Fjárlög 1992

50. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 03:27:00 (1912)

     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
     Herra forseti. Hæstv. menntmrh. vék að þeim tillögum sem uppi eru um fjárveitingar til rannsókna. Hv. 7. þm. Reykn. hafði vitnað í ræðu hæstv. iðnrh. sem hann flutti hér á dögunum. Þar segir svo m.a.:
    ,,Í fjórða lagi nefni ég, og það er í dag ákaflega mikilvægt, að ríkissjóði er nú brýn nauðsyn að losa fé sem bundið er í ýmsum atvinnufyrirtækjum sem hann á eða á hluta í. Ég tel að hluta af þessu fé sem þannig losnar eigi að leggja í rannsóknir og þróunarstarfsemi sem er grundvöllur nýsköpunar í íslensku atvinnulífi.``
    Hv. 7. þm. Reykn. virðist hafa orðið hált á því að trúa hæstv. iðnrh. eins og fleirum en hæstv. menntmrh. virðist ekki heldur hafa trúað hæstv. iðnrh.