Fjárlög 1992

50. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 02:00:00 (1893)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Við héldum fyrir röskri klukkustund, eftir að hæstv. landbrh. hafði veitt skýrt og afdráttarlaust svar hér í þingsalnum, að þessu máli væri lokið og það þyrfti ekki að tefja umræður meira. Hæstv. landbrh. sagði skýrt að ekki hefði verið rætt í ríkisstjórninni að leyfa innflutning á mjólkurdufti og það yrði ekki gert vegna þess að málið væri á hans forræði.
    Nú kemur hæstv. viðskrh. aftur á móti enn á ný og endurtekur hér í ræðustólnum fyrri fullyrðingar sínar sem við þingmenn töldum að hefðu verið bornar til baka. Það er afar leitt, virðulegi forseti, að tveir ráðherrar hafa flutt svo ólíkar lýsingar á því hvað hafi verið rætt í ríkisstjórn og hver sé afstaða í þessu máli. Ég minni á að í málinu liggur fyrir tillaga sem ætlunin var að afgreiða við 2. umr. fjárlaga. Óhjákvæmilegt er, áður en þessi umræða heldur áfram og til að greiða fyrir henni, að hæstv. ráðherrar, sérstaklega hæstv. landbrh. og reyndar einnig hæstv. forsrh., lýsi í stuttu máli, kannski jafnstuttu og hæstv. landbrh. notaði fyrr í kvöld, hver er staða málsins. Ég beini því þess vegna til hæstv. ráðherra að þeir kveðji sér hljóðs og fái orðið til þess að gera í örstuttu máli grein fyrir afstöðu sinni. Ég tel að það muni greiða fyrir umræðum, virðulegi forseti.