Fjárlög 1992

51. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 16:03:00 (1997)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
     Virðulegi forseti. Ég vil benda á það að í áliti landbn. sem hún sendi hv. fjárln. við afgreiðslu þessa máls kemur eftirfarandi fram --- og ég vil taka það fram að landbn. stóð einhuga að afgreiðslu þessa máls til fjárln. --- en þar kemur fram um lið 04-201, með leyfi forseta:
    ,,Á undanförnum árum hefur farið fram endurskoðun á starfsemi Búnaðarfélags Íslands vegna breyttra aðstæðna í landbúnaði. Aukinn var hlutur bænda í greiðslum til félagsins með tilliti til þeirra verkefna sem sérstaklega tengjast hinum félagslega þætti landbúnaðarins. Hlutdeild ríkissjóðs í rekstri Búnaðarfélagsins voru sett skýrari mörk er miðuðust við 31 stöðugildi og nauðsynleg rekstrargjöld. Þessi kostnaður nemur samkvæmt tilvitnuðu samkomulagi 88 millj. 815 þús. fært til verðlags fjárlagafrv. Fjárlagatillögur Búnaðarfélagsins voru í samræmi við þetta samkomulag. Tillögur landbrn. tóku meira mið af áherslum ríkisstjórnarinnar um lækkun ríkisútgjalda en þær nema 78,5 millj. kr. Er það svipað og var í fjárlögum þessa árs að krónutölu.``
    Virðulegi forseti. Um leið og nefndin áréttaði þetta samkomulag þá benti hún á að réttara væri að setja liðinn öðruvísi upp í fjárlagafrv. Í öðru lagi benti landbn. á það að í þessu frv. var ekki tekið á óútkljáðu deilumáli Búnaðarfélagsins og fjmrn. um lífeyrisgreiðslur starfsmanna Búnaðarfélagsins.
    Á þetta vil ég benda við þessa atkvæðagreiðslu, virðulegi forseti, að meiri hluti fjárln. tók ekkert tillit til þessarar samróma niðurstöðu hv. landbn. Með tilliti til þessa hafa þingmenn Framsfl. ákveðið að sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu.