Fjárlög 1992

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 11:02:00 (2043)

     Valgerður Sverrisdóttir (um þingsköp) :
     Hæstv. forseti. Ég get tekið undir það með nokkrum hv. þm. sem hér hafa talað að þegar það ákvæði var sett inn í þingskapalögin að 3. umr. skyldi ekki hefjast síðar en 15. des., var hugsunin náttúrlega sú að raunveruleg umræða hæfist ekki síðar en þann dag. En nú háttar þannig til að við stöndum frammi fyrir þeim vanda að hún getur ekki hafist í raun í dag. Þess vegna varð það að samkomulagi á samráðsfundi þingflokkanna með forseta þingsins að þessi háttur yrði hafður á, málið yrði tekið hér á dagskrá en því strax frestað og það var túlkun embættismanna hv. Alþingis að það yrði meðhöndlað á þann hátt að þegar málið kemur næst á dagskrá, þá héti það framhald 3. umr. og það nægði til þess að uppfylla skilyrði þessarar greinar þingskapalaga. Enda gerði hv. 1. þm. Norðurl. e. ekki athugasemd við það í sínu máli áðan að sá háttur yrði hafður á að málinu yrði strax frestað. Þetta vildi ég bara að kæmi hér fram að full samstaða var um þessa meðferð málsins á meðal þingflokksformanna og hæstv. forseta þingsins.