Fjárlög 1992

50. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 01:53:00 (1889)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Vegna spurninga, sem hv. 18. þm. Reykv. beindi til mín, vil ég láta það koma fram að niðurgreiðsla á mjólkurdufti og áhrif þeirrar breytingar að leggja hana niður hafa ítrekað verið rædd á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Nefnd hefur verið að störfum til þess að gera tillögur um það hvernig því ætti að fylgja eftir að niðurgreiðslurnar væru teknar af mjólkurdufti og undanrennudufti til sælgætisiðnaðarins. Þetta þýðir, ef af verður og það er tillagan, að taka þyrfti upp jöfnunargjöld og leyfa innflutning að einhverju marki eins og þegar hefur komið fram í þessum umræðum. Ég endurtek: Þetta mál hefur ítrekað verið rætt innan ríkisstjórnarinnar og nefnd að störfum á vegum ráðuneytanna og með þátttöku fulltrúa iðnaðarins, þ.e. bæði mjólkuriðnaðarins og sælgætisiðnaðarins. Ég vænti þess að þær tillögur muni senn koma fram.