Fjárlög 1992

50. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 04:50:00 (1923)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Nokkuð er áliðið nætur en á einu atriði í máli hæstv. forsrh. langar mig til að fá nánari skýringu. Það snertir þær álögur sem fluttar eru af ríkinu og yfir á sveitarfélög. Í fjárlagafrv. eða þeim tillögum sem því fylgja er talað um 700 millj. kr. Fulltrúar sveitarfélaganna segja sjálfir að það sé einn milljarður. Nú vil ég vekja athygli hæstv. forsrh. á því að markmið hæstv. ríkisstjórnar með niðurskurði ríkisútgjalda var að skapa svigrúm fyrir atvinnulífið, svigrúm fyrir vaxtalækkun með minnkandi spennu á lánamarkaði. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. forsrh., því að ég skil það engan veginn: Hvernig getur það skapað svigrúm á lánamarkaði að flytja milljarð frá ríkinu og dregið úr spennu til þess að lækka vexti? Ég vek athygli á því að stærsta sveitarfélag landsins hefur verið að safna stórauknum yfirdrætti á bankareikning sinn. Og ég fæ þetta dæmi ekki til að ganga upp öðruvísi en svo að þessi tilfærsla verði bara til að auka lántökur sveitarfélaganna. Ég býst við að hv. 1. þm. Vesturl., vanur sveitarstjórnarmaður, geti staðfest það að staða meginþorra sveitarfélaga landsins er þannig að þessar byrðar verða ekki færðar yfir á þau öðruvísi en það komi fram í aukinni lántöku af þeirra hálfu.