Fjárlög 1992

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 10:33:00 (2036)

     Frsm. minni hluta fjárln. (Guðmundur Bjarnason) (um þingsköp) :
     Hæstv. forseti. Fyrsta dagskrármálinu, sem er tekið fyrir á þessum fundi, hefur nú aftur verið frestað og því óska ég að fá að segja örfá orð um gæslu þingskapa.
    Það er ljóst að mál hafa þróast þannig seinustu dagana að ekki hefur verið hægt að standa við ákvæði 25. gr. laga nr. 55 frá 31. maí 1991, um þingsköp Alþingis, og þá sögu þurfum við ekki að rekja í löngu máli. Umræða um fjárlög hefur staðið yfir seinustu daga í þinginu og reyndar má líka segja seinustu nætur. Seinustu sólarhringar hafa farið í þessa umræðu og hefur hún auðvitað gengið hægar fyrir sig en ella hefði verið ef undirbúningurinn hefði verið með öðrum hætti, tillögur ríkisstjórnar hefðu legið fyrr fyrir fjárln. til umfjöllunar þar þannig að hægt hefði verið að ganga í þá umræðu með öðrum hætti en gert var auk þess sem það kom auðvitað fram við umræðuna sjálfa að þær tillögur voru þannig undirbúnar að ekki var samstaða um þær hjá hæstv. ríkisstjórn og hjá stjórnarliðum og hafa verið boðaðar ýmiss konar breytingar á þeim fyrirhuguðu aðgerðum í umræðunni. Þannig sýnist okkur ýmislegt vera enn í lausu lofti hvað þessa umræðu varðar og enn þá algerlega óljóst hvenær 3. umr. getur í raun farið fram þó að hún sé nú hafin samkvæmt lögum um þingsköp Alþingis og hafi nú þegar verið frestað.
    Í svari hæstv. forsrh. í gær við fyrirspurn frá hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni um það hvenær hugsanlegt væri að 3. umr. færi fram kom fram hjá hæstv. forsrh. ef ég skildi hann rétt að ríkisstjórnin gæti verið tilbúin með sínar tillögur og hugmyndir um miðja næstu viku, hvernig ætti að taka á þeim málum sem boðuð hafa verið. Þá sýnist mér að fjárln. muni þurfa tíma til að fjalla um þau mál ef þau verða ekki tilbúin til þess að koma þangað inn fyrr en um miðja viku. Ég vil gera þann fyrirvara á aftur sem ég gerði reyndar í umræðunum í fyrrinótt að ég vænti þess að ef stjórnarandstæðingum þykir þá nauðsynlegt vegna upplýsinga um mál að fá aðila til viðtals við nefndina vegna þeirra breytinga sem þá kunna að verða fyrirhugaðar, þá verði stjórnarandstæðingum ekki meinað það eins og gerðist með mjög stuttum fyrirvara fyrir 2. umr. Þetta vil ég setja fram í fullri vinsemd og bara árétta þann fyrirvara sem ég setti fram í umræðunum áður. Þetta verður auðvitað að skýrast þegar við sjáum hverjar fyrirhugaðar aðgerðir eða ráðstafanir verða. Við vitum það ekki í dag en það er þó talað um að falla frá hugmyndum um breytingar á málefnum fatlaðra. Það er hins vegar talað um það nú að taka upp nýjan og afar veigamikinn málaflokka og færa yfir á sveitarfélögin, þ.e. löggæsluna í landinu. Og af því að tveir hæstv. ráðherrar eru mættir til fundar nefni ég þetta því ég tel að þar sé ekki síður um veigamiklar breytingar að ræða á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem verður þá að

gefa sér tíma til að huga að.
    Í öðru lagi vil ég nefna það, hæstv. forseti, að í tilvitnaðri 25. gr. þingskapalaga segir m.a. svo, með leyfi forseta:
    ,,Efnahags- og viðskiptanefnd skal gera grein fyrir áhrifum skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs fyrir 3. umræðu.``
    Nú vitum við það að 5. liðurinn á dagskrá er tekjuskattur og eignarskattur sem er auðvitað veigamikið mál sem á núna að fjalla um í þinginu. Það er ekki enn komið til hv. efh.- og viðskn. sem á algerlega eftir að fjalla um það og fleiri tekjufrumvörp fyrir 3. umr. fjárlaga og fyrir þá umræðu verður þessi hv. nefnd að hafa skilað sínum álitum til fjárln. sem þá á auðvitað eftir að fjalla um tekjuhlið frv.
    Þetta vildi ég láta koma fram hér, virðulegi forseti, vegna þess að hin formlega umræða getur ekki hafist eins og þingsköp kveða á um.