Skattskylda innlánsstofnana

52. fundur
Laugardaginn 14. desember 1991, kl. 14:08:00 (2068)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Við lifum dálítið merkilega tíma þessa stundina. Svo er komið að farið er að bera á því að hv. stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar hóti hver öðrum málaferlum verði af skattlagningu á þessu eða hinu hér í landinu --- og er nú horfinn úr salnum sá sem djarfast hefur gengið fram í þessum efnum. Ég veit ekki hvað hv. formaður fjh.- og viðskn. hinnar nýju í þinginu þolir mikið af stefnum af hendi stjórnarsinna áður en hann snýst til varnar og fer að gagnstefna mönnum. Þetta geta því orðið mjög fjörleg málaferli. Við trúðum því að til valda væru komnir menn á Íslandi sem sögðu fyrir kosningar að þeir ætluðu að afnema vinstristjórnarskattana, en þeir hafa nú leitað með ryksugu og græjum í fjmrn. að frumvörpum sem ekki var búið að koma í gegn, að nýjum sköttum sem vinstri stjórnin hafði ekki komið á. Hvar var þetta í bláu bókinni, loforðalistanum stóra? Og hvað er mikið eftir? Nú er ráð að fulltrúi Morgunblaðsins bóki: Hvað er mikið eftir af svona frumvörpum í ráðuneytinu sem við eigum von á að fá í hendurnar fyrir jól? Það er nefnilega alveg makalaust ástand að hér komi menn með frumvörp inn í þingið sem mestu mælskumenn Sjálfstfl. á Alþingi Íslendinga og fjármálaséní rökkuðu niður þegar annar ráðherra flutti þau inn í þingið. Það getur vel verið að sumir séu orðnir svo fölir af vöku að það komi ekki til að blóðið renni fram í kinnarnar á þeim þannig að það sjáist ekki lengur hvort þeir verði rauðir undir athugasemdum.
    En hver er staðan að dómi ritstjóra Dagblaðsins? Leiðarinn er athyglisverður í Dagblaðinu þar sem þetta er tekið fyrir. ,,Marklausir með lífsstíl``, með leyfi forseta, heitir texti dagsins og er umhugsunarefni fyrir hæstv. ráðherra að átta sig á stöðunni.
    ,,Þegar illa árar, reynir mest á forustuna. Þá er gott að hafa stjórnskörunga á borð við Winston Churchill sem rísa hæst þegar þrautirnar eru mestar og hrífa fólk með sér til

sameiginlegra átaka gegn aðsteðjandi erfiðleikum. Slíka vantar okkur núna í kreppunni.
    Við höfum hins vegar fjármálaráðherra sem er búinn að setja um bílafríðindi ráðherra nýja reglugerð er felur í sér frávik frá því sem gildir um aðra forstjóra í þjóðfélaginu og leiðir til að ráðherrar borga ekki nema fjórðung af því sem ríkisskattstjóri taldi rétt.
    Þegar þessi sami fjármálaráðherra kemur með mæðusvip í sjónvarp og segir ástandið svo alvarlegt að allir hópar þjóðfélagsins þurfi að leggja sitt af mörkum er ekki ljóst hvort réttar sé að hlæja eða gráta.`` ( GHelg: Hvaða blað er þetta, þm.?) Þetta er það rit sem mestir frelsisvindar hafa blásið um, hv. 14. þm. Reykv., DV er það sem ég er að lesa upp úr. Þetta er sko ekki það útþvælda blað Þjóðviljinn. Ég vil að menn geri sér grein fyrir því. ,,Þarna er á ferð marklaus maður með marklausa predikun`` stendur í þessum texta.
    ,,Það er einmitt einkenni núv. ríkisstjórnar að hún sáir ekki trausti í hjörtu fólks. Hún er ekki skipuð stjórnskörungum sem geta fengið þjóðina til að taka möglunarlítið á sig nýjar byrðar. Hún er skipuð eiginhagsmunastrákum sem ekki njóta virðingar.``
    Herra forseti. Ekki veit ég hvers félmrh. á að gjalda í þessum texta.
    ,,Hinn einkennisgalli ríkisstjórnarinnar er að ráðherrar virðast telja starf sitt vera léttara en það er í raun. Þeir virðast fremur líta á ráðherratignina sem eftirsóttan lífsstíl en sem verkefni sem þurfi að fást við. Þeir eru að leika ráðherra en ekki að starfa sem ráðherrar.
    Þetta lýsir sér í að verk ríkisstjórnarinnar reynast illa unnin þegar þau koma fyrir Alþingi. Hún leggur fram bandorm, tillagna um álögur út og suður og niðurskurð út og suður án þess að hafa rætt málin við þá aðila sem helst eiga að sæta álögum og niðurskurði.
    Þegar virðingarlítil ríkisstjórn vinnur verk sín illa mætir hún andófi og uppreisn utan þings og innan. Hennar eigin þingmenn hlaupa í allar áttir undan ábyrgðinni af verkum hennar. Afleiðingin er að bandormur hennar um álögur og niðurskurð fer út um þúfur.
    Ráðherrar verða að láta undan síga og falla frá hverju málinu á fætur öðru; falla frá tilfærslu kostnaðar af málum fatlaðra til sveitarfélaga, falla frá auknum skólagjöldum, falla frá frestun jarðganga á Vestfjörðum, falla frá verulegum hluta af minnkun sjómannaafsláttar.
    Það hriktir í flestum þáttum bandormsins nema niðurskurði barnabóta af því að barnafólk á sér ekki málsvara á borð við þá sem berjast gegn álögum og niðurskurði á öðrum sviðum. Hvert á fætur öðru bila áform ríkisstjórnarinnar um minni taprekstur ríkisins.
    Komið hefur í ljós að ráðherrarnir hafa meira eða minna látið hjá líða að tryggja málunum stuðning eða hlutleysi. Sveitarstjórnir og samtök þeirra höfðu ekki hugmynd um ráðagerðir ríkisstjórnarinnar á þeirra sviði fyrr en þær birtust í margumræddum bandormi.
    Þannig fer tvennt saman hjá ríkisstjórninni. Hún vinnur ekki verk sín af nauðsynlegri kostgæfni til að tryggja þeim brautargengi. Og hún nýtur ekki þeirrar virðingar innan og utan þings að menn víki úr vegi til að auðvelda henni að koma málum sínum fram.
    Svona fer fyrir strákum með lífsstíl. Svona fer fyrir þeim sem gæta þess vendilega að leggja ekki niður dagpeningakerfi sem er ferðahvetjandi fyrir ráðherra af því að þeir vilja ekki draga úr lífsstíl sínum. Þeir halda lífsstíl sínum en glata trausti og virðingu annarra.
    Verst er að ráðherrarnir virðast sáttir við þá stöðu að þeir séu að leika ráðherra án þess að mark sé tekið á þeim svo framarlega að þeir fái bara að leika sér.``
    Þetta er texti dagsins úr því blaði Íslands sem færði þessari ríkisstjórn það fylgi sem dugði til þess að hún náði kjöri á Alþingi. Það er ekki skrýtið þó að umhvrh. sé í órólegu skapi þegar hann labbar fyrir púltið og áttar sig á því að það er brostin vörnin í blaðaheimi landsins fyrir ríkisstjórnina. Það er merkileg staða að mælskumenn þingsins á

borð við hæstv. landbrh. sem yfirleitt kom á framfæri skoðunum sínum að menn mættu vita hver væri hans vilji, hann býr við það að maður verður að fara að lesa hans fyrri ræður til að átta sig á því hverjar séu skoðanir hans á hinum ýmsu málaflokkum. Hvað segir svo þessi hæstv. ráðherra, hvað segir hann um það frumvarp sem er til umræðu? Hann segir svo, með leyfi forseta, 7. des. 1988, um skattlánsskyldu innlánsstofnana. Þetta er í dálki 1518 í Alþingistíðindum:
        ,,Ég er á hinn bóginn sammála því, herra forseti, að eðlilegt sé að skattlagning sé sambærileg á sambærilegan rekstur. Ég er fullkomlega sammála því að veðdeildir bankanna eigi að skattleggjast með sama hætti og önnur bankastarfsemi í landinu, en ég vil ítreka hitt sjónarmið mitt að enn er ýmis starfsemi í landinu sem er algerlega út í hött að skattleggja á sama tíma og ríkisvaldið sér sérstaka ástæðu til þess að veita fé á fjárlögum til þess að halda þeirri starfsemi uppi.``
    Svo mörg voru þau orð. Sá sami ráðherra gæti allt eins lagt til í dag að menn færu að skattleggja heilbrrn. og menntmrn. því að ríkið leggur þeim til fé á fjárlögum. Það gengur náttúrlega ekki upp að heill flokkur, stærsti stjórnmálaflokkur landsins, breytist í kamelljón í hvert skipti sem hann kemur í ríkisstjórn og aðeins örfáir þingmenn í hans röðum hafi þrek til að verja þær skoðanir sem þeir vörðu áður þegar þeir voru í stjórnarandstöðu. Þetta er málflutningur og stefna sem gengur ekki upp. Þetta hlýtur að þýða hrun fyrir þann stjórnmálaflokk sem þannig stendur að verki.
    Ég hygg að það sé umhugsunarefni að minnast þess að mjög vinsæll breskur gamanmyndaþáttur var sýndur í Ríkissjónvarpinu. Hann bar nafnið ,,Já, ráðherra.`` Og nú upplifir Alþingi Íslendinga að tveir hæstv. ráðherrar Sjálfstfl. sitja í ráðuneytum þar sem alþýðubandalagsráðherrar sátu áður og það verður ekki annað séð en það sé búið að tölvutengja þessa ráðherra þannig að þar komi bara ,,já, ráðherra`` því að enn hefur ekkert það plagg sem þar hefur verið áður undirritað og notað ekki verið framlengt af þeim gömlu sem þar voru fyrir. Hins vegar hafa þeir komið með nýjar hugmyndir á sumum sviðum, það skal viðurkennt. En það er eins og gamli staflinn allur hafi verið tölvukeyrður inn og þær kvikmyndir sem sýna hvernig Kínverjar fara að því að heilaþvo menn sýna fornaldaraðferðir miðað við þá tækni sem virðist vera notuð í þeim tveimur ráðuneytum.
    Ég hef hlustað á fleiri ræður um efnahagsmál eftir ákveðinn þingmann í þinginu en nokkurn annan. Hygg ég að á engan sé hallað þó að ég haldi því fram að af þeim þingmönnum sem nú hafa setið á Alþingi hefur trúlega enginn annar skrifað meira um efnahagsmál, flutt fleiri ræður um þau efni og komið mönnum til að hugleiða eitt og annað í því sambandi. Einnig verður að segja þessum þingmanni það til hróss að hann situr meira í þingsölum en margir aðrir þingmenn. Athyglisvert er að hið unga og nýja lið sem komið er í þingið áttar sig ekki á því að það er virðingarleysi við Alþingi Íslendinga hvað sumir verja litlum tíma í að sitja í þingsal og hlusta á mál manna. Þessi hv. þm., sem ég hygg að flestir viti hver er, án þess að ég hafi nafngreint hann, er hv. 4. þm. Reykv.
    Hv. 4. þm. Reykv. flutti athyglisvert mál á sínum tíma þegar þessi mál voru til umræðu. ( EKJ: Hvaða ár?) Það var árið 1988. Við munum eftir ástandinu 1988. Þá var að myndast kreppa í landinu. Þá var halli í undirstöðuatvinnuvegi okkar í iðnaði, þ.e. fiskvinnslunni, og menn spurðu sjálfa sig: Hvert stefnir? Í slíku andrúmslofti flytur hv. 4. þm. Reykv. ræðu um skattskyldu innlánsstofnana. Ég vil, með leyfi forseta, grípa nokkuð niður í þessa ræðu. Hann beinir orðum sínum til fjmrh. og segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Hæstv. ráðherra segir að vandi sjávarútvegsins nú, ef ég hef skilið hann rétt, þ.e. tapið, sé eitthvað svipaður eins og gróðinn eða umframkostnaður íslenska bankakerfisins, þ.e. tveir milljarðar. Vel má vera að það megi lækka kostnað íslenska bankakerfisins um 2 milljarða, ég skal það ekki draga það í efa, en að vandi íslenska sjávarútvegsins, frystihúsanna t.d. og atvinnuveganna yfirleitt, sé eitthvað á þessari breiddargráðu, það er náttúrlega algjörlega út í bláinn. Það vita allir menn, ekki bara þeir sem við atvinnurekstur fást, heldur líka fólkið í landinu.
    Þennan vanda atvinnuveganna á nú að auka, að sjálfsögðu með því að ríki heimti enn meira í sinn hlut en nokkru sinni áður í sögunni. Mér telst svo til að þeir skattar sem nú er talað um að leggja á þjóðina og þar með auðvitað atvinnuvegina, vegna þess að féð sem þjóðin greiðir kemur hvergi annars staðar frá en frá atvinnuvegunum.`` Þetta hefur nú algjörlega farið fram hjá hæstv. fjmrh. og má nú merkilegt vera hvernig það hefur gerst.
    ,,Það er að vísu rétt að um það bil þriðjungur af launatekjum í þjóðfélaginu er á vegum ríkis og sveitarfélaga en 2 / 3 allra launagreiðslna og útgjalda eru frá atvinnuvegunum þrátt fyrir allt. Ríkið hefur þann háttinn á að skattleggja fólkið og einhvers staðar verður fólkið að afla teknanna til þess að borga skattana, t.d. vörugjaldið sem nú á að leggja á o.s.frv.     En ég ætla að endurtaka þetta. Ég er ekki viss um að menn hafi gert sér grein fyrir því að 2 / 3 af launagreiðslum í þessu landi eru þó enn á vegum atvinnulífsins, einstaklinga, félaga þeirra, samtaka og atvinnuveganna í heild sinni en þriðjungur hjá ríkinu. Þetta er ósköp þægilegt hjá ríkinu, segja þeir. Við getum bjargað okkur, við getum náð með sköttum í þennan þriðjung af launagreiðslunum og í gengisbreytingarnar því að útgjöld ríkisins þegar upp er staðið eru raunar ekkert annað en beinar og óbeinar launagreiðslur og svo gjaldeyrisnotkun. En þeir ætla núna að leggja á u.þ.b. 6 milljarða í nýjum sköttum til þess að komast hjá halla á fjárlögunum sem væntanlega verður í kringum 6 milljarðar núna eftir nýjustu upplýsingum. Þetta var raunverulega gert í fyrrahaust og þetta hefur verið gert margsinnis á liðnum áratugum eins og menn vita. Ríkið ætlaði að bjarga sér með því að leggja á skatta og varðaði þá auðvitað ekkert um atvinnuvegina. Raunin hefur reyndar orðið sú að hallinn hefur farið vaxandi, eiginlega í réttu hlutfalli við aukna skattheimtu, einmitt af þeim sökum að gjaldahlið er nefnilega til á fjárlögum líka og ekki bara tekjuhlið. Það hefur enginn maður skýrt betur en einmitt hæstv. fjmrh. í utandagskrárumræðu nú fyrir skömmu í sameinuðu þingi þegar hann gerði grein fyrir stöðu ríkissjóðs. Þar sagði hann og lagði á það áherslu, sem var alveg rétt hjá honum: Gjöldin hafa hækkað miklu meira en við héldum og tekjurnar miklu minna og auðvitað hækka tekjurnar enn þá minna núna þegar þeim er að takast áform sitt sem er ekkert dulið. Þeir eru ekkert að dylja það að þeir ætli að koma á kreppu og atvinnuleysi. Það segja þeir í öðru hverju orði og ætla þar að auki að lækka kaupið þó að allir viti að verðlagið og allur kostnaður muni rjúka upp úr öllu valdi á næstu mánuðum. Það veit hvert einasta mannsbarn.``
    Ef menn hafa einhvern tíma verið að búa til kreppu þá eru þeir að búa hana til núna. Með því að setja atvinnuvegina í stöðugt erfiðari og þrengri stöðu eru þeir að minnka möguleika þeirra til kaupgreiðslna í landinu og þá eru þeir að minnka möguleikana á því að ríkið fái tekjur.
    Þetta er kjarninn í því sem hv. 4 . þm. Reykv. var að segja í þessum texta. Það gengur ekki að æðsta stjórn landsins hafi ekki meira útsýni en það að þeir horfi bara á ríkiskassann en ekki samhliða á atvinnuvegina og á þróun sem er að eiga sér stað í landinu. Það skyggni er of lítið. Það leiðir til ófarnaðar. Það leiðir til atvinnuleysis og kreppu. Ég ætla, með leyfi forseta, að halda áfram lestrinum. Á öðrum stað segir: ,,Hitt er hins vegar óðs manns æði í kreppuástandi, sívaxandi, að fara að dengja öllum þessum sköttum yfir.``
    Ég hélt að sú hagfræði væri kunn, jafnvel þeim ungu sem nú ganga úr salnum, að í kreppuástandi leiðir það til þess að dýpka kreppuna ef ríkið eitt heimtar til sín. Það leiðir til þess að kreppan verður dýpri og enn þá alvarlegri. Það er merkilegur hlutur að það

er eins og þessir herrar sem nú stjórna fyrir Sjálfstfl. hafi ekki lesið eitt einasta rit sem hv. 4. þm. Reykv. hefur skrifað, ekki eitt einasta. Ég efa það ekki að þeir séu vel lesnir í þeim fræðum sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur verið að dengja yfir þjóðina. Þeir mega svo meta það hvor skyldi vera nær því að þekkja íslenskt atvinnulíf og á hvorum bæri að taka meira mark. Það er alveg furðuleg staða að núna skuli menn láta sér detta það í hug að útgreiðslur úr ríkissjóði inn í sjóðakerfið sé merkasti skattstofninn sem þeir hafa undir höndum. Hafnabótasjóður, Orkusjóður og slíkir sjóðir.
    Ég geri mér grein fyrir að við búum við nokkuð sérstæð vinnubrögð. Við búum við þau vinnubrögð að það sé eins og inn í þingið sé verið að leika sér að því að demba inn málum og svo eigi að láta á það reyna hvort e.t.v. sé þingmeirihluti fyrir þeim. Það breytir engu hjá þeim sem þetta verk vinna hvort þeir eru að setja hér inn í þingið mál sem þingmenn stjórnarinnar hafa áður gert grein fyrir afstöðu sinni til með svo skýrum hætti að þeir þurfa að standa hér upp, koma upp í ræðustól og segja: Því miður, allt sem ég hef sagt um þetta var vitleysa á sínum tíma. Ég játa vanþekkingu mína. Ég er reiðubúinn til að iðrast og biðjast fyrirgefningar. Er það þetta sem þeir eru að fara fram á við sína þingmenn sem hafa haft skoðanir í þessum efnum? Hver er tilgangurinn? Eða er það svo að þetta frumvarpaflóð sem hér er sett inn eigi að verða nokkurs konar viðskipti, gjaldmiðill milli stjórnarflokkanna í átökum um það á seinni stigum mála hvað verði gert að lögum hér í þinginu og hvað ekki? Er það e.t.v. skýringin, að þetta eigi að vera gjaldmiðill í hrossakaupum hjá hæstv. ríkisstjórn? Ég sé ekki tilganginn í svona vinnubrögðum. Og ég verð að segja það eins og er að þó að hæstv. landbrh. kæmi upp í pontu og kæmi með andsvar við ræðu hv. 1. þm. Austurl., þá vantaði eitt. Það vantaði það að hæstv. ráðherra tryði því sjálfur hvað hann var að segja. Hann las þetta upp eins og þulur í útvarpi les upp texta sem hann hefur engar skoðanir á. Þegar hann aftur á móti flutti sína ræðu á sínum tíma efaðist enginn um að þetta var skoðun hæstv. landbrh. þá og á þessu tvennu er meginmunur. Í öðru tilfellinu er um að ræða marklausa predikun sem enginn maður tekur mark á, hver einasti maður sér í gegnum og öllum er ljóst að er ekkert nema blekking. Undir hinum kringumstæðunum eru menn að segja meiningu sína.
    Mér eru það hreint út sagt óskiljanleg fræði hvers vegna sjóðakerfi, sem ætlunin er að halda áfram að moka peningum í úr ríkissjóði, á að vera aflögufært til þess að hægt sé að skattleggja það. Hefði þá ekki verið jafnskynsamlegt að láta minni peninga fara í þetta sama sjóðakerfi, Hafnabótasjóðinn t.d.? Ef hann er svona ofhaldinn af peningum, af hverju koma menn þá ekki bara með hugmyndir um lægri framlög?
    Ég minni líka á það, og það er kannski umhugsunarefni fyrir Alþfl., að hæstv. félmrh. lagði fram samning til samþykktar á Alþingi í fyrra sem fjallaði um sjálfstæði sveitarfélaga. Þetta var Evrópusamningur. Það eru margar athyglisverðar greinar í þessum samningi sem undirstrika það að ekki er ætlast til þess að ríkið fari eins og jarðýta yfir sveitarfélögin án þess að hafa þar samstarf og samráð. Þeir sem eru hér ungir í þinginu og hafa ekki kynnt sér þennan samning skaða sig hreint ekki á því að lesa hann yfir og átta sig á því hverjar hinar siðferðilegu skuldbindingar eru sem Alþingi Íslendinga var að taka á sig með því að samþykkja þennan samning.
    Nei, það er merkileg staða sem hæstv. forsrh. er kominn í. Hann lýsir því yfir hér úr ræðustól að í innan við eins km fjarlægð frá þeim stað sem Alþingi Íslendinga stendur treysti hann sér ekki til að bera merki ríkisstjórnarinnar á sinni flaggstöng. Þar telur hann betra að mála yfir nafn og númer og sigla undir hlutlausum fána.
    Þegar borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti mótmæli gegn því sem hér var verið að vinna lýsti hæstv. forsrh. því yfir að hefði hann setið þar hefði hann ekki greitt atkvæði. Það er yfirlýsing um það að hann hefði ekki þorað að sigla sínu skipi þar undir fána núv.

ríkisstjórnar. Hann hefði viljað sigla því undir hlutlausum fána. Spurningin er: Ef hann hefði nú verið kominn nær þar sem hitinn var heitari í þeirri andstöðu sem er við núv. ríkisstjórn, hefði hann þá þorað að sigla undir hlutlausum fána eða hefði hann þurft að draga fána byltingarsinna á loft svo að hann þyrði að vera yfir höfuð á siglingu á sínu skipi? Það er ekki sterk staða ef hæstv. forsrh. sjálfur þorir ekki, í hvaða valdastofnun sem hann er staddur á hverjum stað og hvar sem er, að verja þá ríkisstjórn og hennar verk sem hann er að vinna að. Hver er staða slíkrar ríkisstjórnar? Hvernig getur slíkur hæstv. forsrh. farið fram á það að aðrir menn úti í þjóðfélaginu þori þá að bera merki stjórnarinnar og segja: Þetta er rétt, ef hæstv. forsrh. telur að nauðsynlegt sé að draga niður fánann og sigla undir fána hlutleysis?
    Hvernig er komið fyrir hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni? Það er ekki nóg að honum dugi litir kameljónsins, að vera í stjórn eða stjórnarandstöðu. Það duga ekki tveir litir, það verða að vera þrír litir. Við höfum kynnst litnum á því kameljóni hér inni i þingsölunum. Við kynnumst litnum á því kameljóni í Verslunarráðinu en við eigum eftir að kynnast litnum á því kameljóni ef það væri komið í stjórnarandstöðu. Þrír litir. Það dugar ekki minna. Þetta er merkileg staða. Og svo á hinn almenni stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar að hafa þrek til þess úti í samfélaginu að halda merkinu uppi og segja: Ég er stjórnarsinni, þegar þetta lið er komið á handahlaupum á flótta út um næstu dyr og þorir ekki að verja það sem hér er verið að leggja til. ,,Hvenær sigraði tvístraður her?`` spurði Örn Arnar forðum. Halda menn að þessi tvístraði her sem nýtur svona forustu vinni einhverja sigra? Halda menn að það gangi upp að þegar hæstv. fjmrh. er kominn sem sjálfstæðismaður í fjmrn. taki hann upp frumvörpin, sem fulltrúi Alþb. á þingi barðist fyrir en Sjálfstfl. felldi og eyðilagði að hægt væri að koma í gegnum deildina, og fari að berjast fyrir þeim?
    Það er ein skýring til á þessu öllu saman. Hún er sú, og ég þori varla að nefna hana, að það sé yfirráðherra yfir ríkisstjórninni sem skipi mönnum fyrir og þar sé staðan sú að kötturinn sé orðinn hræddur við músina. Þess vegna hafi þetta ástand skapast.
    Við vitum að Sjálfstfl. fer ekki einn með völd á Íslandi í dag. Þetta er samsteypustjórn og yfirleitt er það svo að alþýða manns í landinu er ekkert hrædd við Alþfl. Hins vegar er hugsanlegt að þar innan borðs sé yfirráðherra, ekki neinn já-ráðherra heldur yfirráðherra, og eftir hans vísbendingum, tillögum og fyrirskipunum dansi bæði hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. --- og er þá orðið stórum verra ástand hjá þessum tveimur ráðherrum en í bresku gamanmyndaþáttunum þar sem þeir bjuggu þó aðeins við ofríki starfsfólksins í ráðuneytunum.
    Ég fer nú að skilja að það hefur verið þreytusvipur á hæstv. fjmrh. og það verður að segjast eins og er að fölur sem lík hefur hæstv. ráðherra setið í sínum ráðherrastól og staðið sína plikt þrátt fyrir mikið álag á undanförnum dögum en gleðibragur enginn verið á hæstv. ráðherra. Ef skýringarnar liggja í því að fyrirskipanir yfirráðherrans séu slíkar að það valdi honum andvöku förum vð skilja, þessir óbreyttu. Það hefur ekki verið of mikill svefn að undanförnu og ef sá litli hvíldartími sem menn hafa haft hefur farið í andvökur vegna fyrirskipana frá yfirráðherranum fer maður að skilja hvernig stendur á þessu öllu saman.
    Herra forseti. Ég tel að það sé í ófrjóan akur að sá að halda lengri ræðu um þetta málefni yfir hæstv. ráðherrum. Ég veit að þeir eru hér í salnum, að vísu skráðir stjórnarsinnar, sem hugsa sitt á þessari stundu.