Fjárlög 1992

51. fundur
Föstudaginn 13. desember 1991, kl. 17:35:00 (2028)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (um atkvæðagreiðslu) :
     Virðulegi forseti. Mér fannst reyndar í fyrri ræðunni hér fyrir stundu hv. þm. og stjórnmálaprófessor skjóta mjög yfir markið með kröfum sínum um að ríkisstjórnin segði af sér vegna þess að tillaga hefði ekki verið samþykkt með meiri hluta atkvæða. Mér fannst það vera fráleitt og afar sérkennilegt og þingmaðurinn í rauninni verða sér dálítið til skammar, bæði sem þingmaður og fræðimaður. Honum vil ég því segja það að ég hef engar áhyggjur af þessari atkvæðagreiðslu. Það er traustur meiri hluti fyrir fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar eins og hefur sýnt sig í þeim atkvæðagreiðslum sem hér hafa átt sér stað og það mun sýna sig einnig við afgreiðslu fjárlaganna.
    Vegna þess sem hv. 1. þm. Austurl. sagði, þá stendur ekki á okkur að hraða þessari vinnu og gera þetta jafnvel fyrr heldur en ég nefndi áður, sem yrði þá í síðasta lagi. Ég vænti þess að við getum átt gott samkomulag og sátt um þá vinnuaðferð og málatilbúnað allan.