Fjárlög 1992

50. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 02:27:00 (1896)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Það er ekki rétt að í ræðu minni áðan hafi skapast tilefni til viðbótarútgjalda fyrir ríkissjóð upp á 150 millj. einfaldlega vegna þess að um er að ræða endurgreiðslurétt sem fólk á samkvæmt lögum. Það hefði ekki staðist stjórnarskrá að fella afturvirkt úr gildi réttindi. Þetta eru réttindi sem fólkið á, að fá greitt úr ríkissjóði ef það framvísar réttum reikningum frá tannlæknum, og frá því máli verður ekkert hlaupið. Það er því ekki rétt að ræða mín hafi verið ákvörðun um viðbótarútgjöld fyrir ríkissjóð að fjárhæð 150 millj. kr.
    Um ellilífeyrinn er það að segja að við erum að athuga þar útfærslu eftir þremur leiðum. Auðvitað er um að ræða lækkun á bótum. Menn geta hugsað sér að gera það annaðhvort með breytingu á bótakerfinu, en þar koma mjög margar leiðir til greina eða, eins og hv. þm. sagði, með atvinnutekna- eða teknaskerðingu eða með eignaskerðingu. Við erum að skoða þessi mál. Af minni hálfu verðu gert allt sem hægt er til að leggja fyrir þingið frv. um þessi mál áður en 3. umr. fjárlaga fer fram.