir sem sjá vilja að það er barnalegt hvernig þessum hæstv. ráðherra hefur tekist að blekkja þetta þing, leiða þessa þjóð í gönur, láta hana horfa til himins í væntingum um að eitt álver mundi bjarga þessu þjóðfélagi þegar spilaborgin er hrunin. Þegar ekki voru einu sinni forsendur í heiminum til að slíkt gæti gerst höfðu menn haft vit á því að lesa og spyrja.
    Ríkisstjórnin ætlast til þess að Alþingi láti hafa sig að því háði að afgreiða fjárlög sem ekki standast, fjárlög sem eru óframkvæmanleg. Í taugastríðinu hefur ríkisstjórnin lamið saman nýjan lygavef í líki bandormsins, talið sjálfri sér trú um að hinar og þessar áætlanir um nýja skatta og niðurskurð í útgjöldum næðust fram en við sjáum þær völtu áætlanir hrynja hver af annarri á þessum degi. Umræðan í þinginu og andstaðan úti í þjóðfélaginu blæs áformunum um koll. Ráðherrarnir þola illa mótmæli stjórnarandstöðunnar, þeir standast engan veginn skeytin sem berast utan úr þjóðfélaginu og mótmælin. Þeir standast enn síður það sem er að gerast, að þeirra eigin menn eru að átta sig.
    Sem betur fer er gæfan sú að í þessum flokkum báðum sem ríkisstjórninni ráða eru menn sem ekki beygja sig endalaust í duftið, sem ekki krjúpa fyrir lyginni, sem ekki taka þátt í skrípaleiknum áfram. Þá menn ber að virða. Þeir munu lifa áfram. Þeir munu verða virtir þegar tjaldið að lokum fellur. Það er nefnilega alveg ljóst að stjórnin sjálf er sjúk innan frá. Það er að byrja að gera um sig hið innra með henni. --- Ég sé að glaðnar yfir prestinum, býst við jarðarför fram undan. Er það mjög við hæfi að náinn vinur framkvæmi það verk. Þrátt fyrir það ofbeldi, sem einstakir ráðherrar hafa verið beittir, bila þeir eins og ég hef áður sagt.
    Hér hefur verið farið yfir það í þessari . . . ( Forseti: Ég vil biðja ræðumann að halda áfram ræðu sinni.) Hæstv. forseti, ég þakka það en mér er mikilvægt að hafa hljóð meðan ég tala. Það hefur verið farið yfir það í þessari umræðu í dag hvernig hæstv. félmrh. hefur verið leikinn í þessari baráttu, misst tiltrú þeirra fötluðu, sveitarstjórnarmannanna sem töldu hana baráttukonu, þess sterka stjórnunarstigs í íslensku þjóðfélagi. Ætlunarverkið var á einni nóttu hjá þessari ríkisstjórn að færa heilan milljarð segjandi við sveitarfélögin á Íslandi: Þið hafið grætt svo mikið á þjóðarsáttinni að nú tökum við heilan milljarð og látum ykkur hafa til að bera. Þið hafið burði til þess. Ég hef ekki heyrt það fyrr að Sjálfstfl. bæri svo mikla virðingu fyrir þjóðarsáttinni sem náðist eða viðurkenndi að svo mikill gróði hefði myndast af henni. Þessi aðför ríkisstjórnarinnar sést best á því að 18. nóv. sl. var haldinn samráðsfundur með sveitarstjórnarmönnum. Þar var ekki orði minnst á hvað í vændum var og á árlegri ráðstefnu Sambands sveitarfélaga eru sex glaðbeittir ráðherrar komnir til starfa á Hótel Sögu, halda þar myndarlegar ræður og taka þátt í störfum þess fundar. 22. nóv. á þetta sér stað. Þar brostu þeir við hverjum manni en enginn þeirra sagði frá áformunum, að ætlunin væri að rústa veigamestu tekjustofna sveitarfélaganna. Samt sem áður gerðist það að nokkrum nóttum síðar stóðu þeir að þessum svikráðum. Þá átti það sér stað að ríkisstjórn landsins lagði virkilega til atlögu við sveitarstjórnirnar á Íslandi til þess að færa þessar drápsklyfjar yfir til þeirra án þess að þær fengju tekjustofna á móti. Þetta eru svik sem munu geymd en ekki gleymd.
    Þegar 2. umr. um fjárlög fer fram í þinginu, þá er öllum ljóst að uppgjöf og ráðleysi ríkisstjórnarinnar í fjármálum er algert. Eftir þetta stutta haustþing er stjórnin rúin trausti. Mótmælin dynja yfir, verkföllin eru hafin. Það sem mann undrar þó mest og ég hef hér fyrr minnst á er hvernig margir góðir drengir eru fjötraðir í heljarböndum.
    Ég sagði að verkföllin væru hafin og það eru alltaf alvarleg tíðindi á Íslandi þegar verkföll eru hafin. Nú er einn aðili sem á sök á því. Það eru ráðherrarnir á Íslandi, ríkisstjórnin með aðgerðum sínum og aðgerðarleysi. Þessi ríkisstjórn vegur hvergi að rótum vandans. Hún vafrar um, telur sjálfri sér trú um að hún nái áttum. Spilin eru stokkuð og gefin upp á nýtt en jókerunum fjölgar í lönguvitleysu ríkisstjórnarinnar. Af því að stefnan er röng, af því að ekkert er reynt til þess að ná saman heildstæðri áætlun á nokkru sviði.
    Eins og ég gat hér um á dögunum, þá var það síðasta sunnudag sem helgihugvekja ritstjóra Morgunblaðsins snerist um það, með leyfi hæstv. forseta, að hið íslenska Titanic mundi senn rekast á ísjakann og sökkva. Ég hygg að sá hv. ritstjóri hafi þar verið að vitna til þess og haft í líkingum að íslenska þjóðfélagið væri eins og Titanic, væri að aðvara skipstjórann um að jakinn væri fram undan, kannski ekki jakinn í þeirri eiginlegri merkingu sem við sjáum út við bensínstöðvarnar heldur jaki í eilífum átökum, stríð á milli stéttanna, barátta sem mundi rústa þetta samfélag. ( Gripið fram í: Var þetta í Morgunblaðinu?) Þetta var, hv. þm., í Morgunblaðinu undir leiðaranum síðasta sunnudag. Ég skal játa að það er fyrsta lesefni mitt á hverjum sunnudagsmorgni því að þar talar samviska sem ekki er frosin, sem ekki er samofin því valdakerfi sem nú stjórnar þessum dökkleita flokki, Sjálfstfl. Þar er ritstjóri sem enn er frjáls, yrkir á góðum stundum og skilur íslenskt mannlíf, er ekki í heljarböndum eins og svo margir ágætir drengir um þessar mundir.
    Þetta frv. boðar um 4 milljarða kr. halla. Ég er sannfærður um að eins og frv. er lagt upp á sú upphæð eftir að tvöfaldast. Við sjáum á öllum sviðum undanhaldið. Viðskiptahallinn við útlönd eykst, atvinnuleysið er að aukast. Þúsund Íslendingar fá nú reisupassann frá atvinnufyrirtækjunum. Þeir eru á leið heim til sín til að halda heilög jól við þær aðstæður að vegna aðgerða og aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar er vinnan fokin. Gjaldþrotunum fjölgar, það er ótti og uppgjöf, hv. þm. Egill á Seljavöllum. Ekki í hv. þingmanni því að enn eigum við einhverja von. (Gripið fram í.)
    Klukkan er um það bil að verða eitt og hæstv. heilbrrh. sem ég hélt að hefði fyrir löngu tekið á sig náðir, að hætti forfeðranna, er mættur. Þá hef ég nú haft það fyrir sið að tala við hann undir björtum himni þegar dagsljósið skín.
    En við höfum farið yfir það hér, og eðlilegt er að gera það undir fjárlagaumræðunni, að ríkisstjórnin hefur ekkert heildstætt borið á borð fyrir þessa þjóð. Hún hrekst undan. Fjárlagafrv. er hrunið. Efnahagsaðgerðirnar láta á sér standa. Hún ræður því að vonleysið brýst út. Hvert fyrirtækið á fætur öðru veikist vegna þessa vonleysis. Þar á stærsta sök efnahagsumgjörðin sem fyrirtækjunum er búin. Haldið þið að tekjur ríkissjóðs aukist þegar þúsundir Íslendinga hætta að fá launin sín? Haldið þið að tekjur ríkissjóðs aukist, þegar tugir fyrirtækja loka? (Gripið fram í.) Þegar þúsundir Íslendinga verða atvinnulausir mun það koma enn frekar niður á þeim fjárlögum sem eru í smíðum.
    Ég hef tekið eftir því hvað tekjuöflunina varðar að þar eru hæstv. ráðherrar á flótta. Hæstv. fjmrh., sem er ekki í salnum um þessar mundir og skiptir litlu máli því að ég veit ekki hvort hann heyrir lengur eða sér en ég hef þó séð að þær byrðar eru þungar sem hann ber. Það hygg ég að séu skeytin frá íslenskum sjómönnum, sem kannski í allt of ríkum mæli hafa trúað á flokk hans, að vara hann við. Ég spái því að þar muni í ýmsum tekjuáformum verða undanhald einnig. Það verður ekki bara hæstv. félmrh. sem rekur þessa ríkisstjórn á flóttanum, snýr henni við í vitlausustu málunum. Einstakir þingmenn munu segja: Með sjómannastéttina verður ekki farið með þessum hætti. Þeir munu skilja áður en lýkur að þeir verða að snúa við á mörgum þeim brautum sem þeir hafa markað.
    Ég hef haldið því fram að fjárlagagerðin á þessu einkennilega hausti sé með þeim hætti að það er eins og menn séu að salta í botnlausa tunnu eða hripleka. Þeir bræðurnir frá Bakka í Svarfaðardal stöldruðu þó við við svipaðar aðstæður og sögðu: Gísli, Eiríkur, Helgi. Botninn er suður í Borgarfirði. Þeir fundu orsökina fyrir lekanum en það er meira en sagt verður um ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Þeir segja ekki: Davíð, Friðrik, Sighvatur, þetta er okkur að kenna. Snúum við, stöðvum þessa fjárlagagerð. Reynum að ná mönnum að verki við að smíða eitthvað sem vitrænt er. Tengjum þetta þjóðarsátt, nýrri áætlun, tölum við stjórnarandstöðuna. Hún er öll af vilja gerð, ber meiri ást til íslenskrar þjóðar en það að hún láti sér standa á sama. Hún er tilbúin að draga ykkur að landi og snúa ofan af vitleysunni með ykkur. Því segi ég það og tek undir með hv. 8. þm. Reykn. að það væri vitið meir að snúa sér að því verkefni að segja: Við erum komnir í hnút með þetta, við erum sjálfir að fara á taugum. Við ráðum ekki við verkefnið. Við erum að smíða fjárlög sem ekki standast. Við skulum fara heim, fá vinnufrið, ná samstöðu við stjórnarandstöðuna um þetta og fá hana til liðs með okkur, fá atvinnurekendurna og launafólkið til að setjast niður og gera þjóðarsátt og fjárlög sem geta staðist.

    Ég er sannfærður um að mörgu þarf breyta í íslensku samfélagi og ekki hefur hvarflað að mér sú hugsun að þessir hæstv. ráðherrar og þessi hæstv. ríkisstjórn eigi sök á öllu því sem að er í íslensku samfélagi. Það er mikið, mikið langt frá því. Þingið á sína sök, fyrrv. ríkisstjórnir eiga sína sök, þjóðin sjálf á sína sök. En einhvers staðar verðum við að staldra við og reyna að hugsa af verulegri alvöru með hvaða hætti við getum stöðvað verðbólgu, haldið niðri vöxtum, skapað hér betri lífskjör. Að þessu vildi ég vinna með hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni. Þetta er líka hans eina von til þess að verða endurreistur í musterinu í Keflavík. Þeir munu brjóta myndina af stallinum vegna þess að hv. þm. er genginn í björg með ríkisstjórn sem er á rangri leið, er að vinna óhæfuverk á mörgum sviðum, nýtur ekki trausts verkalýðsins. Hv. þm. á von en þá verður hann að hafa kjark til þess að snúa sér að því að stöðva ríkisstjórnina, ná sátt um að þingið fari heim og menn rífi upp þessa fjárlagagerð og tengi einni allsherjar þjóðarsátt um íslenskt þjóðfélag næstu þrjú til fjögur árin eins og til stóð hjá þeim mönnum sem stýrðu fyrrv. ríkisstjórn.
    Ég er sannfærður um að auðvitað má spara á mörgum sviðum. Ég sé að hæstv. menntmrh. er ekki sofnaður enn þá. Hann stýrir stórum flokki, dýrum flokki peningamála og menntamálin eru fjárfrek. Ég hef t.d. lengi verið þeirrar skoðunar að við séum á rangri leið í menntamálum og með breyttu kerfi gætum við þar sparað mikið. Ég er hér um bil viss um að gamla kerfið, sem hér ríkti í skólum, var miklu betra fyrir nemendurna, skilaði framtíðinni hæfari einstaklingum og var ódýrara í rekstri. Ég er sannfærður um að því metnaðarlitla skólakerfi, sem við því miður rekum nú, mætti breyta vegna þess að kerfið er vitlaust. Ég held að öllum sé hollara, hvort sem það er í leik eða starfi, að kapp ríki, að fólki sé tamið að sýna árangur í verki, skila góðum prófum. Ég er sannfærður um það t.d. hvað bekkina varðar að í sumum bekkjum er fólk sem nær mjög miklum árangri með lítilli fyrirhöfn og svo aftur fólk sem hefur kannski af metnaðarleysi eða áhyggjuleysi dregist aftur úr. Þarna er öllum haldið niðri í meðalmennsku. Ég tel æskilegt að menn tækju upp kerfi þar sem þeir duglegustu fengju að halda áfram sína braut, þeir sem veikari eru væri haldið saman og þeir fóðraðir sérstaklega. Ég man eftir því að í lambhúsunum heima hjá mér var það góður siður ef einhver lömbin fóru að étast úr voru þau sett á sérstakt fóður, fengu sérstaka umhyggju sem gerði það að verkum að þau féllu hvorki fyrir jól né á þorra. Þetta kerfi gæti sparað stórkostlega peninga ef við snerum frá þessu villukerfi sem við höfum ratað í. Ég er líka sannfærður um að ástæðulaust er að kenna öll þau fög sem nú eru kennd í skólum landsins. Þar er búið að búa til mikla flatneskju sem mætti endurskoða. Ég er þeirrar skoðunar að á mörgum sviðum megi spara.
    Hæstv. forseti. Ég ætla að minnast örlítið á landbúnaðarmál og ég tala helst ekki um landbúnaðarmál nema hv. þm. Egill Jónsson sé viðstaddur. ( Gripið fram í: Hann er hérna.) Nú, hann er staddur hér. Alvarlegir hlutir eru að gerast. Því miður hafa miklar vonir verið bundnar við að hæstv. landbrh. hefði hrygg sem ekki bognaði undan ætlunarverki Alþfl. Ég vil fá að vita það hér hjá hæstv. landbrh. hvort hann hefur fallist á að rjúfa búvörulögin með því að hér verði flutt inn ótæpilegt mjólkurduft eins og hæstv. iðnrh. boðaði fyrir stuttu. (Gripið fram í.) Hefur hæstv. iðnrh. fengið samþykki hæstv. landbrh. og Framleiðsluráðs fyrir slíkri aðgerð? Þetta verðum við að fá fram.
    Svik eru víðar og hér hefur verið minnst á það að ein af sparnaðaraðgerðum ríkisstjórnarinnar er að svíkja íslenska bændur um gerðan búvörusamning. Það á að spara 293 millj. og ég sé að blóðið þýtur til höfuðs Agli, hv. þm., yfir slíkum svikráðum. 293 millj. skulu sparaðar, launin skulu færð fram yfir þar næstu áramót. Hér var rakið í ágætri ræðu hv. 7. þm. Reykn. hvað þessi samningur var sársaukafullur, hvað menn fórnuðu miklu og lögðu mikið á sig til þess að koma til móts við ríkisstjórnina. En menn töldu sig líka hafa fengið, og þökkuðu hæstv. fyrrv. landbrh. fyrir, tiltölulega góðan samning. Þess vegna undu

þeir honum en þó var það samningur sem gekk út á það að á einu ári skyldu af þessari stétt hafðar 500 millj. kr. í launatekjur. 500 millj. í launatekjur voru með þeim samningi hafðar af íslenskri bændastétt.
    Nú gerist það að bæta á við 293 millj. í viðbót þannig að þetta eru alvarleg tíðindi og skýlaust brot á búvörulögum. Ég vil vænta þess og ekki trúa öðru en hæstv. landbrh. muni standa fast í fæturna og verja hagsmuni þessarar stéttar sem svo miklu hefur fórnað á síðustu árum og þolir ekki slíkan skell sem þarna er boðaður. Ég vil spyrja hæstv. landbrh.: Hefur hann fallist á þessar tillögur ríkisstjórnarinnar? Hafa þessar tlllögur verið ræddar við Stéttarsamband bænda og hvert er viðhorf ráðherrans til þeirra?
    En fleira er að gerast og við höfum orðið vitni að því í landbn. síðustu daga hvernig svikin ganga á einn veg, ekki síst gegn einni stétt, bændastéttinni. Þar hefur verið tekist á um jarðræktarlögin. Þar hefur það gerst að ríkisstjórnarflokkarnir eða Sjálfstfl. hefur klofnað í afstöðu sinni. Þar hafa mætt þingmenn sem þora, menn sem standa á sinni sannfæringu og láta ekki bjóða sér hvað sem er. Ég er ekki viss um að þeir bognuðu þó að farið yrði með þá í ráðherrabústaðinn eins og ráðherrana á dögunum.
    Við urðum vitni að því í landbn. að formaður nefndarinnar, hv. þm. Egill Jónsson, stóð þar fast og leiddi baráttuna gegn þessari ætlan ríkisstjórnarinnar. Við urðum líka vitni að því að þar mætti varamaður, hv. þm. Ingi Björn Albertsson. Hann var ekkert deigari á þessum fundi en hv. þm. Egill Jónsson. Hann var ekki hlynntur því að fram færu samningsrof, svik á gjörðum Alþingis enda hafa þessir þingmenn og auðvitað nokkrir í viðbót í þessum þingflokki þorað að vera menn, þorað að reisa sig gegn þessu nýja valdi í flokknum. Segja má um þá eins og skáldið sagði um ágæta menn forðum:

    Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
    sjálfstraust til að efast er aðrir trúa,
    djörfung til að mæla gegn múgsins boðum,
    manndóm til að hafa eigin skoðun.

    Það þarf nefnilega manndóm til að hafa eigin skoðun. Það var eins og hv. þm. Egill á Seljavöllum sagði við félaga sína í morgun: Ég er ekki eins og tófan sem skiptir um lit. Því miður hendir það of margan að vera eins og tófan og breyta um lit, vera ljúfir og spakir og fljótir að sættast á vitlausar tillögur. Þeir hafa auðvitað ekki fallist á þá breytingu sem er að verða á flokki þeirra undir nýrri forustu og eru tilbúnir að vera áfram menn, berjast fyrir fólkið sitt og þjóðina sína.
    Ég gerði mér til dundurs og væri kannski fróðlegt undir þessu tungli að fá að lesa nokkrar kvöldsögur. Þær eru mjög við lýði nú, kvöldsögurnar, og þar sem ég sat áðan í sæti mínu þá tók ég hina nýju jólabók, bókina um breytinguna á Sjálfstfl., mér til lestrar. Undir þeim lestri skildi ég hvers vegna þar eru að fæðast menn, kannski hálfgerð jólabörn, sem þora að rísa gegn hinu nýja valdi, menn sem hafa áttað sig á því að hin nýja forusta var ekki kölluð til þess í einum vorleik að skella hv. þm. Þorsteini Pálssyni af baki gæðingsins mikla, sjálfstæðisfáksins sem svo vel hafði riðið hér um grundir. Þetta var ekki bara spurning um að drepa einn mann. Þetta var spurning um völd í íslensku samfélagi. Þetta var spurning um að koma breytingunum til framkvæmda sem þeim eru mikilvægar. Þeir trúðu því og þeir vissu það að hv. 1. þm. Suðurl. og núv. sjútvrh. hafði hlotið gott uppeldi sem landsbyggðarþingmaður um skamma hríð. Hann hafði öðlast skilning á því að íslenskt atvinnulíf þarf að dafna, að hér má ekki færa allt yfir á fáa. Þess vegna var hann tilbúinn til baráttu fyrir eðlilegu efnahagsumhverfi og heilbrigðu atvinnulífi. En því fór nú sem fór. En í þessum kvöldsögum, í bókinni Á slóð kolkrabbans, segir, með leyfi forseta:

    ,,Ég á erindi við þig, drengur minn, segir Nóri. Ég ætlaði að fara að slá á þráðinn til þín. Ég vil bjóða þér samvinnu. Að hjálpa mér við að setja saman bók. Hvaða bók er það? spyr ég. Um mesta áhrifavaldinn í íslensku þjóðlífi í dag, segir hann. Hver er það? spyr ég. Kolkrabbinn, svaraði Nóri.
    Hann er glerfínn upp á gamla móðinn. Þótt hann sé í þykkum ullarfrakka og með trefil um hálsinn er Nóri þannig að hver maður finnur á sér að undir frakkanum muni hann vera í jakkafötum, vesti og með axlabönd. Í menntaskóla man ég aldrei eftir honum án hálsbindis. Þessi maður er bókaður í síðum bómullarnærbuxum með sokkabönd. Hann er auðvitað í skóhlífum.
    Andskoti er hann nú alltaf karlalegur, hugsa ég. En átta mig svo á því að eiginlega er hann ekkert eldri að sjá en þegar hann var um þrítugt. Nú er Nóri loks að nálgast að líta út fyrir að vera á þeim aldri sem hann er.
    Hann sér að ég er ekki sérlega spenntur fyrir því dýri, sem hann nefnir kolkrabba, og segir: Þú færð áhugann þegar þú kynnist honum betur. Hann er mjög mennskur. Stjórnast af græðgi. Óseðjandi græðgi.
    Um hvað ertu eiginlega að tala? spyr ég. Þeir voru tveir, krabbarnir. Þar til nú fyrir skemmstu að hinn varð lasinn og fór að veslast upp. Það tryggði smádýrunum örlítinn frið að stóru skrímslin tvö voru síupptekin við slagsmál sín á milli. Þannig komst eitt og eitt minna dýr á legg án þess að stigið væri ofan á það. En eftir að hinn krabbinn missti heilsuna, var sá friður úti.
    Og nú er veisla hjá Krabbanum,`` segir í þessari jólabók. ,,Fæðið er fjölbreytt. Það eru étin lítil þjónustufyrirtæki, þróunarfélög og annað smælki í forrétt, í aðalrétt eru borin fram skipafélög og flugfélög hvunndags en bankar eru étnir á sunnudögum. Í eftirrétt er gælt við góm með sneiðum af vátryggingafélögum, fjárfestingarfélögum og verðbréfamörkuðum. Á hátíðum og tyllidögum er boðið upp á örlítinn bita af olíufélagi eða smámola af hermangsfyrirtæki með kaffinu. Kallað gullmolakaffi.
    Brauðpokarnir eru orðnir tómir og börnin farin að ókyrrast. Þau horfðu kímileit á þennan furðufugl sem þau höfðu ekki séð áður. Hann var orðinn enn rauðari í framan af allri mælskunni. Það varð úr að ég sendi börnin heimleiðis svo að Nóri gæti haldið áfram að fræða mig um leyndardóma viðskiptalífsins.
    Hvaða skepna er þessi Kolkrabbi? spyr ég. Glúrinn er Nóri. Ég sé strax á augnatilliti hans að hann skilur, um leið og ég sjálfur, að spurning mín markar straumhvörf í samtali okkar þennan skítkalda, reykvíska sunnudagsmorgun. Áhuginn er vakinn og hann getur slakað á.
    Kolkrabbinn er mafía í munni þeirra sem ekki fá að setjast að krásunum en kjölfesta íslensks efnahagslífs samkvæmt kenningum þeirra sem tilheyra útvalda hópnum eða fá að kroppa í það sem hrýtur af veisluborðinu.
    Er þetta þá ekki bara Guðs útvalda hjörð, Nóri minn, spyr ég. Nei, blessaður vertu. Þeir treysta ekki Guði til að velja. Þeir gera það sjálfir.``
    Þannig er það nú, ágætu þingmenn, að þetta er jólabókin í ár. Þetta er kannski bókin sem opnar augu íslenskrar alþýðu fyrir því sem er að gerast í samfélaginu, að banki alþýðunnar er étinn í sunnudagsforrétt af örfáum mönnum. ( Gripið fram í: Hvernig gengur meltingin?) Ég hygg að meltingin, hv. þm., muni ekki ganga sem best því hvaða líf verður í þessu landi þegar hér verða örfáir sem eiga allt, hinir verða flúnir, dánir eða horfnir á braut.
    Ég ætla nú svona hvað líður að ljúka þessum ræðuhöldum og fresta frekari upplestri á kvöldsögunni. En ég átti aðeins eftir að minnast á landbúnaðarmálin örlítið frekar og þá deilu sem þar er komin upp. Ég lagði áherslu á kvöldsöguna vegna þess að þessir tveir

þingmenn og fleiri gera sér grein fyrir því að það gengur ekkert upp að láta örfáa menn éta banka í sunnudagsmat, skipafélög á mánudögum o.s.frv. Hér verður að ríkja lýðræði. Því vil ég spyrja hæstv. landbrh. um það hvort honum sé það ljóst að hér er verið að rjúfa samkomulag sem tókst um jarðræktarlög.
    Svo að ég stytti mál mitt, því ekki hef ég hugsað mér að halda mönnum andvaka yfir svo litlu efni sem þessi fjárlög eru að mínum dómi, en það er svo að ríkisstjórnin ætlar í 4. gr. bandormsins að taka jarðræktarlögin úr gildi. Það eru alvarleg tíðindi og þau tíðindi hafa valdið því að nú er hv. landbn. klofin í fyrsta sinn í áratugi. Og þeim mun alvarlegra er þetta þar sem það hefur gerst að samkomulag náðist fyrir þremur árum og menn töldu að þeir byggju við það samkomulag áfram. Og að auki gerðu menn sér grein fyrir því að þeir hefðu tekið þátt í stórkostlegum sparnaði því að þessi framlög hafa markvisst minnkað eins og sést á þessu súluriti sem hér er sýnt. Voru 1984 yfir 500 millj. en hafa smátt og smátt minnkað, voru árið 1990 95 millj., áætluð 70--75 millj. á þessu ári. En þetta eru alvarleg tíðindi og ég vil spyrja hæstv. landbrh. hvort það sé með hans samþykki að slík afstaða hefur verið tekin í ríkisstjórninni.
    Ég hef það sem mín lokaorð að ég hvet ríkisstjórnina eftir þennan kvöldfund til að halda heim í jólafrí og rífa fjárlagafrv. enn á ný upp, fá til samráðs við sig stjórnarandstöðuna, aðila vinnumarkaðarins og sem flesta í þessu þjóðfélagi til þess að ná hér nýrri sáttargjörð. Það er þeirra eina von til þess að þeir megi áfram sitja sem ráðherrar því ég er sannfærður um það að ef svo fer fram sem horfir þá verður engri ríkisstjórn stætt á því stefnuleysi sem hér ríkir nema rétt út þennan vetur. Þess vegna eru það heillaráð manns sem þykir heldur vænt um þennan stóra hóp ráðherra að þeir endurskoði afstöðu sína þjóðarinnar vegna.