Fjárlög 1992

50. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 05:14:00 (1931)


     Svavar Gestsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Um leið og ég þakka hæstv. félmrh. fyrir svörin þá held ég að svörin hafi einfaldlega staðfest það sem kom hér fram fyrr í kvöld eða nótt í athugasemdum mínum, en hæstv. félmrh. komst þannig að orði að ef ábyrgðasjóðurinn gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar yrði heimiluð lántaka. Það liggur því auðvitað alveg fyrir hvað þarna er á ferðinni. Þarna eru menn auðvitað að ræða um lántökur í tengslum við þessi mál.
    Ég vil hins vegar jafnframt leggja á það áherslu sem fram kom hér í fyrri ræðu minni í nótt að hæstv. forsrh. hefur opnað fyrir þann möguleika í yfirlýsingum í fjölmiðlum að þetta mál verði skoðað sérstaklega við afgreiðslu kjarasamninga þegar þar að kemur. Ég vil þess vegna endurskoða áskorun mína til hæstv. ríkisstjórnar um að hún falli frá þessari sérstöku tillögu um ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot vegna þess að það er vafalaust að afgreiðsla hennar mun spilla fyrir frágangi kjarasamninga ef hún verður afgreidd eins og hún liggur fyrir.
    Ég vil svo í þessu andsvari leyfa mér að nota tækifærið til þess að nefna það sem kom fram hjá hæstv. fjmrh. og segja: Í rauninni er ekkert merkilegt við það þó að þessi umræða taki alllangan tíma. Hér er um afbrigðilegt fjárlagafrv. að ræða. Hér er verið að

leggja inn á braut sem er í grundvallaratriðum allt öðruvísi pólitískt en Alþingi Íslendinga hefur nokkurn tíma áður séð. Það er ekki vegna þess að hér séu fyrst og fremst uppi svo erfiðar ytri aðstæður heldur vegna þess að verið er að reyna að framkvæma hér í þessu fjárlagafrv. pólitík, stjórnmálastefnu, sem hefur sem betur fer til þessa verið framandi Alþingi Íslendinga.