Fjárlög 1992

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 11:10:00 (2046)

     Svavar Gestsson (um þingsköp) :

     Virðulegi forseti. Ég segi það fyrir mitt leyti að ég tel að forseti hafi engan kost átt annan en þann, miðað við gildandi lög í landinu, að setja 3. umr. fjárlaganna á dagskrá í dag. Það mál liggur nú svo einfaldlega þannig að það er skrifað niður í lögum landsins. Hitt er alveg ljóst að undirbúningur málsins af hálfu forsrh. og ríkisstjórnarinnar er auðvitað með eindæmum og það sem kemur fram í þeim efnum og skiptir máli núna við þessa umræðu er fyrst og fremst það að efh.- og viðskn. þingsins á að skila áliti á skattaþætti fjárlaganna á tilteknum tíma. Það hefur hún ekki gert. Það eina sem frá efnahagsnefnd þingsins hefur frést í þessu efni er það að einn nefndarmanna hennar hefur hótað að kæra ríkisstjórnina fyrir álagningu jöfnunargjalds.
    Núna í vikunni skrifar Verslunarráð Íslands bréf til formanns efh.- og viðskn. Alþingis Matthíasar Bjarnasonar. Þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Verslunarráð Íslands sér ekki að greiðendur jöfnunargjalds eigi önnur úrræði, verði gjaldið enn framlengt, en að leita réttar síns fyrir dómstólum og láta reyna á það hvaða réttarstöðu fríverslunarsamningarnir veita. Verslunarráð Íslands mun veita félögum sínum aðstoð í þessu skyni.``
    Og undir þetta ritar --- hver? Það stendur nafnið Vilhjálmur Egilsson undir þessu, framkvæmdastjóri, hann er líklega í vinnu þar, en svo stendur það nafn nefnilega líka hér á þessu blaði: Vilhjálmur Egilsson, 5. þm. Norðurl. v. Þingmenn Sjálfstfl. eru því farnir að skrifa hver öðrum innan nefnda. Þingmaður Sjálfstfl. í Norðurl. v. hótar að kæra ríkisstjórnina og skrifar hv. 1. þm. Vestf. þetta bréf. Og þessi veruleiki er sú staðreynd sem gerir fjárlagaafgreiðsluna hér afbrigðilega. Og það gildir einu hversu margar tölur hv. 2. þm. Norðurl. v. reynir að leggja saman og bera saman við fyrri ár. Það gildir einu. Hinn pólitíski veruleiki er sá að ríkisstjórnarliðið hefur verið sundrað í þessum málum. Þess vegna hafa menn ekki lent hlutunum með eðilegum hætti og það er þess vegna sem veigamiklum málum, pólitískum málum, var frestað frá 2. umr. til 3. umr. Það er auðvitað sá grundvallarvandi sem ríkisstjórnin bersýnilega stendur frammi fyrir. Þess vegna ber að gagnrýna fyrst og fremst verkstjórnarleysi forsrh. í þessum málum öllum, í því hvernig hann hefur haldið á málum að undanförnu og ekki tekist að halda á málum með eðlilegum hætti. Það er gagnrýnivert fyrst og fremst.
    Ég tel í sjálfu sér að sú staðreynd hafi komið ákaflega skýrt fram hér í gær þegar minni hluti Alþingis afgreiddi 4. gr. fjárlaganna. Það var mjög athyglisvert, sérstaklega þegar um er að ræða ríkisstjórn sem sagðist hafa meiri hluta við 36--37 menn þegar lagt var af stað sl. vor. Það er mjög athyglisvert, svo og þetta bréf hv. þm. Vilhjálms Egilssonar. Að ég tali nú ekki um hitt bréfið sama dag, undirritað af sama Vilhjálmi Egilssyni þar sem ráðist er að öðrum greinum frv. til laga um tekjuskatt og eignarskatt, sem hver er að flytja? Ríkisstjórnin. Og hver er ríkisstjórnin? Hann sjálfur er ríkisstjórnin svo lengi sem hann ekki segir sig frá henni. Það er þessi sérkennilega staðreynd sem blasir við Alþingi og menn eru að gagnrýna og spyrja: Hvernig í ósköpunum eigum við að taka á málum hér á Alþingi með eðlilegum hætti þegar þingmenn eru að skrifa sjálfum sér hótunarbréf um það að kæra sjálfa sig fyrir æðstu dómstólum landsins. Það er vissulega nýlunda, virðulegi forseti, hvað sem öðru líður hér.