Fjárlög 1992

50. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 02:51:00 (1903)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
     Herra forseti. Ég vil fyrst taka fram í sambandi við búvörusamning að það er vitaskuld rétt að eins og tillögur liggja fyrir er gert ráð fyrir að fresta tveimur greiðslum fram yfir áramót 1992 og auðvitað er það rétt að það er ekki í samræmi við búvörusamninginn. Hins vegar er fullmikið að segja að hann sé brotinn á bak aftur. Ég hef gert formanni sauðfjárbænda og formanni Stéttarsambands bænda grein fyrir þessum tillögum og þeim rökum sem liggja á bak við þær og jafnframt höfum við stefnt að því eftir áramót að hittast til þess að reyna að glöggva okkur á því hvernig staðið verði að beinum greiðslum til bænda, en beina leiðbeiningu um það er ekki að finna í sjálfum búvörusamningnum eins og hann liggur fyrir prentaður.
    Í annan stað tek ég alveg skýrt fram vegna mikilla umræðna út af stuttri ræðu áðan að þegar ég sagði að ekki hefði verið rætt um innflutning á mjólkurdufti var ég beinlínis að tala um þá ákvörðun sem nú er tekin um að taka upp jöfnunargjald á sælgæti og í tengslum við það var ekki rætt um innflutning á mjólkurdufti. Á hinn bóginn hygg ég að bæði í þessari ríkisstjórn og hinni síðustu hafi verið rætt um þá samninga sem við höfum staðið í í sambandi við Evrópskt efnahagssvæði og einnig hefur verið rætt ítarlega um GATT-samningana. Það er auðvitað nauðsynlegt fyrir Íslendinga að gera sér grein fyrir með hvaða hætti þeir vilji standa að jöfnunargjöldum ef og þegar til meiri innflutnings á landbúnaðarvörum kemur en nú er.
    Ég vil í þessu sambandi taka fram að þó að tækist í samningunum um hið Evrópska efnahagssvæði að ná því fram að ekki yrði leyfður innflutningur á Smjörva og Léttu og laggóðu litu þau mál ekki allt of vel út við stjórnarskiptin. Eins er það nú í GATT-samningunum að fyrirsjáanlegt virðist vera að einhver opnun verður á innflutningi á landbúnaðarvörum og þá er auðvitað nauðsynlegt að fara að huga að því hvernig rétt sé að standa að jöfnunargjöldum eða þá tollum. Nefnd er að vinna að þessu á vegum ríkisstjórnarinnar, að reyna að glöggva sig á þessum atriðum og afla upplýsinga erlendis frá um hvernig staðið sé að þessum málum. Ég taldi á hinn bóginn að umræðan hefði einungis snúist um þann þátt þessara mála sem beinlínis snýr að sjálfum fjárlögunum og óhjákvæmilegt er að skilja ummæli mín þeim þrönga skilningi. (Gripið fram í.) Ég hef áður, a.m.k. í viðræðum við bændur, þrásinnis rætt erfiðleikana við það að koma við jöfnunargjöldum og það er meira að segja svo að reynt hefur verið að meta hver fjarlægðarvernd okkar Íslendinga er, t.d. í sambandi við grænmeti, þannig að öll þessi mál hafa vitaskuld komið meira og minna til umræðu og er ástæðulaust að draga einhverjar rangar ályktanir af því. Þetta eru einungis hluti af því umhverfi sem við lifum nú í, að þjóðirnar eru að ýta burt þröskuldum í viðskiptum landa á milli með landbúnaðarvörur, hafa verið að því, og þessi mál eru búin að vera hér í umræðum lengi og öllum flötum í þeim verið velt upp.
    Ég ítreka að í tengslum við þá fjárlagaafgreiðslu sem nú er, þegar ákveðið var að taka upp jöfnunargjald á sælgæti, var ekki rætt um almennan innflutning á mjólkurdufti.