Fjárlög 1992

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 10:56:00 (2042)

     Pálmi Jónsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Það er gagnrýnt að 3. umr. um fjárlög skuli eigi fara fram í dag. Hún er á dagskrá samkvæmt þingskapalögum og má segja að hún hefjist í dag en henni er þar með frestað vegna þess að eigi er unnt að ljúka afgreiðslu fjárlaga við 3. umr. eins og nú standa sakir.
    Út af fyrir sig geta menn gagnrýnt þetta. En í raun vita menn betur að aðstæður eru þannig og það er engin nýlunda að ekki sé hægt að ljúka afgreiðslu fjárlaga á þessum tíma. Ég vil minna á það að við meðferð þingskapalaganna gagnrýndi ég það og taldi mjög vafasamt að setja í lög ákvæði um hvenær 3. umr. fjárlaga skyldi fara fram. Þessar efasemdir mínar áttu auðvitað rætur sínar í þeirri reynslu sem ég hef af því að sýsla við umfjöllun um fjárlagafrv. og hvernig hefur til tekist á undanförnum árum. Ég er nú búinn að sitja í því verki nærfellt tvo áratugi.
    Ég vil svo aðeins undirstrika það sem fram kom hjá hv. formanni fjárln. að ekki er um neina nýlundu í vinnubrögðum að ræða. Þó að m.a. hafi hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, hæstv. fyrrv. fjmrh., talað með þeim hætti að fjárlagafrv. væri í rauninni ekki hæft til 2. umr. er ekkert sem gerist nú eða gerðist við 2. umr. sem er ekki í líkingu við það sem gerst hefur áður. Það var einkum gagnrýnt að geymdir væru til 3. umr. liðir eins og rekstur framhaldsskóla, rekstur háskólastofnana, ríkisspítalar og sjúkrahús á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kölluðu menn höfuðþætti fjárlagafrv. Vissulega eru þetta stórir liðir en samtals nema þessir liðir ásamt uppgjörsmálunum um 16--16 1 / 2 milljarði kr. Af þessum liðum er í raun ekki verið að fást við afgreiðslu á nema nokkrum hluta, nokkrum smærri undirliðum í þessum málaflokkum.
    Eins og fram kom hjá hv. formanni fjárln. beið við afgreiðslu fjárlaga í fyrra til að mynda einn liður sem í útgjöldum nam 25 milljörðum kr. Sá liður hefur verið afgreiddur nú. Þetta er Tryggingastofnun ríkisins. Ýmsir aðrir liðir biðu þá og stundum hafa við fyrri fjárlagagerð beðið liðir ásamt Tryggingastofnun ríkisins svo sem ríkisspítalar sem eyða um 6 milljörðum kr. miðað við núverandi áætlun og margir útgjaldafrekir liðir sem hafa valdið því að það sem beðið hefur 3. umr. hefur kostað miklu meira í útgjöldum en það sem nú bíður 3. umr. Þetta bið ég menn að hafa í huga. Þetta er auðvitað hægt að taka saman ef menn kjósa og ef þeir sem staðið hafa fyrir málum á fyrri árum tala með einhverjum geislabaug eins og nú sé verið að vinna með allt öðrum hætti heldur en áður hefur gerst. Það er bara tal fyrir þá sem ekki eru kunnugir, tal fyrir fjölmiðlamenn sem líta svo á að einhver nýlunda sé á ferðinni.
    Gagnrýnt hefur verið að starfsáætlun þingsins er ekki fylgt. Ég man eftir því á síðasta þingi að 2. umr. fjárlaga fór ekki fram í samræmi við starfsáætlun þingsins og 3. umr. fór heldur ekki fram í samræmi við starfsáætlun þingsins og ég gerði sem oddamaður í stjórnarandstöðu enga athugasemd við það. Ég tók þátt í því starfi sem var verið að vinna og gerði ekki ágreining þó að ég sæi fyrir fram að áætlunin gat ekki staðist.
    Ég skal, virðulegi forseti, ljúka máli mínu en það er ekki nýlunda að ríkisstjórn hafi þurft tíma til þess að undirbúa sín mál eins og nú er. Og það er ekki síst á fyrsta ári ríkisstjórnar sem það hefur gerst margsinnis að þurft hefur að bíða nokkuð í sambandi við afgreiðslu fjárlaga eftir að mál kæmu frá ríkisstjórninni og það er í samræmi við það sem margsinnis hefur gerst áður.