Fjárlög 1992

51. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 16:09:00 (1999)

     Jón Helgason (um atkvæðagreiðslu) :
     Hæstv. forseti. Fjárveiting til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins er samkvæmt breytingu sem gerð var á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum árið 1987. Byggðist sú breyting á þeim búvörusamningi sem þáv. ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. gerði við Stéttarsamband bænda og er árið 1992 síðasta árið sem kveður á um slíka greiðslu samkvæmt núgildandi lögum.
    Í fyrsta skipti er talan í fjárlagafrv. ekki í samræmi við ákvæði laganna, eða innan við helming þess. Hér er því um að ræða eina af ákvörðunum ríkisstjórnarinnar við gerð fjárlagafrv. sem ekki er í samræmi við gerða samninga eins og fram kemur í áliti landbn. til fjárln.
    Nú hefur ríkisstjórnin ákveðið að draga nokkrar slíkar tillögur sem fram voru komnar til baka til 3. umr., eins og við höfum m.a. orðið vitni að hér í dag, til þess að tóm gefist til að endurskoða þær fram að þeim tíma. Vil ég vona að það verði einnig gert við þessa tillögu og því taka þingmenn Framsfl. ekki þátt í þessari atkvæðagreiðslu.