Skolphreinsun

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 11:39:00 (2052)

     Rannveig Guðmundsdóttir :
     Virðulegi forseti. Hér er hreyft mjög mikilvægu máli og brennandi máli í sjálfu sér fyrir sveitarstjórnir og ég vil þakka 1. flm. fyrir að hafa hreyft þessu góða máli hér á Alþingi og er mér mikil ánægja að því að vera meðflm. að því.
    Þrátt fyrir það að frárennslismálin séu mjög brennandi fyrir sveitarstjórnir og mjög dýr og mikill málaflokkur í þeirra fjárhagsáætlanagerð er það svo að þau fá ekki mjög mikla umfjöllun og eru ekki þau mál sem er haldið mest á lofti í kosningabaráttu eða við kosningaundirbúning þó að vissulega þekkist það að þau séu sett fram og mikilvægi þeirra tíundað. Þróunin í þeim málum sem hér er hreyft, hreinsibúnaði, hefur verið mjög hægfara hér á landi þó að það hafi í einhverjum mæli verið tekið upp hjá sveitarfélögum að koma fyrir slíkum stöðvum. Þótt átak hafi verið gert í sjálfum frárennslismálum sveitarfélaga hefur allt of lítið verið um að hreinsistöðvar komi inn í þann þátt, en það er mjög mikilvægt þegar verið er að vinna að áætlanagerð og skipulagi í frárennslismálum sveitarfélaga að gera sér grein fyrir því fyrir fram hvort hreinsistöðvar, því að þær eru dýr þáttur, komi inn í frárennslismálin eða hvort verið er að vinna að frárennslismálunum á hefðbundinn hátt. Og ég segi þetta þar sem ég hef komið að slíku máli því að ekki eru mörg ár síðan í Kópavogi var unnin tíu ára áætlun í frárennslismálum. Ég verð að upplýsa það hér að sennilega kom það flestum okkar á óvart hversu mjög dýr þáttur og þungur í fjárhagsáætlun næstu ára sá hluti varð. Þar var miðað að því að taka og endurvinna skolpfrálagnir meðfram nesinu, Kársnesinu, beggja vegna, og veita því síðan út fyrir stórstraumsfjöru. Þetta verk er langt komið en á þeim tíma sem það var unnið voru hreinsistöðvar skoðaðar. Bæði höfðum við tækifæri til að kanna það í vinabæ okkar, Norrköping, og einnig var farið ofan í þetta mál frá mörgum hliðum og kannað hjá þeim sem með þessi mál vinna hér heima.
    Hreinsistöðvar geta, eins og kom fram í máli framsögumanns, verið allt frá miklum grófhreinsistöðvum og upp í lífrænar stöðvar, en það er alveg ljóst að jafnframt þessu verða að vera litlar stöðvar við verksmiðjur og þar sem efnaskolp kemur út í frárennslið. Þetta er mikið notað erlendis og ekki síst í innborgum og bæjum þar sem ekki er auðvelt að koma skolpinu til sjávar. Við höfum búið þannig að okkar þéttbýliskjarnar eru gjarnan meðfram ströndinni og það hefur verið einfalt og auðvelt mál fyrir okkur að veita skolpinu til hafs.
    Í umfjöllun undangenginna ára um umhverfismál og mikilvægi þessara mála og þeirra efna sem hleypt er til hafs höfum við hins vegar öll orðið mjög meðvituð um það að okkur er ekki sama um á hvern veg skolpinu er skilað til sjávar. Þess vegna er það mjög mikilvægt fyrir okkur að kannað sé hvernig þessum málum verði best fyrir komið á sem einfaldastan og ódýrastan hátt þannig að sveitarstjórnir taki þetta mál sem sjálfsagðan hlut í sinni áætlanagerð og skoði hugsanlega hreinsistöð meðfram í upphafi áður en þessi mál eru unnin vegna þess að þetta eru svo dýr mál, bæði frárennslismálin og líka

skolphreinsistöðvarnar, að ef farið er í upphafi út í hefðbundna þáttinn og hin sveru rör er oft kominn svo mikill kostnaður að fólk bætir ekki hreinsistöðvunum við. Það eru fáir sem gera sér grein fyrir hvað munar miklu að mjókka rörin.
    Ég mátti til að koma hér upp og bæta aðeins í þessa umræðu og þakka 1. flm. fyrir þetta góða mál.