Fjárlög 1992

51. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 14:05:00 (1952)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um atkvæðagreiðslu) :
     Virðulegi forseti. Ég verð að játa að ég skildi ekki alveg hvað hæstv. forsrh. var að segja hér áðan. Þess vegna vil ég bera fram þá ósk að hæstv. forsrh. endurtaki það sem hann sagði og fari kannski aðeins hægar með textann svo við getum numið hin raunverulegu efnisatriði. Það er afar óvenjulegt að forsrh. kveðji sér hljóðs í upphafi atkvæðagreiðslu við 2. umr. fjárlaga --- ég held að það hafi aldrei gerst áður --- og flytji einhvers konar pólitíska skýringu ríkisstjórnarinnar á atkvæðagreiðslunni.
    Til þess að við sem erum ekki alveg innvígðir í skilning ríkisstjórnarinnar á eigin stöðu og eigin verkum vitum hvað er hér í raun og veru að gerast og getum þá hagað okkur í samræmi við það, þá vil ég óska eftir því að hæstv. forsrh. í fyrsta lagi endurtaki aðeins hægar það sem hann sagði hér í ræðustólnum og kannski skýrði aðeins nánar hvað hann átti við.