Fjárlög 1992

50. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 02:30:00 (1898)

     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég vil, eins og hv. 9. þm. Reykv., þakka hæstv. heilbr.- og trmrh. fyrir sín svör hér áðan. Mín athugasemd er við fyrri ræðu ráðherrans og það eru kannski fyrst og fremst spurningar. Svar sem hæstv. ráðherra gefur hv. þm. Svavari Getssyni á þskj. 191, þar sem hann spyrst fyrir um uppbætur á lífeyri, er því miður ógreinilegt af þeirri ástæðu að í heimildarbótunum 3. mgr. 19. gr. laganna eru tíndir til þeir bótaþegar sem fá greiðslur. Það segir í raun ekkert um hvort útgjöldin hafi aukist. Bótaþegum hefur auðvitað ekki fjölgað. Þetta eru fyrst og fremst bótaþegar sem hafa fengið hækkun vegna aukins lyfjakostnaðar og það er það sem þarf að hafa í huga.
    Í öðru lagi langar mig til þess að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig skýrir hann það að hlutdeild einstaklings í lyfjakostnaði frá því í júní á þessu ári hefur lækkað úr um það bil 38% niður í 25% sem er reyndar staðreynd. Í öðru lagi spyr ég hæstv. ráðherra: Á grundvelli hvaða reglna hyggst hann nú endurgreiða tannréttingar þar sem tannréttingasérfræðingar hafa látið af sinni andstöðu? Spurningin er sú, hvort eru það reglurnar sem ekki náðist samkomulag um sem endurgreitt verður eftir eða fyrri reglur. Það getur auðvitað skipt sköpum fyrir útgjöldin hvor leiðin verður valin. Það er rétt sem fram kom að verði ekki fallið frá þessu bráðabirgðaákvæði sem í bandorminum er þá munu þessi útgjaldatilefni myndast sem hv. þm. Svavar Gestssonar hefur minnst á. En það er loforð fyrri ráðherra,

fyrri formanns tryggingaráðs, núv. formanns tryggingaráðs og ítrekaðar yfirlýsingar núv. hæstv. heilbrrh. að þetta skuli endurgreitt og auðvitað verður við það að standa.