Skolphreinsun

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 11:29:00 (2051)

     Flm. (Gísli S. Einarsson) :
     Hæstv. forseti. Þetta mál sem flyt er hluti af þeim málum sem eru talin hvað mikilvægust meðal þjóðarinnar. 86% af þjóðinni greiddu því atkvæði að þetta væri það sem bæri að leggja mesta áherslu á, þ.e. umhverfismál. Tillagan lýtur að skolphreinsun og hún er svona:
    ,,Alþingi ályktar að skipaður skuli samstarfshópur til að hanna skolphreinsibúnað sem hæfi íslenskum aðstæðum. Starfshópnum verði einnig falið að gera kostnaðaráætlun fyrir skolphreinsibúnaðinn og kanna möguleika íslensks fyrirtækis til að framleiða slíkan búnað í mismunandi stærðum sem henti sveitarfélögum og iðnfyrirtækjum á Íslandi þar sem úrgangur fer í einhverjum mæli í holræsakerfið og þaðan út í umhverfið.``
    Í greinargerðinni er tekið á nokkrum atriðum sem ég vil gjarnan leggja meiri áherslu á með því að aðeins hafa orð á þeim. Þessi ályktun er flutt til að koma því til leiðar að búnaður sem hæfi íslenskum aðstæðum verði hannaður af Íslendingum og hann geti einnig nýst þeim sem búa við lík skilyrði og við í nágrannalöndum okkar, t.d. Grænlendingum, Færeyingum og Norðmönnum. Seinna í greinargerðinni kemur fram að flm. telja nauðsyn bera til að hraða þessu og þörf á að kanna bestu kosti í þessum málaflokki og ná árangri með sem minnstum tilkostnði. Yfirleitt er umræðu um þessi mál drepið á dreif með ótímabærum fullyrðingum um að hreinsun skolps sé of kostnaðarsöm. Þetta er atriði sem ég vil að sé skoðað.
    Hæstv. forseti. Þessi ályktun sem hér er lögð fram er viðleitni í þá átt að koma hreyfingu á framkvæmdir í málaflokknum sem hér er fjallað um. Það er mismunur milli sveitarfélaga í því í hversu góðu ástandi þessi mál eru, en e.t.v. er réttara að segja að ástandið sé yfirleitt mjög slæmt. Það þarf varla að lýsa því að íslensk sjávarpláss hafa þróast út frá höfnum og byggðin teygst eftir strandlengju út eða inn með fjörðum. Venjulega liggur aðalgata í gegnum byggðina, meginholræsin í aðalgötunni og þvergötur í þorpum og bæjum eru flestar stuttar og holræsin liggja stystu leið til sjávar og í fæstum tilvikum ná

úthlaup út fyrir stórstraumsfjöruborð. Útkoman er bæði sjáanleg mengun og mælanleg í formi mikils gerlamagns.
    Íslendingar eru matvælaframleiðendur, bæði í fisk- og kjötiðnaði. Frá þessari vinnslu berst mikil mengun og á mörgum stöðum þarf að gera miklar úrbætur. Reikna má með að 20--30 tonn af vatni þurfi til vinnslu á einu tonni af slægðum bolfiski í hefðbundinni vinnslu. Hátt hundraðshlutfall roðs og fisktægja o.fl. rennur í mörgum tilvikum beint í sjó fram. E.t.v. er unnt að lýsa því þannig að í sjávarþorpi þar sem framleitt er úr 4.000 tonnum af fiski fari um það bil 200 tonn af úrgangi til sjávar. Oft er þessi úrgangur mjög klórmengaður þannig að nauðsyn er einnig á að athuga minnkun vatnsnotkunar og þar með klórnotkunar í fiskvinnslu. Þá má enn fremur athuga möguleika þess að nota útfjólublátt ljós í stað klórs.
    Mengun við strendur landsins og í ám og vötnum vegna frárennslis er meiri en menn hafa gert sér ljóst en eru að vakna til vitundar um nú á allra síðustu árum. Þessi skýring tel ég að verði að fylgja með þessari ályktun.
    Ályktunin sem hér er lögð fyrir AlÞingi tengist reglugerð nr. 386/1989. Mjög hefur verið fjallað um þessi mál víða um land og menn hafa því miður ýtt því frá sér með fullyrðingum um að kostnaður við úrbætur sé óyfirstíganlegur. Þessum fullyrðingum vil ég mæta með rökum og freista þess að hrekja þær.
    Með þessari ályktun er ekki verið að leggja til að finna upp hjólið. Verið er að leggja til að hafin sé vinna að því að leysa þetta stórmál á grundvelli þekktra aðferða sem skilað hafa góðum árangri víða um heim. Það er verið að leggja til að hannaður verði skolphreinsibúnaður fyrir íslenskar aðstæður og notuð til þess sú þekking sem er til staðar hér á landi. Fjölmargar verkfræðistofur hafa fengist við þessi mál. T.d. er búnaður í smíðum á lokastigi í vistvæna bænum Hvolsvelli sem margir telja að muni skila fullnægjandi árangri jafnvel þó að aðeins sé notaður helmingur þess mannvirkis sem áætlað er að byggja og innan við helmingur þeirra fjármuna sem í heild eru áætlaðir til verksins.
    Mér er kunnugt að hægt er að nota skolphreinsi við stöðuga hreinsun eða við tímabundna hreinsun, jafnvel tengt árstíðum. Unnt er að smíða svona búnað sem miðast við 30 íbúa eða færri upp í 70--100 þúsund manna byggðir. Nauðsyn þess að framleiða svona búnað er ótvíræð.
    Að leggja skolplagnir út fyrir stórstraumsfjöruborð er víða óframkvæmanlegt á Íslandi vegna hafróts, sandfyllingar og tilfærslu efnis á grunnsævi. Þetta eru ríkar ástæður til að útbúa hreinsibúnað á landi og leiða síðan meinlaust skolp í fjöruborð á auðveldan hátt. Ég vil, með leyfi forseta, vitna í grein eftir Aðalstein Þórðarson efnafræðing sem er er í 3. tölublaði Sveitarstjórnarmála 1991. Þar segir svo:
    ,,Skolphreinsi er hægt að nota stöðugt og til frambúðar eða árstíðabundið. Hann er heppilegur þar sem búast má við mikilli og skyndilegri aukningu skolprennslis. Hönnun skolphreinsis leyfir uppsetningu til bráðabirgða þar sem síðan er hægt að flytja kerfið og setja upp á nýjum stað.
    Þar sem skolp er hvorki eitrað né mengað hættulegum efnum má auk þess koma skolphreinsi fyrir í fráveitukerfi ýmiss konar starfsemi. Sem dæmi má nefna mjólkurbú og sláturhús, matvæla- og niðursuðuverksmiðjur, fiskverkunar- og frystihús, fiskimjölsverksmiðjur, fiskeldisstöðvar, bændabýli og gróðurhús, orlofsbúðir og sumarbústaðahverfi, tjald- og hjólhýsasvæði, iðnaðarhverfi o.s.frv.``
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að kafa djúpt í tæknilýsingar eða efnabreytiferli við meðhöndlun skolps í umræddum búnaði heldur að hvetja til þess að okkar færustu mönnum, t.d. frá Iðntæknistofnun og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, verði falið að leysa þennan vanda á skjótan og viðráðanlegan hátt. Mér er kunnugt að fyrirtækið Sérsteypan, sem er dótturfyrirtæki Sementsverksmiðjunnar, framleiðir steypueiningar sem eru sýru- og seltuvarðar sem mundu henta mjög vel til þessa.
    Hugsanir manna í þessum málum hafa hingað til mest tengst því að lausn sé að

finna með rotþróm og grófhreinsun eða dælingu á haf út. Rétt er að vara við að rasa um ráð fram því að ef menn fara í lausnir sem eru dýrar en ekki varanlegar er verr af stað farið en heima setið. Lífræn lausn sem hér er fjallað um er varanleg og líklega besti kosturinn. Flm. telja að það verði að vinna skipulega og markvisst að þessum málum. Eftir að hafa rætt við allmarga sveitarstjórnarmenn er lagt til að fjármögnun frumaðgerða eigi að takast af óskiptum Jöfnunarsjóði sveitarfélaganna, sbr. greinargerð ályktunar.
    Flm. leggja til að umhvrh., umhvn. og stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga verði fengin þessi ályktun til vinnslu því að brýna nauðsyn ber til að marka þessu málefni ákveðna stefnu þannig að sveitarfélög lendi ekki í basli með mismunandi hagkvæmar lausnir.
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að hafa fengið tækifæri til að flytja þetta mál. Máli mínu er hér með lokið. Að sjálfsögðu vísa ég þessu máli á hefðbundinn hátt til síðari umr. og umhvn.