Fjárlög 1992

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 10:51:00 (2041)

     Frsm. meiri hluta fjárln. (Karl Steinar Guðnason) (um þingsköp) :
     Hæstv. forseti. Vegna þess að ýmis mál eru enn óafgreidd í fjárln. og var frestað til 3. umr. er ekki fært að hefja þá umræðu á tilsettum tíma. Það er öllum hv. þm. ljóst og því óskaði ég eftir því við forseta að umræðunni yrði frestað. Það má deila um formið á því hvernig að því var staðið en ég á von á því að mönnum ætti að vera ljóst hvað þar er á ferðinni.
    Ég vil hins vegar upplýsa vegna þess að menn tala oft eins og hlutirnir séu að gerast í fyrsta sinn og heimur versnandi fari á hverju ári að við afgreiðslu síðustu fjárlaga kom fram að fjöldamörgum málum var frestað til 3. umr. og fleiri og viðameiri en núna. Það kemur fram í ræðu hv. fjárveitingarnefndarformanns frá því í fyrra að hafnarmálum var þá frestað og síðan segir hann, með leyfi forseta:
    ,,Einnig er ástæðan sú að í fjárlfrv. boðaði ríkisstjórnin ýmsar breytingar á tekjuhlið sem tengjast einnig gjaldahliðinni. Þessar breytingar eru enn ekki fram komnar og bíða 3. umr. að skoða hvernig með skuli fara. Þá bíða einnig 3. umr. málefni byggingarsjóðanna, málefni Þjóðleikhúss, bæði rekstur og óskir um viðbótarfé til framkvæmda, málefni Þjóðarbókhlöðu og Bessastaða, þyrlukaup, jarðræktarframlög, sérstakar greiðslur til Framleiðnisjóðs vegna viðbótarkostnaðar, vegna riðuveikiniðurskurðar og nokkur fleiri mál.``
    Síðan er getið um stærsta málið, þ.e. málefni Tryggingastofnunar en þau mál afgreiddum við í gær. Við vorum að reikna það saman áðan í fjárhæðum hverju hefði verið frestað og það var mat okkar að frestað hefði verið upphæðum sem nema nálægt 30 milljörðum en hafa verið um 40 milljarðar í fyrra.
    Ég vil líka geta þess að óskir komu fram frá stjórnarandstöðunni um frestun ýmissa liða sem við höfðum verið reiðubúnir til að afgreiða en þó situr það eftir að mál hafa ekki gengið hraðar fyrir sig. Það er þó alveg ljóst að vinnan í fjárln. hefur gengið vel og ég vænti þess að undirbúningur fyrir 3. umr. muni líka ganga vel og við verðum tilbúnir svo fljótt sem unnt er, líklega á miðvikudag eða fimmtudag, þó sennilega frekar fimmtudag.
    Mér finnst í lagi að upplýsa um mál sem einnig kom fram í gær. Mikið mál var gert út af því að það var minni hluti þingmanna sem samþykkti 4. gr. og hér var sagt í stólnum að þetta væri einsdæmi, allt að því heimssögulegur viðburður. Það er nú reyndar ekki svo því að árið 1988 var 4. gr. fjárlaga samþykkt með 31 atkv. eða með minni hluta atkvæða. Þá var fjmrh. Ólafur Ragnar Grímsson.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri en bið menn að skilja það að svona standa mál. Þetta eru sameiginlegir erfðleikar alls þinsins á þessum stutta tíma. Auðvitað má freista þess að gera betur. Við teljum okkur vera að vinna að því og það verður gert í framtíðinni en ég vænti þess að ekki verði langar ræður til þess að rífast um þetta formsatriði sem menn vita að ekki er hægt að uppfylla vegna sérstakra aðstæðna.