Fjárlög 1992

50. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 02:59:00 (1906)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :

     Virðulegi forseti. Mér fannst ræða landbrh., varðandi það atriði sem hefur verið til umræðu í kvöld, vera alveg skýr. Hæstv. landbrh. staðfesti um það mál sem ég tók til umræðu, þ.e. 100 millj. kr. afnám á niðurgreiðslum á mjólkurdufti og mótmæli iðnrekenda við þeirri ákvörðun, að það hefði ekki verið rætt í ríkisstjórninni í tengslum við þá ákvörðun að heimila innflutning á mjólkurdufti. Það er því alveg ljóst að ítrekuð lýsing hæstv. viðskrh. í umræðunum er röng. Er nú illt í efni að Alþfl. skuli vera á neyðarþingflokksfundi kl. 3 að nóttu til, lokaður inni, gervallur Alþfl., búinn að vera í þrjú korter í þingflokksherberginu. Veit nú enginn hver vegur annan á þeim fundi en hér hefur ekki sést alþýðuflokksmaður í salnum hátt í klukkustund. Það er alveg ljóst að í þessum efnum tók hæstv. landbrh. af skarið þótt hann kysi svo af einhverjum diplómatískum ástæðum, kannski af tillitssemi við forsrh., að fara út um víðan völl með algerlega óskyld mál sem tilheyra í framtíðinni.
    Hitt er óljósara hjá hæstv. landbrh. hvernig hann ætlar að fara með brotið á búvörusamningnum varðandi beinar greiðslur til bænda. Mér heyrðist hann segja að hann ætlaði að taka upp viðræður við forsvarsmenn bændasamtakanna eftir áramót. Það dugir engan veginn, hæstv. landbrh. Niðurstaða þarf að fást í viðræðum við bændasamtökin áður en þessi tillaga kemur til atkvæða á Alþingi með nákvæmlega sama hætti og félmrh. hefur hafið viðræður við sveitarfélögin um það sem að þeim snýr. Það er því krafa okkar að hæstv. landbrh. skili niðurstöðum í viðræðum sínum við bændasamtökin um þetti atriði áður en greitt verður atkvæði um það á Alþingi.