Tilhögun þingfundar

51. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 11:14:00 (1942)

     Guðmundur Bjarnason :
     Virðulegur forseti. Það er aðeins örstutt. Ég vil láta það koma fram að það eru fleiri en þessir þingmenn stjórnarandstöðunnar sem ekki vissu um þessa frestun því að einhvern

grun hafði hv. formaður fjárln. um það að rætt hefði verið um hugsanlega frestun, gat þess um tíuleytið þegar við vorum að fara á þingflokksfund okkar að það væri ekki þingfundur kl. 11 svo að ég bað starfsmenn þingsins í Austurstræti að hringja hingað út --- þeir höfðu nú ekki heyrt neitt um þetta, starfsmennirnir þar. Þeir hringdu á símaborðið og þar hafði enginn hugmynd um að það stæði til að fresta þessum fundi. Starfsmaðurinn í Austurstæti, en ég hlustaði á þessi samtöl því að ég stóð við borðið hjá viðkomandi, hringdi í þingverði á göngum hér og spurði þá um það. Þeir höfðu ekki hugmynd um annað en að hér væri þingfundur að hefjast kl. 11. Eitthvað hefur því verið undarlega staðið að þessu. Þá hringdi ég í formann þingflokks Framsfl. rétt upp úr kl. 10 til þess að spyrja hvort frestað hefði verið þingflokksfundi. Þá hefði formaður þingflokksins ekki haft neina hugmynd um það að fresta ætti atkvæðagreiðslu og ekkert heyrt það orðað eða nefnt fyrr, að það væri frestun á þessum fundi, virðulegi forseti. Ég vildi bara að þetta kæmi hér fram og væri alveg ljóst. ( Gripið fram í: Hvenær verður atkvæðagreiðslan? Spurðu um það hvenær atkvæðagreiðslan sé.) Ja, er hún ekki kl. 1? ( Gripið fram í: Nei. Það er ekkert samkomulag um það.) Ég hef ekkert heyrt um það, virðulegur forseti, og hef ekki um það að segja á þessu stigi frekar en ég hélt að það ætti að vera kl. 1 sem þessi atkvæðagreiðsla færi þá fram. En ég er út af fyrir sig ekki að gera neina athugasemd um það að fundinum sé nú frestað. Við höfum ekkert lagst gegn því. Við erum fyrst og fremst að lýsa undrun okkar á því hvernig hefur gengið til með þessi boð.