Fjárlög 1992

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 10:46:00 (2040)

     Hjörleifur Guttormsson (um þingsköp) :
     Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með þeim hv. þm. sem hafa gagnrýnt málsmeðferð af hálfu forsætisnefndar þingsins og hæstv. forseta að standa þannig að máli að það er í rauninni gengið gegn ákvæðum 25. gr. þingskapa, varðandi 3. umr. fjárlaga. Það er auðvitað ekki boðlegt að ætla að túlka þingsköpin þannig að með því að taka 3. umr. fjárlaga á dagskrá og fresta henni síðan sé búið að uppfylla þau skilyrði sem sett eru í 25. gr. þingskapalaga. Satt að segja er hörmulegt að verða vitni að því, ekki aðeins einu sinni heldur iðulega, að stjórn þingsins virðir ekki þingsköpin meira en svo að menn reyna hér að fara á svig við þau með einum og öðrum hætti. Þetta er síðasta dæmið og það er mjög eðlilegt að því sé mótmælt harðlega af hálfu okkar þingmanna.
    Ég nefndi það í gær að dagurinn í dag er samkvæmt starfsáætlun þingsins ætlaður sem síðasti starfsdagur þingsins fyrir jólahlé og við þingmenn höfum ekki fengið neina nýja endurskoðaða starfsáætlun af hálfu forsætisnefndar þingsins og það hefur ekki orðið vart við það í rauninni að forusta þingsins hafi haft viðleitni til þess að uppfylla þá starfsáætlun sem kynnt var hv. þm. í upphafi þings. Ég hlýt í þessu sambandi að minna á það að varað var við því í forsætisnefnd sl. sumar að það væri verið að setja upp áætlun með þeim hætti sem þá var gert, þ.e. að leysa upp fundi þingsins í vikutíma eftir þriggja eða fjögurra vikna starfstíma, þ.e. í lok október eins og gert var í rauninni algerlega að ástæðulausu og setja þannig það markmið í hættu sem var miklu meiri ástæða að leitast við að standa við, að þingið lyki störfum á skaplegum tíma fyrir jólahald. En þetta hefur ekki verið gert og það hefur ekki verið haft fyrir því að senda þingmönnum nýja starfsáætlun um breytingar og það hefur enginn lokadagur verið nefndur af forustu þingsins. Til hvers er að vera að setja upp áætlanir af þessu tagi, virðulegur forseti, þegar ekki er viðleitni til þess að standa við þær? Ástæðurnar fyrir þessu eru auðvitað þær að forusta ríkisstjórnarinnar og starfslið hennar hér og þinglið hennar á Alþingi leggur ekki fram málin. Það hagar ekki vinnu í nefndum þannig að það sé í raun staðið við þær áætlanir sem fram hafa verið lagðar. Ég vísa þar að sjálfsögðu til hvernig haldið hefur verið á undirbúningi fjárlagagerðar og það má vel vera að frívikan í lok október hafi tafið vinnu fjárln. Ég geri ráð fyrir því að það hafi verið að einhverju leyti og það er langt síðan slakað var út í þessu efni með því að seinka 2. umr. fjárlaga og blasti auðvitað við að ekki yrði staðið við ákvæði laga um það að hefja hér 3. umr. svo marktækt væri á tilsettum degi samkvæmt þingskapalögum.
    Þetta er mjög alvarlegt. Það er mjög alvarlegt að finna að ekki er ekki haldið þannig á málum af forustu þingsins, forustu ríkisstjórnarliðsins í þinginu að viðleitni sé til þess að standa við það sem sett var fram í byrjun þings sem voru ágæt markmið út af fyrir sig þó að þar væri teflt á tæpasta hvað snertir starfstíma að mati okkar fulltrúa stjórnarandstöðunnar í forsætisnefnd meðan við áttum þar sæti. Þetta vil ég að komi fram um

leið og ég gagnrýni það hvernig gengið er á svig og gengið er gegn 25. gr. þingskapalaga með þeirri tilhögun sem viðhöfð er í sambandi við 25. gr. og 3. umr. fjárlaganna.