Samningur um hefðbundinn herafla í Evrópu

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 12:14:00 (2061)

     Frsm. utanrmn. (Eyjólfur Konráð Jónsson) :
     Herra forseti. Ég mæli hér fyrir áliti utanrmn. um till. til þál. um að Alþingi heimili ríkisstjórninni að fullgilda samning um takmörkun vígbúnaðar á sviði hefðbundinna vopna í Evrópu sem undirritaður var í París 19. nóv. 1990. Samningurinn tekur gildi tíu dögum eftir að öll aðildarríki samningsins hafa fullgilt hann. Að nefndaráliti utanrmn. standa allir nefndarmenn, níu talsins.
    Nefndin fékk á sinn fund til viðræðna um málið Gunnar Pálsson sendiherra og Arnór Sigurjónsson varnarmálaráðunaut og gerðu þeir m.a. grein fyrir skuldbindingum íslenskra stjórnvalda varðandi eftirlit með framkvæmd samningsins á Íslandi.
    Nefndin mælir með að Alþingi heimili ríkisstjórninni að fullgilda samninginn, enda má segja að hann marki tímamót í öryggismálum Evrópu. Samningurinn er fyrsti samningur um takmörkun vígbúnaðar á sviði hefðbundinna vopna frá heimsstyrjöldinni síðari. Markmið hans er að skapa jafnvægi á sviði hefðbundinna vopna á meginlandi Evrópu en misvægi á þessu sviði hefur verið ein helsta ögrunin við frið og stöðugleika í álfunni á undanförnum fjórum áratugum. Til þess að ná þessu markmiði kveður samningurinn á um stórfelldari niðurskurð vopna en dæmi eru til um. Flest þessara vopna eru í eigu þeirra ríkja sem áður voru í Varsjárbandalaginu, en samningurinn byggist á þeirri meginreglu að sá aðili sem yfirburða nýtur skuli skera niður hlutfallslega meiri vopn en hinn aðilinn.
    Einnig tryggir samningurinn að ekkert eitt ríki geti haft undir höndum meira en um það bil þriðjung samningsbundins vígbúnaðar í hverjum flokki innan samningssvæðisins, þ.e. Evrópu. Mikilvægi samningsins helgast þó ekki einvörðungu af fjölda vopna þeirra sem útrýmt verður eða þeim skorðum sem einstökum ríkjum eru settar með tilliti til hernaðaruppbyggingar. Með samningnum er lagður nýr hornsteinn að skipan öryggismála Evrópu þar sem samkeppni á hernaðarsviðinu víkur fyrir öryggispólitískri samvinnu ríkja í álfunni. Samningurinn hefur jafnframt mikla pólitíska þýðingu fyrir nýfrjáls ríki Mið- og Austur-Evrópu. Samningurinn bannar m.a. aðildarríkjunum að hafa herlið í öðrum aðildarríkjum án samþykkis þeirra sjálfra.
    Gagnkvæm og ítarleg skipan á öryggismálum um herbúnað aðildarríkjanna ásamt nákvæmum ákvæðum um tilkynningarskyldu og eftirlit eru órofa hluti af samningnum. Vonir eru því við það bundnar að traust og opinská upplýsingamiðlun muni útrýma til langframa þeirri tortryggni og leynd sem lengst af einkenndi hernaðarleg samskipti aðildarríkja Atlantshafsbandaslagsins og Varsjárbandalagsins og ríkjanna sex sem áður voru í Varsjárbandalaginu sérstaklega.
    Ár er nú liðið frá því að samningurinn var undirritaður í París. Tafir á staðfestingu samningsins í aðildarríkjunum eiga einkum rætur að rekja til ágreinings sem upp kom skömmu eftir undirritun hans um túlkun talningarreglna í 3. gr. samningsins. Einnig skapaðist óvissa um samningsbundnar skuldbindingar Sovétríkjanna eftir að Eystrasaltsríkin endurheimtu sjálfstæði sitt á sl. sumri. Bæði vandamálin hafa nú verið farsællega til lykta leidd.
    Ef litið er til áhrifa samningsins á Íslandi er hér á landi aðeins ein vopnategund sem samningurinn tekur til, þ.e. F-15 orrustuflugvélar í eigu Bandaríkjamanna sem staðsettar eru á Keflavíkurflugvelli. Munu eftirlitsákvæði samningsins ná til þeirra. Skuldbindingar Íslands eru fyrst og fremst þær að annast vissar tilkynningar samkvæmt samningnum, t.d. um eftirlitssvæði, komu- og brottfararstaði eftirlitsmanna, og þar blandast Flugstöð Leifs Eiríkssonar inn í, og taka á móti eftirlitsmönnum óski eitthvert fyrrum aðildarríki Atlantshafsbandalagsins að koma í eftirlitsferðir til Íslands. Hópurinn gæti dvalist á Íslandi allt að 10 daga í hvert sinn. Íslensk stjórnvöld mundu bera kostnað af ferðum, fjarskiptum og gistingu þeirra eftirlitsmanna sem hingað koma auk íslenskra fylgdarmanna. Samkvæmt samningnum er Íslandi einnig heimilt að framkvæma eða taka þátt í eftirlitsferðum í fyrrverandi aðildarríkjum Varsjárbandalagsins.
    Samningurinn kveður á um að eftirlitsmenn og flugáhafnir skuli njóta friðhelgi á sama hátt og sendierindrekar samkvæmt Vínarsamningnum um stjórnmálasamband frá 1961. Utanrrn. annast framkvæmd eftirlits í samræmi við ákvæði samningsins á Íslandi í samvinnu við varnarliðið og bandarísk stjórnvöld.
    Í nál. er á það bent að samningurinn sé í samræmi við þá stefnu sem Íslendingar hafa markað í afvopnunarmálum, sbr. ályktun Alþingis þar að lútandi frá 23. maí 1985, en það var ályktun sem hér var samþykkt einróma og er í 7 liðum og er þá í þessu tilliti sérstaklega átt við næstsíðasta lið þeirrar merku ályktunar þar sem segir:
    ,,Um leið og Alþingi áréttar þá stefnu Íslendinga að á Íslandi verði ekki staðsett kjarnorkuvopn hvetur það til þess að könnuð verði samstaða um og grundvöllur fyrir samningum um kjarnorkuvopnalaust svæði í Norður-Evrópu, jafnt á landi, í lofti sem á hafinu eða í því, sem liður í samkomulagi til að draga úr vígbúnaði og minnka spennu. Því felur Alþingi utanrmn. að kanna í samráði við utanrrh. hugsanlega þátttöku Íslands í frekari umræðu um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum og skili nefnd um það áliti til Alþingis fyrir 15. nóv. 1985.``
     Eins og ég gat um áðan fjallaði Alþingi mikið og lengi um þessar mundir um sameiginlega stefnu í afvopnunarmálum og öryggismálum almennt og komst að þeirri ánægjulegu niðurstöðu sem raun ber vitni. Ég hygg að þá hafi orðið til hugtakið ,,frá Grænlandsströndum til Úralfjalla`` sem var síðan hugtak forustumanna í þessum löndum, m.a. á merkum fundi hér í Reykjavík sem þarf ekki frekar að fara orðum um.
    Ég held að Íslendingar hafi staðið við það sem þeir ályktuðu um fyrir tæpum sjö árum, sú stefna hafi verið mjög víðsýn, skulum við segja, hún hafi verið raunsæ engu að síður og það sé Íslendingum til sóma að geta áréttað þá stefnu með því að sameinast um að afgreiða þetta mál og gjarnan að gera það mjög fljótt. Það er lögð á það áhersla að helst líði ekki mjög margir dagar þangað til þessi ályktun verður væntanlega einróma afgreidd og ég legg áherslu á að það er mikilvægt vegna stjórnmálaþróunar í Sovétríkjunum t.d. Það er mikilvægt að takast megi að ljúka fullgildingu samningsins í öllum aðildarríkjum hans meðan fyrir hendi er í Sovétríkjunum miðstjórnarvald sem getur átt aðild að fullgildingu samningsins. Við þetta tækifæri ætla ég þó ekki að fara lengra út í þá stóratburði sem nú eru að gerast í Austur-Evrópu og við hljótum að fagna.