Skattskylda innlánsstofnana

51. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 13:26:00 (1948)

     Ólafur Ragnar Grímsson :

     Virðulegi forseti. Ég óska eftir því að hæstv. forsrh., hæstv. samgrh. og einnig formaður þingflokks Sjálfstfl., hv. þm. Geir Haarde, verði viðstaddir þessa umræðu, a.m.k. ræðu mína, og einnig óska eftir því að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, sem hér er í hliðarsal, megi hlýða á umræðuna. Ég væri þess vegna þakklátur að hæstv. samgrh. vildi vera hér viðstaddur mína ræðu og enn fremur hv. þm. Geir Haarde og hæstv. forsrh.
    Hæstv. fjmrh. sagði í ræðu sinni áðan að þetta frv. væri gamall kunningi, svo ég noti hans óbreyttu orð, og hæstv. fjmrh. sagði einnig að þeir þættir sem væru í þessu frv. hefðu orðið viðskila, það voru hans óbreyttu orð, við frv. sem var afgreitt hér árið 1988. ( Gripið fram í: Það er fortíðarvandinn.) Allt er þetta rétt hjá hæstv. fjmrh. En það hefði verið nokkuð skemmtilegt svona í skammdeginu ef hæstv. fjmrh. hefði sagt alla söguna, ef hæstv. fjmrh. hefði sagt okkur frá því hvað sjálfstæðisflokksþingmennirnir sögðu á sínum tíma um þetta frv. og hvernig stóð á því að það sem hér er flutt sem frv. ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar varð viðskila í afgreiðslu þingsins á frv. sem ég flutti haustið 1988.
    Ég verð að víkja nokkrum orðum að þessu því að ég ætla að bera hér fram þá spurningu og mun gera það við hæstv. forsrh.: Hvenær skipti Sjálfstfl. um skoðun í þessu máli?
    Það var þannig í desember 1988 að Sjálfstfl. neitaði að láta afgreiða fjárlagafrv. nema ég drægi til baka öll þessi ákvæði sem Sjálfstfl. leggur nú til að verði samþykkt. Slík var harka Sjálfstfl. á móti þessu sem hann er núna að biðja þingið að samþykkja, að hér stóð í næturstappi og daglöngum þrætum vegna þess að hv. þáv. þm. Halldór Blöndal, Eyjólfur Konráð Jónsson, þáv. formaður Sjálfstfl. Þorsteinn Pálsson og fleiri neituðu algjörlega að greiða fyrir því að afgreiðsla fjárlaga gæti haldið áfram nema ríkisstjórnin drægi alla skattlagningu sjóðanna til baka.
    Ég verð að segja eins og er að stundum hefur maður orðið hissa á þessum haust- og vetrardögum, en þegar lagt var fyrir framan mig á borðið þessi gamli kunningi, svo ég noti nú orðalag hæstv. fjmrh., frv. til laga um skattlagningu innlánsstofnana, nánast óbreytt og orðrétt ( Gripið fram í: Hvað með höfundarréttinn?) eins og ég lagði það fram á sínum tíma þá var ég að velta því fyrir mér hvort ég hefði sofnað og mig væri að dreyma þingið 1988. Nei, nei, ég var alveg glaðvakandi. Þetta var desember 1991, ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, góðan daginn, að leggja fyrir þingið, ekkert útvarp Matthildur í gangi heldur raunveruleikinn sjálfur, gamla frv. sem Sjálfstfl. ærðist svo á móti að hann neitaði að afgreiða fjárlögin nema það væri dregið til baka. Nú kemur Sjálfstfl. og segir: Það er skilyrði okkar fyrir því að fjárlögin séu afgreidd að þetta mál sé samþykkt á þinginu. Og meira að segja gengur Sjálfstfl. svo langt að hann hefur krafist þess nú að þetta mál fari til nefndar fyrir helgi, það er svo brýnt. Ja, skjótt skipast veður í lofti, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson. Ég hugsa að hv. þm. hafi farið líkt og mér þegar hann sá þetta þingskjal fyrir framan sig á borðinu og hann hafi velt því fyrir sér hvort hann væri hér í vöku eða draumi, vöku eða martröð.
    Hvað sögðu sjálfstæðismenn á þingi um þetta frv. á sínum tíma? Nú vil ég óska eftir því að hæstv. samgrh. sé hér í salnum. ( Gripið fram í: Það er nóg að landbrh. sé við.) Já, eða hæstv. landbrh. Halldór Blöndal. Mér þykir nú illt i efni ef hann hefur ekki kjark og þor til þess að vera viðstaddur þessa umræðu því að það er nauðsynlegt að leggja fyrir hann nokkrar spurningar.
    Hv. þm. Halldór Blöndal stóð í ræðustól efri deildar 7. des. 1988 og færði rök að því hvers konar fásinna það væri að ætla sér að skattleggja Framleiðnisjóð landbúnaðarins, Orkusjóð, Hafnabótasjóð og fleira af því sem hér er lagt til að verði skattlagt. Og ekkert var nú fordæmingin á skattlagningu þessara sjóða hjá því að það ætti að undanþiggja Atvinntryggingarsjóð útflutningsgreina þessari skattlagningu. Og hneykslunin yfir því að

mönnum skyldi hafa dottið það í hug að skattleggja Framleiðnisjóð landbúnaðarins á sama tíma og Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina slyppi við skattlagninguna var mjög dramatísk og skýr.
    Síðan lýsir hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson um það bil tveimur vikum síðar, 22. des. atganginum í þessu máli og segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Þetta er orðin hálfgerð kómedía á pörtum, en að vísu hitnaði í gærkvöldi og fram eftir nóttu alla vega svolítið í sumum út af þessu.``
    Hv. þm. Halldór Blöndal segir alveg skýrt: Það er ekkert eðlilegt í sambandi við þessa skattlagningu.
    Síðan segir þingmaðurinn Halldór Blöndal, talsmaður Sjálfstfl. í þessari umræðu, með leyfi hæstv. forseta: ,, . . . ég hef jafnan verið andvígur því og ekki skilið þegar hugmyndir hafa komið fram um að skattleggja fjárfestingarlánasjóði sem eru í eðli sínu stofnanir en ekki viðskiptafyrirtæki . . . ``
    Og síðan segir þingmaðurinn enn fremur að engir af þeim sjóðum sem tilgreindir eru í frv. og hér er aftur að finna í þessu frv. geti talist eiginlegir sjóðir sem beri að skattleggja, og fer síðan út í langar útlistanir á því hvernig eigi að skilgreina grundvallarhugtök.
    Virðulegi forseti. Ég hef óskað eftir því að hæstv. forsrh. sé viðstaddur umræðuna og ég hlýt að óska eftir því að hv. þm. Geir Haarde sé viðstaddur umræðuna og ég hef óskað eftir því að hæstv. samgrh. sé viðstaddur umræðuna. ( Forseti: Forseti vill upplýsa að hann hefur gert ráðstafanir til þess að kalla eftir þessum hv. þm. í salinn og við skulum vona að það líði ekki langur tími þar til þeir verða hér við.) Ég þakka hæstv. forseta fyrir það en vek athygli á því að hæstv. samgrh. Halldór Blöndal var hér en hljóp síðan út þegar hann komst að raun um það hvað var hér á dagskrá. Kom til mín hér, stóð við ræðustólinn og fékk að kíkja á það hvaða frv. ég var að tala um og strunsaði síðan beint út úr salnum, forðaði sér. Er það virkilega þannig að forusta Sjálfstfl. þori ekki að vera í salnum þegar þetta frv. er rætt? Hér eru tveir þingmenn frá Sjálfstfl., hæstv. fjmrh. sem hefur tekið að sér að flytja þetta hér inn á þingið, og síðan höfuðandstæðingur málsins 1988, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson. ( EKJ: Við Friðrik reddum þessu.) Við Friðrik reddum þessu, segir hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson. Það verður væntanlega sams konar redding og síðast, hv. þm., þ.e. að henda frv. ( Fjmrh.: Vertu ekki svona sár.) Ég er ekkert sár, hv. þm. Það er mikill misskilningur. Ég er bara ekki enn þá kominn að því að hæla ráðherranum fyrir að flytja frv. Ég hef ekkert skipt um skoðun, hæstv. fjmrh., og er þess vegna ekkert sár, þvert á móti. Það er í mér fögnuður, en mig langar til að vita hverjum ég á það að þakka að Sjálfstfl. hefur skipt um skoðun. Og ég vil fá að vita hvenær þeir þingmenn Halldór Blöndal, Eyjólfur Konráð Jónsson og Geir Haarde, sem hér fóru með mjög afdráttarlausar yfirlýsingar í garð þessa máls á þinginu 1988, skiptu um skoðun. Og mig langar til þess að vita það frá hæstv. forsrh., formanni Sjálfstfl., hvenær Sjálfstfl. skipti um skoðun á þessum málum. Því að þetta var það frv. sem Sjálfstfl. sagði um við mig: Fjárlögin verða ekki afgreidd ef þetta fer áfram. Svo stórt var það. Nú er það hér saklaust frv. ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Hv. þm. Geir Haarde sagði á sínum tíma, hæstv. fjmrh., ég ætla að rifja það upp:
    ,,Það er hins vegar í samræmi við annan málatilbúnað hæstv. ríkisstjórnar að hún skuli --- taka þarna inn ýmsa þá sjóði sem ríkið leggur nú til meiri part síns fjármagns en þannig kom þetta frv. fram í upphafi í efri deild, en hefur nú sem betur fer verið breytt.``
     Og hv. þm. Geir Haarde segir einnig í desember 1988 að ,,vafist hefði fyrir færustu lögfræðingum að gera út um það hvaða sjóðir væru þess eðlis að unnt væri að skattleggja þá með sama hætti og aðrar lánastofnanir.`` Og gerir síðan mikið grín að því að það

hafi ekki fundist neinn lögfræðingur sem gat skilgreint þetta með sómasamlegum hætti. Það er þess vegna eðlilegt að ég spyrji: Hvar eru þeir lögfræðingar sem núna hafa skilgreint þetta þannig að hv. þm. Geir Haarde, formaður þingflokks Sjálfstfl., telji viðunandi? Það er auðvitað fullkomlega óviðunandi að forusta Sjálfstfl. þori ekki að sýna sig hér í salnum. Þetta er hinn mikli dagur atkvæðagreiðslu við 2. umr. um fyrsta fjárlagafrv. ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar.
    Það er ekki hægt, virðulegi forseti, að una því að við séum að ræða hér stjfrv. þar sem fyrir liggur í þingskjölum algjör og afdráttarlaus andstaða Sjálfstfl. við málið og við fáum engar skýringar frá forustu Sjálfstfl. hvað valdi. Hæstv. fjmrh. gaf engar skýringar á því hvers vegna Sjálfstfl. hefði skipt um skoðun, hvorki í framsöguræðu sinni né í þeirri sakleysislegu ræðu sem hann flutti hér áðan þar sem hann góðlátlega talaði um frv. sem gamlan kunningja sem hefði orðið út undan með saklausum hætti í efri deild á sínum tíma.
    Hv. þm. Geir Haarde sagði 22. des. 1988:
    ,,Ég vek hins vegar athygli á því að frv., eins og það var lagt fram, var illa undirbúið af hálfu fjmrn. . . . Í því voru ákvæði sem ekki var búið að kanna til hlítar hvort fengju staðist.``
    Nú vill svo til að það frv. sem hér er lagt fram er nánast alveg það sama. Og er þá ekki eðlilegt, hæstv. forseti, að ég vilji gjarnan fá að spyrja núv. formann þingflokks Sjálfstfl., sem ber ábyrgð á því að þingflokkur Sjálfstfl. samþykki að frv. sé lagt fram vegna þess að það er ekkert stjórnarfrv. lagt fram á Alþingi nema þingflokkar stjórnarflokkanna samþykki það, að ég spyrji þennan hv. þm.: Hvað nú? Hann fordæmdi frv. 22. des. 1988 á þeim forsendum að það væri illa undirbúið og í því væru ákvæði sem gætu ekki staðist. Hefur hv. þm. Geir Haarde skipt um skoðun?
    Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég óska eftir því að þessari umræðu sé frestað, ég fái að gera hlé á ræðu minni og þessari umræðu sé frestað. Ég læt ekki bjóða okkur það að þegar við sitjum hér til kl. 5.30 í morgun til þess að greiða fyrir því að ríkisstjórnin komi sínum málum áfram, mætum svo til nefndarfunda sum okkar kl. 8 og kl. 9 í morgun, komum svo hér til fundar kl. 11, reiðubúin að fara í atkvæðagreiðslu, en ríkisstjórnin kýs síðan að fresta henni, að þegar við setjum fram þá frómu ósk að örfáir af forustumönnum Sjálfstfl. geti verið hér í salnum í eins og 10 mínútur til þess að við getum rætt þessi mál, þá sé ekki orðið við þeirri ósk. Og ég fer formlega fram á það við forseta að ég fái að gera hlé á ræðu minni og umræðunni verði frestað þangað til þessir forustumenn Sjálfstfl. sem við viljum fá að tala við hér í salnum og hæstv. ráðherrar láta svo lítið að koma hingað, þó ekki sé nema í 10--15 mínútur. Það er enginn að biðja um það að þeir séu hér langdvölum en við viljum fá fáeinar mínútur til þess að tala við þá. ( Forseti: Forseti vill taka það fram að hann hefur þegar gert ráðstafanir til þess að hv. þm. og hæstv. ráðherrar sem tilgreindir hafa verið komi í salinn, en hér er hæstv. fjmrh. reiðubúinn til þess að svara því sem spurt er einkum og sérstaklega um varðandi þetta frv. En áfram er sjálfsagt að gera ráðstafanir til þess að tilteknir hv. þm. komi hingað í salinn. Það er eðlilegt.)
    Virðulegi forseti. Áður en ég held áfram ræðu minni, þá þarf ég að tala við þessa hv. þm. í nokkrar mínútur. Mér þykir mjög leitt að ég verð að endurtaka það sem ég hef verið að reyna að segja hér. Ég hélt að þeir væru á leiðinni í salinn og hélt þess vegna áfram ræðu minni. En hæstv. samgrh. fór nú út og ég ítreka þess vegna þá ósk mína að ég fái að gera hlé á ræðu minni þangað til þessir hæstv. ráðherrar og þingmenn geta verið viðstaddir í svona 10--15 mínútur. Ég skal lofa því að halda þeim ekki lengur. En mér finnst fullkomlega óeðlilegt að ég sé þvingaður til þess að halda áfram ræðu minni við þessar aðstæður þegar við gerum nánast allt sem hægt er til þess að greiða fyrir því að ríkisstjórnin geti komið sínum málum áfram. ( Forseti: Forseti ítrekar það að gerðar hafa verið ráðstafanir til þess að hv. þm. séu hér í salnum, en vill eindregið óska eftir því að ræðumaður haldi áfram sinni ræðu svo að mál geti gengið hér fram með eðlilegum hætti.) Virðulegi forseti. Það er bara ekki sanngjarnt að rökstyðja ósk forseta með því ,,til þess að mál geti gengið áfram með eðlilegum hætti``. Ég ætlaði ekkert að tala langt mál um þetta frv. En ég hef orðið að lengja ræðu mína núna í 15--20 mínútur meðan ég hef verið að bíða eftir því að þessir þingmenn og ráðherrar kæmu í salinn. Það er fullkomlega óeðlilegt að fara að setja nú á mig þá þvingu að nú skuli ég halda áfram og eyða þar með mínum tíma og tækifærum, tala hér lengur en ég ætlaði mér, þegar ég er að biðja um það að umræðunni sé frestað þangað til þessir hv. þm. geta komið í salinn. Það er fullkomlega eðlileg ósk, hæstv. forseti. Það er enginn að tala um það að tefja þessar umræður. ( Forseti: Forseti vill taka fram að það er ekki um það að ræða að umræður séu tafðar en ef hv. þm. gæti sætt sig við það að gera hlé á ræðu sinni og gefa öðrum þingmönnum tækifæri til þess að taka til máls, þá mundi forseti gera það ef þingmaðurinn fellst á það.) Já, ég get gert það.