Fjárlög 1992

51. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 16:49:00 (2015)

     Gunnlaugur Stefánsson :
     Virðulegi forseti. Það er sannarlega ástæða til að bera af sér sakir, enda þungum sökum sem ég er borinn hér af hv. þm. Agli Jónssyni. Ég vil segja það aftur að þegar við ræddum þetta á fyrsta fundi, og þeim eina fundi sem ég tók þátt í og var boðaður á á réttum tíma, þá ákváðum við að fresta málinu þar. Hv. þm. Egill Jónsson lagði þar til ákveðna skiptingu og við ræddum hana saman en við ákváðum að fresta málinu og afgreiddum það ekki þá. Það var ákveðið að halda fund aftur seinna og sá fundur var ekki einu sinni tímasettur á þessum fundi. Síðan öfluðum við okkur upplýsinga, nánari upplýsinga um það hvaða afleiðingar þessi skipting kynni að hafa. Og hv. 2. þm. Austurl. getur staðfest það hér af því að hann tók þátt í viðræðum með mér við hæstv. fjmrh. og hæstv. heilbrrh. strax að loknum fundi þingmanna Austurl. þar sem var verið að leita upplýsinga um þetta mál. Og þá tilkynnti ég forustumanni þingmanna í kjördæminu, hv. 2. þm. Austurl., strax þann sama dag að ég mundi standa að afgreiðslu meiri hluta fjárln. Ég tilkynnti honum það formlega, og það getur hv. 2. þm. Austurl. staðfest, strax eftir að þessar upplýsingar sem ég lýsti hér áðan lágu fyrir. Ég óska eftir því að hv. þm. Egill Jónsson hafi nú það sem sannara reynist.