Fjárlög 1992

50. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 04:51:00 (1924)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Rétt mun vera að þær byrðar sem lagðar eru á sveitarfélögin munu vera rúmlega 900 millj. kr., 700 millj. í þessum sérstöku aðgerðum og nálægt 200 millj. eða svo í þeim aðgerðum sem tengjast bandorminum. Ég vek jafnframt athygli á því, að þegar ríkið dregur saman þetta stórar fjárhæðir hjá sér þá er auðvitað ætlast til þess að sveitarfélögin geri það einnig þegar þau fá þessa byrði yfir á sig, en taki ekki fjármuni inn með auknum skattheimtum eða auknum lántökum.
    Vegna þess sem hv. þm. sagði um yfirdrátt Reykjavíkurborgar, af vissum ástæðum þekki ég það afskaplega vel, þá er yfirdráttur borgarinnar þannig að hann verður yfirleitt afskaplega hár á tímabilinu september til desember en nálgast síðan núllið á tímabilinu mars til

maí eða júní. Þetta er tiltölulega óveruleg þjónusta sem borgin fær miðað við þá miklu veltu sem hún og hennar fyrirtæki hafa. Yfirdrátturinn hefur verið í hærra lagi hjá borginni nú og helgast af því að innheimta tekna hefur verið lakari en áður. Í annan stað fékk borgin ekki þau lán frá Húsnæðisstofnun sem eiga að fylgja byggingum fyrir aldraða, sem verið er að reisa á Skúlagötunni og gert var ráð fyrir í áætlunum. Og í þriðja lagi komu lægri fjárhæðir inn fyrir sölu eigna vegna þess að borgin ákvað þrátt fyrir það sem var inni í fjárhagsáætlun að selja ekki um sinn húsnæði sem hún keypti á sínum tíma af Sláturfélagi Suðurlands meðan Sláturfélagið er að byggja sig upp. Þessir þrír þættir hafa skapað þennan yfirdrátt. Hann veikir í raun ekki stöðu borgarinnar því að hún tók ekki lán og hún seldi ekki eignir eins og til stóð.