Fjárlög 1992

51. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 17:34:00 (2027)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um atkvæðagreiðslu) :
     Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér skiljanlegt að hæstv. forsrh. láti í ljósi þá frómu ósk hér að hann telji sig hugsanlega vera tilbúinn með sína ríkisstjórn um miðja næstu viku. Það veit nú enginn á þessari stundu.
    Það hefur komið fram í dag að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur ekki meiri hluta í atkvæðagreiðslum til þess að lýsa yfir afdráttarlausum stuðningi við meginhluta fjárlagafrv. Það eru auðvitað stóru tíðindi dagsins og ég ætla ekki að gera kröfu til þess til hæstv. forsrh. að hann fari hér og nú að svara því hvernig hann hyggst bregðast við þeirri stöðu. Hann er auðvitað mjög alvarlegur fyrir tiltölulega nýjan forsrh. og nýja ríkisstjórn, sá veikleiki sem hér hefur komið fram.
    Ég vænti þess að hæstv. forsrh. noti helgina til þess að íhuga þetta mál og stöðuna í heild sinni og komi síðan eftir helgina og ræði þær niðurstöður og þær ályktanir sem hann hefur dregið af því sem hér hefur gerst í þingsalnum í dag. Ég vakti athygli á þessu fyrir um það bil hálfri stundu síðan eftir að hin einstæða atkvæðagreiðsla um 4. gr. fjárlagafrv. hafði farið fram. Þá tók hæstv. forsrh. undir þá ósk að gera hlé á fundinum vegna þess sem hér hafði gerst og hún var skiljanleg. En ég ætla ekki að knýja hæstv. forsrh. hér og nú til þess að fá fram þá alvarlegu ályktanir sem hann hlýtur sem forsrh. með sjálfsvirðingu að draga af því sem hér hefur gerst.